04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í C-deild Alþingistíðinda. (3586)

8. mál, erfðaleigulönd

Guðbrandur Ísberg:

Ég held, að margt sé nýtilegt við frv. þetta, en eins og hv. 1. þm. S.-M. benti réttilega á, er líka margt, sem þarf að laga í því. Má þar t. d. nefna ákvæðin um stærð skáka þeirra, sem ætlaðar eru til grasræktar og garðyrkju.

Hv. frsm. landbn. virtist telja, að það þyrfti tvo hektara til þess að gefa 1 –2 kýrfóður, en þetta er mesti misskilningur. Sé landið sæmilega ræktað, er hægt að fá tvö kýrfóður af miklu minna landi. Það þarf oft ekki nema 1/2 ha. til þess að gefa kýrfóður. Ég get því vel búizt við, að menn kæri sig almennt alls ekki um svo stórt land til grasræktar sem í frv. er ákveðið, að það minnst megi vera, eða 2 ha., og hið sama er að segja um land, sem ætlað er til garðræktar. Íbúar kaupstaða og sjávarþorpa miða stærð lands þess, er þeir taka til ræktunar, venjulega við það, sem þeir geta annað sjálfir með sínum eigin vinnuafla aðallega hann tíma, sem þeir hafa eigi aðra vinnu. Ávinningurinn yrði lítill eða enginn, ef þeir þyrftu að kaupa vinnu af öðrum. Hann liggur sem sé eingöngu í því að geta notað eigið vinnuafl, þegar um aðra vinnu er eigi að ræða.

Mér þykir það hart ákvæði í frv., að íbúar kaupstaða skuli geta gengið í land, sem er í ábúð, og tekið það til notkunar án bóta til leiguliða, en það er hægt samkv. 3. gr. Hvað snertir þjóðjarðir og kirkjujarðir, þá getur verið um lífstíðarábúð að ræða á þeim. Virðist mér því, að ábúendur þeirra ættu að njóta sömu verndar og um ræðir í 4. gr. Ég vildi benda hv. n. á þessi atriði, og ég held, að bezta lausnin á málinu væri sú, að hv. landbn. tæki það til frekari athugunar og boðaði á fund sinn þá menn, sem nú hafa hreyft andmælum gegn ýmsum atriðum frv., en vilja hinsvegar samþ. það með nokkrum breyt. í það horf, að allir mættu við una.