11.04.1932
Neðri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í C-deild Alþingistíðinda. (3591)

8. mál, erfðaleigulönd

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Eins og hv. dm. mun kunnugt, þá komu fram ýmsar aths. við einstakar gr. frv. við 2. umr., svo n. hefir tekið það aftur til athugunar og fallizt á að bera fram þær brtt., sem hér liggja fyrir á þskj. 369. hér er einnig brtt. frá hv. þm. Ísaf. á þskj. 317. Ef sú brtt. nær fram að ganga, þá virðist nokkuð kippt fótum undan því, sem er aðalatriðið í 2. gr., að ekki sé hægt að halda löndum fyrir einstaklingum í kaupstöðum eða þorpum. Ef sú brtt. verður samþ., má búast við því, að bæir, þorp eða kauptún geti haldið svo og svo miklu af óræktuðu landi an þess að hafa gert nokkurn viðbúnað til ræktunar fyrir bæinn. En að geyma lönd ósnert og óræktuð í von um, að bæjarfélag fari einhverntíma í framtíðinni að reka búskap, það virðist vera tilgangslaust og aðeins til að hamla því, að einstaklinar geti fengið bletti til ræktunar. En ef bæjarfélagið hefir hafið undirbúning til ræktunar fyrir sjálft sig, þá er ekki hægt að krefjast útmælingar skv. frv. Aftur á móti höfum við viljað rétta hv. þm. hendina með því að bera fram brtt, á þskj.

369 um það, að ekki sé hægt að taka land, sem kaupstaðarbúar hafa til beitar fyrir kýr og kindur sínar. Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þessa brtt., en ég vildi mælast til þess, að hv. þm. vildi taka sína brtt. aftur, þar sem við höfum gengið nokkuð á móti honum í þessu máli.

Við 1. og 2. umr. veittist hv. 1. þm. S.-M. nokkuð að því ákvæði, að landræktarfélögum væri gefin heimild til að taka lönd. Til þess að niðurfella deilu um landræktarfélögin, þá höfum við komið með brtt. um að fella það burt, að landræktarfélög hafi þá heimild að taka land eignarnámi, sem sveitarstjórnir hafa. Þá eru það aðeins sveitarstjórnir, sem hafa leyfi til að taka eignarnámi óræktað land í grennd við kaupstaði, ef mjög mikil nauðsyn er á því. Annars býst ég við, að það fari svo, að sveitarstjórnir muni fyrst leita samninga við hlutaðeigandi einstaklinga, sem lönd eiga nærliggjandi. Og vanalega mun það vera svo, að einmitt af því, að eignarnám er heimilað eða leyft í lögum, þá munu þeir verða fúsari til samninga.

Í 2. brtt. er tekin burt þessi heimild fyrir landræktarfélag, og 5. brtt. er afleiðing af þeirri brtt., svo um hana þarf ég ekki að tala neitt.

Þá hefir n. einnig gert brtt. við 5. gr., að í staðinn fyrir 2 ha. komi 11 ha., og fyrir 3000 m2 komi 1000 m2. Það hefir komið fram í ræðum, að ekki væri heppilegt að hafa lágmarkið á landstærð svo mikið eins og í frv. er ákveðið. Við gátum fallizt á það í n. að færa lágmarkið niður. Ég vænti, að hv. d. samþ. þessa brtt., og má því vænta, að frv. fái góðan byr í gegnum deildina.