11.04.1932
Neðri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (3592)

8. mál, erfðaleigulönd

Einar Arnórsson:

Eins og sumum hv. dm. er ef til vill kunnugt, þá var málefni það, sem þetta frv. ræðir um, tekið til meðferðar á síðasta bæjarstjórnarfundi í Rvík. Það eru ýms atriði í frv., sem bæjarstj. í heild sinni getur ekki fellt sig við.

Það er sjálfsagt gott og gagnlegt að setja ákvæði um það, að íbúar kaupstaða geti fengið lönd á leigu með haganlegum kjörum, en það eru fyrirmæli í þessu frv., sem bæjarmönnum hér þykir ganga of nærri rétti bæjarfélaga til að ráða málum sínum sjálf. Þessa brtt., sem n. ber fram við frv., er heldur ónóg, að því er mér finnst. Höfuðbreyt. er sú, að jarðræktarfélög hafi ekki rétt til að taka land eignarnámi, sem í frv. er. Ég hafði búizt við, að n. kæmi með meiri breyt. en þessar. Það eru fyrst fyrirmælin í 2. gr., sem ég vildi gera aths. við. Þar stendur, að ef kaupstaður eða sveitarfélag á land, sem þarft er til ræktunar, þá skal það selt á erfðaleigu íbúum bæjarins eða sveitarfélagsins með heim kjörum, sem í frv. segir. En þó er sá varnagli sleginn, að það megi ekki gera, ef líkur eru til, að á landinu þurfi að halda til húsalóða í náinni framtíð, og eftir brtt. n. ennfremur, ef landið kynni að vera nauðsynlegt til hagheitar. Þetta í náinni framtíð er nokkuð teygjanlegt hugtak. Þar sem um vöxt bæja er að ræða, getur farið svo, að land, sem nú er ekki álitið að þurfi til byggingarlóða, þurfi að nota í þessu skyni eftir 10–20 ár. Og þá er auðséð, að bæjarfélögin þyrftu aftur að kaupa landið, samkv. 12. gr. frv. Mér hefði þótt gott, ef n. hefði tekið þetta atriði til athugunar og gefið einhverja skilgreiningu á því, hvað væri náin framtíð í þessu sambandi. Svo veit ég ekki, hver á að skera úr því, hvað á að telja nána framtíð og hversu miklar líkur eiga að vera fyrir þeirri nauðsyn, sem þurfi til þess að halda ákveðnu landi til húsalóða. Það er hvergi sagt, hver eigi að skera úr því. Ef til vill er það stjórn bæjarfélaganna eða ef til vill einhverjir aðrir, eða þá ef til vill Búnaðarfélagið. Þá eru fyrirmæli í frv., sem skerða mjög sjálfstjórnarrétt bæja og sveitarfélaga. Nú er það vitanlega svo, að bæjarstjórnir gera ákvörðun um meðferð á þessum löndum. Þau gera ákvörðun um það, hvort land eða hvaða land skuli undirbúið til slíkrar meðferðar. En bæjarstjórnir og sveita gera nú uppdrátt á landi, sem ætlazt er til, að selt sé á leigu til ræktunar. Og þær gera líka ákvarðanir um það, hvernig vegi skuli leggja og hvernig skurðir skuli gerðir. En eftir frv. á að taka allan slíkan rétt af sveitar- og bæjarfélögum. Búnaðarfél. á að ákveða hvernig skurðir skuli gerðir um lönd þessi, og eftir frv. á að taka allan slíkan rétt af sveitar- og bæjarfél. Búnaðarfél. á að gera skipulagsuppdrátt, og það á að ákveða stærð landanna, hvers um sig, og það á að ákveða skurði og vegi, að vísu bæjarstj. að kostnaðarlausu, og það út af fyrir sig er nú gott og blessað. Búnaðarfélagið á að ráða alveg þessum atriðum öllum, bæjarstjórnirnar hafa ekkert um það að segja, nema Búnaðarfélagið á að vísu að líkindum að leita umsagnar bæjarstjórnanna, en það þarf ekki frekar en því sýnist að fara eftir henni. Það er ekki nóg með, að forráð á þessu séu alveg tekin af bæjarstjórnum, bæði um stærð landanna, vega- og skurðagerðir, heldur er líka tekið undan forráðum bæjarstj. að ákveða um leigu. hér á að selja land bæjanna á leigu, og sá, sem landið á, má ekki hafa neitt um ákvörðun leigumálans að segja. Það eina, sem hann getur gert, ef honum líkar ekki úrlausn Búnaðarfél., er, að hann getur áfrýjað málinu til atvmrh. Þetta finnst mér ganga nokkuð langt, miklu lengra en ég veit dæmi til á öðrum sviðum. Mér virðist, að hér ætti að fara eftir samningum milli þeirra, sem lönd taka á leigu, og bæjarfélaganna, sem löndin selja á leigu. Annars hefir það verið svo í Reykjavík, að bæjarstj. hefir gert samþykkt um leigulönd og leigumála, sem í öllum atriðum mun hagkvæm leiguliðum. Það er a. m. k. fjarri því að vera í anda stjskr., að almenni loggjafinn setji slíka ákvörðun, að svipta bæjarfélögin sjálfstjórnarrétti sínum. Það er eins og að svipta menn fjárforræði, gera menn ómynduga. Það er og andstætt 63. gr. stjskr., að land sé þannig tekið af eiganda an þess að honum sé tryggt fullt endurgjald. Ef svo kemur fyrir, sem líkur eru til að verði, að land, sem tekið hefir verið á leigu, þurfi nauðsynlega að taka undir hús í barnum eða einhver mannvirki, sem bærinn ræðst í að láta gera, þá verður bærinn eða sveitarfélagið eftir 12. gr. að greiða bætur fyrir landið til leigutaka. Því skal miða við sannvirði landsins til landbúnaðar og kostnað við ræktun landsins. Verður þá landverðið í raun og veru tvíborgað. — ég geri ráð fyrir því, að orðið „kostnaður“ í þessari gr. sé prentvilla. Þar eigi að standa „kostnað“. Mér virðist þurfa að orða þessa gr. svo, að það komi fram, að bæjar- eða sveitarfélag, sem verður að taka slíkt land til almenningsþarfa, þurfi ekki að borga nema skynsamlegan kostnað við ræktun landsins og þau hús og mannvirki, sem þar hafa getað talizt nauðsynleg, og að skýrt sé kveðið á um það, að sá, sem landið hefir á erfðaleigu, eigi ekki að fá meira. Ef t. d. landið hefir komizt í „spekulation“, þá þarf að fyrirbyggja það, að sveitar- eða bæjarfélögin þurfi að endurkaupa það háu verði. Þetta þarf að koma skýrara fram en það gerir nú í 12. gr.

Þá er eitt atriði enn. Í frv. er gert ráð fyrir því, að bæjar- og sveitarfélög eigi að kosta vegi og aðalframræsluskurði um lönd sín og greiða þann kostnað úr sveitar- eða bæjarsjóði. En nú er ekki svo samkv. frv., að þau hafi rétt til að ákveða, hvenær þetta skuli gert. Búnaðarfél. Ísl. á að hafa það vald. Það getur því komið til sveitar- og bæjarstjórnanna og sagt: Góðir hálsar! Nú verðið þið þegar að leggja svo og svo mikið til vegagerða eða framræslu á þessum stað. Ég hefi nú ákveðið, að þessir vegir skuli lagðir og þessir skurðir vera grafnir á þessu og þessu tímabili. — Búnaðarfél. er með þessu fengið úrskurðarvald yfir sveitar-og bæjarstjórnum, sem samkv. frv. hafa ekkert við því að segja, heldur verða að hlýða. En hvernig fer nú, ef sjóðir bæjar- og sveitarfélaganna eru svo tómir, að bæjar- og sveitarfélagið getur ekki innt þessa skyldu af hendi þegar þess er krafizt? Já, hvernig fer? — Búnaðarfél. Ísl. á eftir frv. að hafa ótakmarkað vald í þessu efni, því eru fengin yfirfjárráð yfir landeiganda að þessu leyti.

Ég vil geta þess, að 1. málsgr. 5. gr. frv. er í ósamræmi við þau ákvæði, sem sett hafa verið hér í Reykjavík um hina svo nefndu smágarða (Kolonial Have). Stærð þeirra má vera 100 m2, 300 m2 og 1000 m2. Eftir brtt. n. mega þessar skákir vera 1000 m2, svo það fellur þá saman, ef þetta ákvæði frv. verður samþ., við það, sem slíkir reitir mega nú vera stærstir hér. En verða þá allir þeir reitir, sem minni eru, ólögulegir? Og hver á að skera úr því? Hv. landbn. hefði átt að taka þetta mál til rækilegri athugunar en hún hefir gert, þegar hún lét fresta málinu og fékk það tekið af dagskrá. Og ég hafði einmitt búizt við meiri árangri af því en raun er á orðin. Ég held, að réttast væri fyrir hana að fá nú umr. frestað og taka málið enn á ný til rækilegrar íhugunar, og athuga því það, sem ég hefi sagt. Ég hygg, að málið hefði gott af þessu. Í Ed. yrði ef til vill það, sem ég hefi borið fram, tekið til íhugunar og frv. breytt samkv. því. Yrði það þá að koma hingað aftur, og er óvist, að þá ynnist nægur tími til að afgr. það. Ég held því, að n. gerði rétt í því að athuga mál þetta rækilega af nýju.