11.04.1932
Neðri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í C-deild Alþingistíðinda. (3594)

8. mál, erfðaleigulönd

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykv. hefir gert nokkrar aths. við frv. út frá sjónarmiði bæjarstj. Rvíkur, og sjálfsagt líka út frá sínu eigin sjónarmiði. Ég hefi séð þess getið í blöðum, að bæjarstj. Rvíkur hafi tekið þetta mál fyrir á fundi hjá sér og gert við það líkar aths. og þær, er hv. 2. þm. Reykv. gerði nú, og talið ófært, að það yrði að lögum. Það getur nú vel verið, að fleiri bæjar; eða sveitarstjórnum, þyki þetta sama hvað sér viðkemur. A. m. k. er svo að sjá, að bæjarstj. Rvíkur þyki vont að mega ekki halda sínum löndum. En ef taka ætti tillit til allra þeirra, er eitthvað hafa að athuga við hvert frv., þá yrði lítið gert, því venjulega mun það vera svo, að hagsmunir einhverra rekast á. Er þá vitanlega sú leið ein fær, sem virðist miða til mestra og almennastra hagsælda.

Hv. 2. þm. Reykv. fann að ýmsu í frv., en satt að segja fundust mér þær aðfinnslur ekki svo veigalmiklar, að frágangssök væri að samþ. frv. þeirra vegna.

Ég hefi heyrt kvartað undan því af einstaklingum hér, og því hefir verið lýst fyrir mér af starfsmanni í Búnaðarfél. Ísl., hve mikla stundun bæjarstj. Rvíkur hefir á það lagt að halda löndum hér í nánd við bæinn fyrir þeim mönnum, er falazt hafa eftir þeim og talið sig hafa þeirra þörf. Þetta getur nú að nokkru leyti verið eðlilegt með bæ, sem er í hröðum vexti og ný hverfi, með nýjum götum eru að hyggjast, svo ekki þurfi að endurkaupa þau. En bæjarbúum getur líka verið nauðsynlegt að fá lönd sér til hagsbóta, fyrir garða eða fyrir tún handa t. d. einni kú, o. s. frv. Þarna geta því hagsmunirnir rekizt á.

Það er rétt, að ákvæðið „náin framtíð“ getur orkað tvímælis. Hv. 2. þm. Reykv. sagðist ekki vita, hvernig bæri að skilja það, og spurði, hvort það t. d. þýddi 10 eða 20 ár. En ég held, að hér séu nú ekki svo mikil vandræði á ferðum. Þar sem búið er að gera skipulagsuppdrætti og fá samþykkt á þeim, þá er búið að skipuleggja byggingar og ákveða lóðir eða lönd undir þær í „náinni framtíð“.

Þá telur hv. 2. þm. Reykv. það ófært, að Búnaðarfél. Ísl. sé fengið það vald að ákveða leigu eftir þau lönd, sem tekin verða á erfðafestu samkv. því, sem lagt er til í frv. Þetta stendur nú að vísu svo í frv., en ég held þó, að engin ástæða sé til þess að vera neitt hræddur við það ákvæði. Það er einmitt með þessu ákvæði svo til ætlazt, að farið sé með ákvörðun leigunnar eftir því, sem hæfilegt er á hverjum stað, en það getur verið mismunandi. Þannig er eðlilegt, að leigan væri hærri hér í Rvík heldur en í smákauptúnum úti um land. Ég er fyrir mitt leyti viss um, að ekki þarf að óttast þetta ákvæði. Ég er viss um, að Búnaðarfélagið, eða þeir starfsmenn þess, sem þetta hvílir á, munu, eftir því sem auðið er, gæta hagsmuna beggja. 5. gr. gerir ráð fyrir því, að Búnaðarfélagið skipuleggi þessi lönd og geri áætlanir um framræslu þeirra. sé ég eigi annað en að það sé gott fyrir bæjar- og sveitarfélögin að eiga aðgang að Búnaðarfélaginu hvað þetta snertir.

Hv. þm. talaði um smágarða þá og smábletti, sem mældir hefðu verið út hér í Rvík, og spurði, hvernig með þá skyldi fara, þar sem þeir væru minni en gert er í frv. ráð fyrir, að þeir megi vera. Ég held nú, að Búnaðarfél. sæi sér fært að hliðra til um þetta, þar sem um slíka smábita er að ræða.

Hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. þm. S.-M. vildu láta taka frv. af dagskrá og fresta umr. Frv. hefir nú legið alllengi fyrir þessari d. og aths. þær, sem fram hafa komið, eru ekki stórvægilegar og varla ástæða til að tefja málið þeirra vegna. Geta og þm. þeir, sem aths. hafa gert, látið athuga þær í Ed. Hefði ég því helzt óskað, að það gengi nú í gegnum þessa umr. Ég segi þetta sem mína skoðun, þar sem ég hefi ekki getað borið mig saman við n. Ég sé ekki heldur, að nein hætta sé í því fólgin fyrir frv., þó það gangi nú áfram og verði þá breytt í Ed. Við því má alltaf búast hvort sem er.