11.04.1932
Neðri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (3597)

8. mál, erfðaleigulönd

Einar Arnórsson:

Það er engin ástæða til að karpa lengi við hv. frsm. Það er rétt, að hagsmunir tveggja aðila geta rekizt á. En þar sem stjórn bæjar- eða sveitarfélags er annarsvegar og einstaklingar hinsvegar, á að vera hægt að búa svo um hnútana, að ekki verði neinn verulegur hagsmunaárekstur. En það getur aftur á móti orðið, þegar löndin eru tekin af bæjar- og sveitarfélaginu og lögð í hendur þriðja aðila, þá geta ákvæði frv. farið að verða mjög óvinsæl. En það er höfuðskilyrði allra laga, þessara sem annara, að þú séu vinsæl, ef þau eiga að verða að gagni. Ef tekin eru ráðin af forstöðumönnum bæjar- og sveitarfélaganna, þá er ég hræddur um, að lögin verði óvinsæl og verki ekki eins og þeim er ætlað að gera.

Hv. frsm. fannst aths. mínar ekki vera stórvægilegar. Mér fannst þær nú samt vera það í ýmsum atriðum, sem mestu máli skipta. Það er í raun og veru stefnumál að taka umráðaréttinn af bæjar- og sveitarstjórnunum á því landi, sem þeim ber að sjá um. Hv. þm. var að sneiða að bæjarstj. Rvíkur fyrir það, að hún héldi löndum fyrir þeim, er vildu rækta þau. Þetta er nú nokkuð einhliða frásögn. Ef hv. þm. hefir farið eftir vegunum hér fyrir innan Reykjavík, þá hlýtur hann að hafa séð stór svæði, sem Reykjavíkurbær hefir látið rækta og síðan leigt út með mjög vægum kjörum. Hv. frsm. orðaði það, að bæjarstj. héldi löndum bæjarins fyrir mönnum, sem gjarnan vildu fá þau. Þetta er eigi að öllu rétt. Bæjarstj. verður að meta nauðsyn og hallkvæmi í þessu efni. Það stoðar ekki að láta löndin af hendi nema eftir ákveðnum reglum, og bæjarstj. verður sjálf að ákveða þær. Hvort þessum löndum er of smátt skipt, er allt annað mál. Lágmarkið eru tveir hektarar. Ég get hugsað að sumum þyki það of lítið. En út í það skal ég ekkert fara, þar sem ég hefi ekki nægilegt vit til þess að dæma um það. Hvað sem annars má segja um syndir bæjarstj. Rvíkur, þá er hún þó að koma upp hjá sér smágörðum nú, hversu vel sem það svo kann að gefast. Ég var ekki, eins og hv. þm. virtist halda, að finna neitt að því, þó Búnaðarfél. gerði skipulagsuppdrætti að þessum löndum, heldur að hinu, að það þyrfti ekkert tillit að taka til vilja bæjar- og sveitarstjórna í ákvörðunum sínum.

Það, sem ég hefi fundið að frv. er aðallega þetta: að umráðarétt yfir löndum þessum á að taka af réttum aðiljum, bæjar- og sveitarstjórnum. Þetta gildir ekki sérstaklega um bæjarstj. Rvíkur, heldur um allar bæjar- og sveitarstj. á landinu, sem frv. nær til.

Þá tók hv. frsm. það fram, að skipulagsuppdrættir bæjanna sýndu, hvar byggt yrði í nánustu framtíð. Það má vera, að þetta gildi sumstaðar, en það gildir ekki hérna í Rvík. Í fyrsta lagi er enginn samþ. skipulagsuppdráttur til af Rvík. Í öðru lagi nær sá skipulagsuppdráttur, sem gerður hefir verið, aðeins yfir takmarkað svæði, svæðið milli sjávarins og Hringbrautar. En það er þegar búið að byggja mikið utan þess svæðis. Þessi aths. getur því ekki náð til Rvíkur, þó hún sé að sjálfsögðu rétt um ýmsa aðra staði.

Ég vil endurtaka þau tilmæli mín til hv. n., að hún lati taka frv. ú af dagskrá og athugi það betur. Það mundi áreiðanlega hraða málinu mest, að það yrði sent svo til Ed., að hún þyrfti engin að breyta í frv. En ef á að fara að flækja málinu milli deilda, þá er meiri hætta á, að ekki vinnist tími til að afgr. það en þótt veittur sé lítill frestur til að athuga það betur hér. Því þótt hv. frsm. þyki aths. mínar vera lítilvægar, þá er ekki vist, að Ed. líti svo á það mál.