19.02.1932
Neðri deild: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í C-deild Alþingistíðinda. (3608)

15. mál, fimmtardómur

Magnús Guðmundsson:

Ég skal játa, að mér hefir ekki unnizt tími til þess undanfarna daga að kynna mér þetta mál til hlítar. En þar sem hér er um gamlan kunningja að ræða, sem skotið hefir upp höfði áður hér á Alþingi, hefi ég að sjálfsögðu myndað mér skoðun um málið. Ég vil því lýsa því yfir nú við 1. umr., að ég er algerlega mótfallinn þeim breytingum, sem gera á á dómaskipun landsins með þessu frv. Ég get ekki séð, að þetta frv., ef að lögum verður, bæti á nokkurn hátt úr þeim göllum, sem kunna að vera á dómálöggjöf okkar. Þvert á móti lít ég svo á, að breytingar þessar mundu verða mjög til hins verra.

Ég ætla ekki að þessu sinni að fara langt út í málið, en vil þó láta þess getið, að ég lít á frv. þetta sem einn lið á árásum hæstv. dómsmrh. á hæstarétt og dómendur hans. Þessi hæstv. ráðh. minnist sjaldan svo á hæstarétt, að hann brigzli honum ekki um allar vammir og skammir. Og jafnvel hefir hann dróttað glæpsamlegu atferli að hæstarétti eða dómendum hans. Lítur því helzt út fyrir, þótt undarlegt megi virðast, að þessum hæstv. ráðh. sé svo illa við þennan æðsta dómstól landsins, að hann vilji ganga af honum dauðum.

Ég fæ ekki séð, hvers vegna það ætti að vera réttara að kalla æðsta dómstól landsins fimmtardóm en hæstarétt. Fimmtardómsheitið er að vísu gamalt í málinu, en sá dómur hafði allt annað verksvið til forna en ætlazt er til með þessu frv.

Það hefir verið fundið að hæstaréttarnafninu og því haldið fram, að nafnið væri rangnefni, vegna þess að dómstigin eru aðeins tvö. En þetta er ekki rétt, dómstigin eru að sönnu ekki nema 2, en dómstólarnir eru margir, þ. á m. allir sýslumenn, fógetar o. fl. Yfir öllum þessum dómstólum er hæstiréttur og því er nafnið málfræðilega rétt.

Það er líka næsta broslegt að sjá, að í 1. gr. frv., sem lögfestir fimmtardómsnafnið, þykir þurfa ákvæði um, hvað dómurinn skuli heita á ensku. Maður skyldi nú halda, að nóg væri að þýða aðeins heitið. En svo er ekki, því að ef nafn dómsins er þýtt rétt, er það villandi og ekki hægt af því að draga, hverskonar dómstóll þetta sé. Það er því reynt að komast að því rétta, með því að lögbjóða heiti á erlendu máli, sem er alls ekki hin rétta þýðing á íslenzka heitinu. The Supreme Court þýðir hæstiréttur, og því er bætt við, að rétturinn skuli bera tilsvarandi heiti á öðrum erlendum málum.

Þá eru ákvæðin um aldur aðaldómendanna, þar sem fyrirskipað er, að þeir séu ekki yngri en þrítugir og ekki eldri en sextugir. Það er einkennilegt, að hjá okkur, sem ekkert takmark hofum í löggjöf okkar um það, hvað embættismenn megi vera gamlir, skuli nú byrjað á að fyrirskipa að reka þá menn úr embættum, sem hægast hafa og ættu öðrum embættismönnum fremur að geta starfað fram í elli. Víðast erlendis, t. d. í Danmörku, er ekkert ákveðið um það, hvenær dómarar skuli fara frá, enda sitja þeir oft í embættum fram til hárrar elli. Þó hafa Danir yfirleitt aldurstakmörk um embættismenn sína.

Hæstv. ráðh. talaði um það, að Danir væru á eftir tímanum hvað dómsköp og réttarfar snertir. (Dómsmrh: Ekki réttarfarið, heldur hæstiréttur þeirra, sem ég skal rökstyðja betur). Ég veit ekki betur en að hæstiréttur Dana njóti hins fyllsta trausts þar í landi og þeir hljóta að þekkja sjálfir sinn hæstarétt betur en hæstv. dómsmrh. gerir. — Aldurstakmarkið 60 ár er skaðlega lagt. Það er ekki hægt að gera upp á milli dómarahæfileika manns, sem er 60 ára og svo 65 –70 ára, en hitt er alveg einsætt, að slík breyting sem þessi hlýtur að hafa stórkostlegan gjaldaauka í fór með sér fyrir ríkissjóð. Mig furðar á því, að nokkur skuli halda öðru eins fram og því, að menn missi allt í einu starfshæfni og skynsemd við það að verða 60 ára. Eða heldur hæstv. ráðh., að t. d. hv. 1. þm.

S.-M. hafi misst skynsemi sína og þekkingu, þó að hann sé nú kominn yfir þetta aldursmark. En ef það er svo, að menn verði ekki heimskari en svo, þótt þeir hnígi á þennan aldur, að þeir geti verið þingmenn, hvers vegna geta þeir þá ekki alveg eins verið dómarar: Ekki ætti það þó að vera síður nauðsynlegt, að þingmenn séu í fullu fjöri og með fullri skynsemi heldur en dómarar. Þetta aldursmark er hreinasta fjarstæða og verður ekki séð að nokkur skynsamleg rök hnígi að því. Á hinn bóginn er hér vafalaust um stórkostlegan gjaldaauka að ræða fyrir ríkissjóð, og maður skyldi halda, að á slíkum tímum sem þessum gerðu menn sér ekki að óþörfu leik að því að skella á ríkið slíkum böggum. En það er nú svo um þennan hæstv. ráðh., að hann hefir ekki til þessa fengið orð fyrir meðaumkun með aumingja ríkissjóðnum, enda er þess skemmst að minnast, að hann í vor að nauðsynjalausu setti af einn dómarann í hæstarétti. sá ágæti maður er þó í fullu fjöri ennþá, sem betur fer, og það er vist, að Lárus H. Bjarnason er enn ekki farinn að tapa sér andlega, og líkamlega ekki að neinu ráði, enda er hann á götu að sjá sem ungur maður. Þetta tiltæki ráðherrans kostar ríkið ekki minna en undir 10 þús. kr. á ári.

Það er hlægilegt, að í 8. gr. frv. er mælt svo fyrir, að dómari megi ekki vera eldri en 60 ára, en í 64. gr. er ákveðið, að núv. dómarar skuli taka sæti í fimmtardómi, ef þeir óska þess, en þeir eru báðir 64 ára. Er það þá ætlunin að reka þá stráð úr réttinum aftur? Annars hélt ég satt að segja, að þar sem það er nú svona skammt þangað til hæstv. ráðh. getur, án þess að brjóta stjskr. beinlínis, rekið þessa menn, þá ætti hann að geta haft biðlund þangað til þeir eru 65 ára, eða þetta eina ár, því að annar þeirra dómaranna verður 65 ára í vetur, en hinn sumarið 1933, svo að hæstv. ráðh. þarf ekki lengi að bíða hefndanna úr þessu, þó að þetta frv. sofni að þessu sinni. Ég vil óska frekari skýringa hjá hæstv. ráðh. á þessu, hvernig hann vill samræma það, að dómarar megi ekki vera eldri en 60 ára, en þó skuli þessum 64 ára mönnum gefinn kostur á setu í dómnum.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um opin bera atkvgr. dómnum. Ég hefi ekkert við það að athuga, þótt slík breyting verði gerð, og það hefir aldrei verið sérstaklega um það deilt, heldur hitt, hvort samtal dómara á undan atkvgr. og ráðagerðir þeirra innbyrðis skuli birtar opinberlega, eða fara fram heyranda hljóði. Slíkt tel ég ekki ná nokkurri átt, enda væri það með öllu ómögulegt, og ég veit ekki til, að slíkt eigi sér nokkurstaðar stað.

Þá talaði hæstv. ráðh. um það, að það væri leiðinlegt, að dómarar skipuðu sig sjálfir, er hann kallaði svo. Þessi misskilningur stafar af vanþekkingu á undirstöðuatriðum okkar stjórnarskipunar. Tilgangurinn með þessu fyrirkomulagi er að gera dómstólinn sem óháðastan framkvæmdarvaldinu, og það er alveg nauðsynlegt. Þessi viðleitni hæstv. dómsmrh. til þess að gera dómsvaldið það framkvæmdarvaldinu, miðar til þess að rífa burt einn af hyrningarsteinum þjóðskipulagsins.

Loks eru aukadómararnir. Það er næsta afkáranlegt, að föstu dómararnir mega ekki vera yfir 60 ára, en aukadómararnir, sem háskólinn leggur til, mega vera langt yfir það, mega vera 100 ára eða meir. Og það er einmitt vandasömustu málunum, sem þeir skuli koma og dæma með þessum unglingum, sem geta þó verið allt að 60 ára. Ég get ekki séð hvaða samræmi er þessu.

Ég held, að þetta frv. hefði gott af að athugast nefnd, og ég sæi ekki eftir því, þótt það líði nokkuð á löngu, áður en það leti sjá sig aftur. Það eru ýms fleiri atriði en þau, sem ég hefi drepið á, sem þurfa sérstaklega athugunar, en ég hefi undanfarið ekki haft tíma til að fara gegnum málið heild, en væntanlega gefst mér síðar tími og tækifæri til að taka þetta mál nokkru ýtarlegar til athugunar og umr.