03.06.1932
Efri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. meiri hl. (Einar Árnason) [óyfirl.]:

Hv. frsm. minni hl. lét í ljós þá skoðun, að það bæri að stefna að því að nota bifreiðaskattinn til þess að búa til varanlegt slitlag á vegina og gera þá betur til frambúðar en nú er. Hefi ég ekkert á móti þessu. Held ég, að rétt sé að leggja haldbetri vegi, en lít þó svo á, að langt muni þess að bíða, að miklu verði komið fram í því efni, eða að vegir verði fyllilega á borð við erlenda vegi. Annars ber okkur ekki sérstaklega á milli um það, sem er aðalatriðið í þessu máli, að skattur verði lagður á benzín, og þess vegna sé ég ekki ástæðu til þess að ræða meira um þetta mál nú. Ég geri ráð fyrir, að hann komist ef til vill inn á eitthvert samkomulag í þessu máli við þá stj., sem við því á að taka, og er langt í frá, að ég vilji standa í vegi fyrir því, að slíkir samningar gætu tekizt um afgreiðslu málsins.

Hv. 2. þm. Árn. taldi vera þaralykt af skoðun minni í þessu máli. Ég skildi þau orð hans svo, að þeir, sem við sjóinn byggju hefðu yfir höfuð ekkert vit á þessu máli. Ég skal ekkert um það segja, hvort þeir hafa betur eða verr vit á því en aðrir menn. En ef við hv. 2. þm. Árn. eigum að leggja það til grundvallar, þá verðum við að mæla vegalengdina frá bústöðum okkar og til sjávar. Hugsa ég, að þá komi það upp, að hann búi nær sjó en ég, þó að það muni kannske ekki miklu, og víst er um það, að hjá hv. 2. þm. Árn. eru meiri stórsjóir heldur en inni á botni Eyjafjarðar.

Hv. þm. vill mótmæla því, að benzínskatturinn sé sanngjarn. Út af því vil ég spyrja hann um það. hverskonar bílaskatt hann álítur sanngjarnan, hvort hann telur sanngjarnan þann grundvöll, sem er fyrir þeim bílaskatti, sem nú er í gildi. Ef hann telur sanngjarnast að byggja á þeim grundvelli, þá verð ég að segja, að skoðun hv. þm. á þessum málum er nokkuð undarleg, því að núgildandi bílaskattur er þannig, að bíl, sem er kannske sjaldan eða aldrei hreyfður, borgar hærri skatt en bíll, sem er alltaf verið að nota. Ég hefi litið svo á, að bílaskatturinn væri settur á vegna þess slits, sem á vegunum verður af bílaumferð, og ríkissjóði á þann hátt séð fyrir tekjum til að standa straum af viðgerðum vegna þessa slits, sem bílarnir valda. Ég get því alls ekki fallizt á, að núv. fyrirkomulag sé sanngjarnt; ég tel það þvert á móti mjög ósanngjarnt.

Hv. þm. taldi það sönnun fyrir ósanngirni benzínskattsins, að bílar eyddu 6 sinnum meira benzíni á vondum vegum heldur en á góðum vegum þetta getur verið rétt, en ég vil benda honum á það, að þegar bílar fara um slíka vegi, þá valda þeir þar 6 sinnum meiri skemmdum heldur en á góðum vegum, því að þegar þeir fara yfir blauta og vonda vegi, þá geta bílarnir eyðilagt þá á fáum dögum.

Hv. þm. sagði, að þessi skattur kæmi þyngst niður á vörubifreiðunum. Yfir höfuð kemur skatturinn eftir þessu frv. þyngst niður á þeim bifreiðum, sem mest slíta vegunum. Vörubifreiðar slíta vegunum meira, og þess vegna er eðlilegt, að þær þurfi að borga meira.

Það hefir verið sagt, að það sé ósanngjarnt að leggja skatt á samgöngur, leggja skatt á þá menn, sem þurfa að flytja sjálfa sig eða vörur langan veg. Þar er því til að svara, að þetta frv. markar enga nýja stefnu með það að leggja skatt á. Hér er verið að breyta þeim rangláta skatti, sem gilt hefir að undanförnu, og auka hann að nokkru. En ef það er rangt að leggja skatt á bíla, þá á ekki aðeins að hindra framgang þessa frv., heldur og að afnema þann bílaskatt, sem nú er í gildi.

Annars þarf ég ekki að ræða mikið um málið að þessu sinni. Sennilega verða bornar fram brtt. við frv. við 3. umr., og má þá taka málið til frekari athugunar. En þar sem þær liggja ekki fyrir nú og hv. 2. þm. Árn. ætlar að taka sína till. aftur, þá get ég látið máli mínu lokið við þessa umr. Aðeins vil ég taka það fram út af því, sem margir hafa haldið fram, að vöruflutningar hækki að mun, að það hefir verið reiknað út, að þessi hækkun nemur 11/2% á vöruflutningum.