03.06.1932
Efri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Magnús Torfason:

Ég skal ekki lengja umr. mikið nú fremur en endranær, en ég neyðist þó til að svara hv. frsm. meiri hl. nokkrum orðum. Hann benti mér á, að það væri líka þaralykt af mer. Ég játa það, en sá er þó munurinn, að ég þarf oft að ferðast upp til fjalla fulla dagleið frá dvalarstað mínum, en ég býst við, að hann þurfi ekki að ferðast upp eftir sinni sýslu nema þegar bezt og blíðast er á vorin, þegar kosningar eru fyrir höndum. Ég get því betur sett mig inn í ástæður Rangæinga og þeirra, er búa ofarlega í Árnessýslu, og hve miklu þeir verða að kosta til bílflutninga og hversu afarþungt þessi skattur mundi leggjast á þá. Þá vil ég og minna hv. frsm. á það, að það var svo árum saman, að ekki kom upp á Eyrarbakka og Stokkseyri eitt einasta kg. frá útlöndum, og það er svo, að þaðan er ekki hægt að flytja sjóleiðis eitt einasta kíló af afurðum héraðsbúa, heldur verður allt að flytjast með bílum hingað til Rvíkur. Það er því svo, að þótt þaralykt sé af mér, þá finn ég fullkomlega til þess arna.

Hv. frsm. vill miða skattinn við slitið á vegunum. Það er rétt; það á að vera einn mælikvarðinn, en engan veginn sá eini. Það er fleira, sem á að taka tillit til. Það verður að taka líka tillit til þess, hvað er nauðsynlegt að flytja og hvað er ekki nauðsynlegt.

Þá vildi hann segja, að bílarnir eyðilegðu meira þar, sem vegir væru vondir. Ég hélt, að það væri nú ekki bílunum að kenna, heldur vegunum og því, hve vondir þeir eru. Annars er frá því að segja í þessu sambandi, að í lögum um bifreiðaeftirlit og umferð bíla er ákvæði um það, að setja má farbann á bíla á ýmsum vegum vetur og vor, þar sem ekki er sæmilegt slitlag undir. Slíkt farbann hefir oft verið sett á nú að undanförnu, og get ég því ekki seð, að hv. þm. hafi að neinu leyti hrakið þau rök, er ég bar fram um þetta atriði.

Þá beindi hann þeirri fyrirspurn til mín, hvort mér fyndist núv. skattmati á bifreiðum sanngjarn. Ég skal fullkomlega játa, að hann er það ekki. En þessi skattur er svo lágur, að hann er lítt tilfinnanlegur. Þar er gengið út frá allt öðru. Þar er stefnan sú, að leggja miklu minna á vörubifreiðar, en meira á fólksflutningabifreiðar, en hv. frsm. vill snúa því alveg við. Ég hefi því með mér þá skoðun, sem kemur fram í þeim lögum, sem gilda nú um bifreiðaskatt, og ég býst ekki við, að það hafi verið eintómir bjánar, sem um þá löggjöf fjölluðu. En það er vant að vera svo, að þegar skattur er mjög lágur, þá koma ekki nærri því eins berlega fram þeir gallar, sem á honum kunna að vera. Við vitum líka, að sá skattur hefir ekki verið hækkaður, af því að hann þótti ekki allskostar sanngjarn.

Að öðru leyti er það skoðun mín, að þetta mál sé ekki svo skoðað frá öllum hliðum enn, að vert sé að hrapa að löggjöf um þetta nú. Þó má vera, að það sé rétt að hækka þennan skatt eitthvað, svo að viðhald vega geti orðið sæmilegt, því að það leggst einhvern veginn í mig, að ekki verði mikið lagt fram úr ríkissjóði til þeirra hluta eins og nú stendur á, svo að hætta geti verið á, að vegirnir grotnuðu niður sökum ónógs viðhalds.