03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (3655)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Frsm. (Bergur Jónsson):

Ég get ekki skilið, hvað það á að þýða hjá hv. 4. þm. Reykv., að hann skuli alltaf vera að reyna að koma því inn hjá hv. þm., að það sé einhver meginmunur á iðju og iðnaði, en að þessu tvennu hafi hér verið ruglað saman. En það er enginn vafi, að þegar talað er um að rannsaka þessi mál, þá er átt við alla þá starfsemi, sem hv. þm. flokkar hér í tvennt. Það er átt við allar handiðnir og verksmiðjustörf, yfirleitt allt það, sem í daglegu tali er kallað iðnaður.

Hv. 4. þm. Reykv. hefir sjálfur syndgað á þennan hátt með því að bera fram till. um að stofna iðnaðarnefnd í þinginu. Ég geri ráð fyrir, að hann hafi þar ekki eingöngu haft í huga mál iðnaðarins, heldur líka þau mál, sem heyra undir iðju, og ég lýst við, að hann vilji ekki eingöngu vísa til þeirrar n. þeim málum, sem eingöngu snerta iðnaðinn, heldur einnig þeirri tegund mála, sem hann flokkar undir iðju.

Annars er þetta algert aukaatriði, og þrátt fyrir þessa miklu tilraun, sem hv. þm. hefir gert til að sýna þennan mismun, þá hefir hann ekki getað komið með nokkra „definition“ á þessu tvennu. Hann sagði, að skósmiðir, úrsmiðir o. s. frv. væru iðnaðarmenn, en þegar farið er að reka það í verksmiðjum í stórum stíl, þá er það orðið iðja, og þó er það sama starfsgreinin. En hvort sem talað er um að rannsaka iðju eða iðnað, þá er það meiningin að rannsaka allt, sem undir þessi tvö orð fellur.

Hv. þm. sagði, að það væri nær að afgr. frv., sem hann hefði borið fram um breyt. á l. um iðju og iðnað, heldur en að halda fram slíkri till. sem þessari. Ég skal upplýsa það, að ástæðan til, að allshn. hefir ekki afgr. það frv., er sú, að n. hefir búizt við, að þessi mþn. yrði skipuð og þá heyrði það undir hana að rannsaka mál iðju og iðnaðar.

Ég get ekki neitað því, að mér finnst það ákaflega réttmætt, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði um afstöðu sína til þessa máls, að hún væri sérlega gruggug. Hann tekur það fram, að mikil nauðsyn sé að rannsaka þetta mál og það geti engir gert nema sérfræðingar, og þó vill hann vísa málinu til stj., sem er þá vitanlega núv. stjórn. Hv. þm. hefir ekki sýnt henni svo mikið traust hingað til, að hann geti búizt við, að hún afreki mikið í því máli, sem hann álítur, að engir aðrir en sérfræðingar geti leyst af hendi.