03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (3658)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég hefi ekki getað verið við þessar umr., en mér skilst, að deilt hafi verið um málið frá því í byrjun þessa fundar. Mér skilst, að sumir hv. þm. álíti, að málið hafi fengið slæman undirbúning. Ég vil í því sambandi benda á það, að þessi till. er fram komin fyrir mjög eindregna ósk frá tveimur helztu iðnaðarfélögunum hér í bæ. Þau hafa óskað eftir, að málið yrði tekið fyrir á þennan hátt. Þegar þær óskir koma frá iðnaðarmannafélögunum, að af hálfu þess opinbera sé gerð sérstök ráðstöfun til að styðja mál iðnaðarins, og þegar málum iðnaðarins hefir hingað til enginn sómi verið sýndur af hálfu þess opinbera, þá álít ég það sjálfsagða skyldu að bera slíka till. fram. Það er mjög áríðandi, ekki sízt á slíkum tímum sem nú standa yfir, að við stuðlum sem mest að öllu, sem að iðnaði okkar lýtur, og sérstaklega eigum við að leggja sem mesta stund á að vinna sem allra mest úr okkar eigin framleiðslu. Þetta allt á n. að athuga og undirbúa. Mér virðist því undarlegt, þegar hv. þm. eru með ásakanir um slæman undirbúning, því að hér er verið að óska eftir undirbúningi fyrir frekari aðgerðir.