04.06.1932
Efri deild: 94. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Jón Jónsson [óyfirl.]:

Ég verð að taka það fram, að ég er mótfallinn þessari brtt., sem fjhn. hefir borið fram. Ég tel þessa löggjöf vera einhverja þá réttlátustu og sjálfsögðustu, sem hér hefir verið gerð til tekjuöflunar fyrir ríkið, þar sem lagt er til, að þeir, sem nota þá vegi, sem ríkið hefir kostað að mestu leyti, greiði að nokkru leyti viðhald þeirra framkvæmda. Tel ég óhæfilegt að stofna til þess, eins og átt hefir sér stað með önnur tollafrv. þingsins, að við þurfum að eiga undir högg að sækja á hverju þingi, hvort framlengt verði gildi þeirra laga, sem ríkisreksturinn stendur og fellur með. En ég býst við, að þessi skattur verði eitt af þeim, þegar hann er kominn á. Hitt er annað mál, eins og hv. 1. landsk. tók fram, að kaupstaðirnir fengju að einhverju leyti að njóta þessa skatts, sem þarna á að setja á. Sú breyt. mætti að sjálfsögðu koma á næsta þingi, ef menn fyndu um það heppilega reglu. Annars er ekki ástæða fyrir kaupstaðina að kvarta, því að líklega verður ekki svo litlu af þessu fé varið til vegaumbóta innan lögsagnarumdæma þeirra, og kemur þeim þá sérstaklega til góða. Ég legg eindregið á móti þessari brtt.