20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (3685)

734. mál, leiga á landi Garðakirkju

Flm. (Jón Baldvinsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá var hér fyrir nokkru samþ. rökst. dagskrá frá hv. allshn. um að vísa til ríkisstj. frv. til 1. um heimild handa ríkisstj. til að selja Hafnarfjarðarkaupstað hluta úr landi Garðakirkju á Álftanesi.

Þegar það frv. var hér til umr., benti ég á það, hve mikil nauðsyn Hafnfirðingum væri að fá nú þegar land til ræktunar, vegna hins mikla atvinnuleysis, sem nú er í Hafnarfirði eins og víðar. Má því engu tækifæri sleppa, þar sem hægt er að bæta úr því með því að taka upp arðvænlegt verk. Næsta haust má gera ráð fyrir lítilli atvinnu. Gætu þá þeir, sem atvinnulausir eru, lagt fram vinnu til ræktunar þessa lands, sem síðar gæti veitt þeim og skylduliði þeirra björg í bú.

Þó nú að stj. undirbúi þetta mál, þá kemur það eigi til samþ. fyrr en á næsta þingi. Sleppur þá úr heilt sumar, sem gæti að ýmsu leyti orðið hagkvæmt til að hefjast handa um ræktun þessa lands. Ég hefi því komið fram með þessa till. til þál. að skora á ríkisstj. að leigja Hafnarfjarðarkaupstað hluta úr landi Garðakirkju á Álftanesi, er fellur í hlut heimajarðarinnar við skipti þau, er nú fara fram á áður óskiptu landi jarðarinnar. Ég hefi orðað þetta nokkuð öðruvísi en það var í frv. Þar var farið fram á, að Hafnarfjarðarkaupstaður fengi allt það land keypt, er félli til heimajarðarinnar við skiptin. En hér er aðeins farið fram á leigu á hluta af því landi, ótilteknum, eða eins og ríkisstj. telur sér fært að láta. En þó ég hafi orðað þetta svo, þá vil ég láta þá ósk fylgja, að stj. láti allt það land, sem heimajörðin fær. Ég tel því miklu betur varið á þann hátt, að Hafnarfjarðarkaupstaður fái það til að deila því á milli sinna borgara heldur en þó farið væri að leigja landið sem nýbýli handa einstökum mönnum, eins og heyrzt hefir, að komið hafi til orða. Slíkum mönnum er víða hægt að útvega land, en Hafnfirðingum er einmitt brýn þörf á þessu landi, því þeir hafa ekki völ á neinu landi öðru, sem afstöðu vegna er hentugt fyrir þá, eða a. m. k. engu öðru hentugra.

Ég ætlast til, að þetta land verði leigt út strax, svo að vinna á því geti byrjað þegar á næsta hausti. En hitt tel ég víst, að stj. undirbúi sölu á þessu landi og leggi fyrir næsta þing. Hygg ég, að undirtektir undir þetta mál hafi verið þær hér, að telja megi víst, að það verði samþ. á næsta þingi. Fengi þá Hafnarfjarðarkaupstaður umráð yfir þessu landi strax, en síðar yrði það eign hans.

Eftir viðtali, sem ég hefi átt við hæstv. dómsmrh. um þetta mál, vænti ég þess, að hæstv. stj. taki þessu vel, og hið sama vænti ég, að hv. deild geri.