19.03.1932
Efri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (3696)

167. mál, ljóslækningar berklasjúklinga

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, er berklaveikin einn hinn versti sjúkdómur hér á landi. Hefir þing og þjóð fyrir löngu sýnt það með lagafyrirmælum og fjárframlögum, hversu brýn nauðsyn er fyrir land og lýð, að unnið sé gegn þessum vágesti, og að ekki megi horfa í kostnað til þess að vernda þjóðina fyrir veikinni og varna útbreiðslu hennar.

Það er kunnugt, að berklalækningar eru erfiðar viðureignar. Ótal ráð hafa verið fundin til þess að vinna bug á sjúkdóminum; sum hafa reynzt fánýt, önnur hafa haldið velli. Eitt aðalráðið þar á meðal, sem viðurkennt er af öllum heiminum, eru ljóslækningarnar. Það eru mörg ár síðan byrjað var á slíkum lækningum. Menn sáu, að sólarljósið hafði mjög heilsubætandi áhrif á sjúklingana. En þar sem víðast hagar svo til, að ekki er hægt að njóta þess nema vissa tíma úr árinu, hafa verið fundin upp ýmiskonar tæki, sem gera sama gagn og sólarljósið, og það er nú svo komið í menningarlöndum öllum, að slík tæki eru almennt notuð, sérstaklega á þeim tímum árs, þegar sólar nýtur ekki. Hér hagar svo til á þessu landi, að sólar nýtur ekki nema lítinn tíma úr árinu, og nokkuð af þeim tíma, t. d. á vorin, er oft svo kalt í lofti, að sjúklingar þola ekki útiveru. Þess vegna er meiri ástæða til þess hér en víðast hvar annarsstaðar að nota þessar lækningaaðferðir. Læknar reka sig á það, að með skammdeginu gugna börnin í mótstöðunni gegn þessari veiki og mörg verða ofurseld smitun, eða þeirri hættu að veikin brjótist út.

Í lögum um berklavarnir er ákveðið, að kostnað vegna ljóslækninga eigi að greiða af því opinbera. Það er skýrt tekið fram, að þessa grein lækningastarfseminnar beri að styrkja samkv. lögunum. Á öndverðu ári 1930 barst þeim sjúkrahúsum, er starfræktu ljóslækningar, og öðrum ljóslækningastöðvum bréf frá hæstv. stjórn um það, að upp frá þeim tíma yrði ekki úr ríkissjóði greiddur kostnaður við ljóslækningar nema á hælunum á Vífilsstöðum og Kristnesi og röntgenstofunni í Reykjavík, og fyrir sjúklinga, sem lægju í sjúkrahúsum, yrði sú greiðsla bundin við hámark, sem ákveðið var 5 kr. á dag fyrir legukostnað og ljóslækningar fyrir fullorðna og börn sérstaklega. Með þessu bréfi fylgdi afrit af bréfi frá landlækni, sem sýndi, að þessi ráðstöfun var gerð eftir till. frá landlækni. Þetta kom mjög hart niður á fátækum sjúklingum, er njóta þurftu ljóslækninga, enda komu víða frá hörð mótmæli gegn þessari ráðstöfun, sér í lagi frá héraðslækninum í Ísafjarðarkaupstað. Nú hefir svo skipazt, að einmitt þessi sami héraðslæknir er orðinn landlæknir, og þykir því hlýða, að tekið sé tillit til álits hans á þessu efni, því að vitanlega hefir þessi læknir ekki skipt um skoðun, þó hann sé orðinn landlæknir. Þar sem svo mjög var farið eftir till. landlæknis 1930 í þessu máli, þá virðist eðlilegt, að nú sé einnig byggt á skoðunum núv. landlæknis í þessum efnum. Það má sérstaklega taka það fram, að hvorugur þessara landlækna hefir sérfræðikunnáttu á þessum sviðum fremur en aðrir læknar, og standa þeir að því leyti jafnt að vígi. Það skal og tekið fram, að hæstv. stj. hafði ekki leitað álits þess eina sérfræðings í ljóslækningum, sem fyrrv. landlæknir taldi vera hér á landi 1930. Í bréfi landlæknis til hæstv. stj. er m. a. færð fram sú ástæða með till. um afnám ljóslækningastyrksins, að sú lækningaaðferð geti verið hættuleg fyrir sjúklinga með berklaveiki, og þess vegna megi ekki aðrir en sérfræðingar í ljóslækningum fást við þá lækningaaðferð, enda sé sú regla höfð á í þessum efnum í Englandi, en það er eina erlenda dæmið, sem landlæknir vitnar í til stuðnings sínu áliti.

Sem svar gegn umræddu bréfi landlæknis er bréf þáv. héraðslæknis á Ísafirði, sem fylgdi þáltill., er þáv. þm. Ísaf. (HG) flutti í hv. Nd. Hann segir, út af því, sem landlæknir segir um það að nota ljóslækningar við berklasjúklinga, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér neitum því, að meiri ágreiningur sé um gagnsemi ljóslækninga við ýmsum tegundum af berklaveiki en um fjöldamargar aðrar lækningatilraunir við sömu veiki, sem landlæknir virðist ekkert hafa á móti að séu viðhafðar á kostnað ríkissjóðs.

Hverjir hafa á móti því, að rétt sé að reyna ljósböð, auk góðrar almennrar aðhlynningar við beina- og kirtlaberklum, einkum í börnum og unglingum? Eða til þess að styrkja menn, nýstaðna upp úr brjósthimnubólgu, einkum ungt fólk?“

Viðvíkjandi hinu atriðinu, um sérfræðina, segir hann:

„Það er beinlínis villandi í þessu sambandi að benda til Englands, þar sem allri læknisfræðinni er skipt sem smæst upp á milli sérfræðinga. Berklaveikin heyrir þar öll undir marga sérfræðinga, geislalækningarnar ekki fremur en annað. Öll sú mikla flokkun í sérfræðigreinir er vísindunum vafalaust meira til gagns en sjúklingunum í sumum tilfellum. Og hefir undirritaður með eigin augum séð þess ýms sorgleg dæmi — — “. Svo segir hann aftur:

„Annars er það einnig mjög villandi, er landlæknir talar um geislafræði (radiologi) sem erfiða fræðigrein og hættulega sjúklingunum, ef sérþekkingu skortir, þar sem hann gerir þetta auðsjáanlega í því skyni að telja ráðuneytinu trú um, að hættulegt sé að láta aðra en sérfræðinga fara með kvartslampa. Geislalækningar yfirleitt eru hættulegar og vandasamar af því, að undir þær heyra röntgen- og radiumlækningar, sem mjög er vandfarið með. Hinsvegar er mjög auðvelt að fara með kvartslampa og almennum læknum hér á landi trúað fyrir mörgu, sem er margfalt hættulegra og vandasamara“.

Og loks segir hann ennfremur:

„Þess skal getið, að undirritaður hefir nýlega dvalið í Englandi og sá þar mikið notuð kvartsljós. Og þrátt fyrir alla sérfræðingana var alls ekki talið nauðsynlegt, að þeir stunduðu kvartslampalækningarnar. Má nefna til dæmis hinar mörgu stöðvar í Lundúnum, sem The Borough Counsils hafa til að fylgjast með heilsufari barna og leiðbeina mæðrum um meðferð á þeim. Þá hafa a. m. k. sumar sína kvartslampastöð, þar sem veikluð börn, einkum þau, sem grunuð eru um beinkröm eða berklaveiki, eru geisluð. Mæðurnar fá þar líka gjarnan ljósböð, ef þær eru linar til heilsu eftir fæðingar eða mjólka illa. Þessum ljóslækningastofum var ekki einu sinni talið nauðsynlent, að læknar stjórnuðu, hvað þá sérfræðingar, heldur voru þær í höndum hjúkrunarkvenna“.

Þetta ætti að nægja til að sýna álit núv. landlæknis á þessu máli, og mér er óhætt að segja, að yfirlæknirinn við ljóslækningadeild landsspítalans hafði sömu skoðun í þessum efnum eins og hann hafði.

Þessi þáltill. var borin fram í Nd., og var bæði stíluð um ljóslækningar og um greiðslu á styrk fyrir berklasjúklinga á spítölum. En þótt hún væri felld, þá var það á þann einkennilega hátt, að það voru 12 atkv. með henni, en ekkert á móti. En forseta þótti það ekki nægt atkv.magn og úrskurðaði till. fallna.

Samskonar till. var svo borin fram á vetrarþinginu í fyrra, en varð ekki útrædd. Á sumarþinginu kom svo frv. til 1., sem fór í sömu átt og flutt var af þm. Ísaf. og 1. þm. Skagf., en náði ekki samþykki. Nú er borin hér fram till., sem nær einungis til ljóslækninga, en ekki til sjúkrahúsanna, af því að ég ætlaðist til, að minni ágreiningur yrði í þessu efni en um sjúkrahúsakostnaðinn. Og ég lít líka svo á, að það sé enn meira aðkallandi, að Alþ. álykti, að það sé í þessu efni farið eftir berklavarnalögunum.

Ég býst við, að sumum hv. þm. sé það ókunnugt, hvernig þessu er hagað í reyndinni. Eins og ég hefi áður sagt, eru ljóslækningar nú aðeins borgaðar í heilsuhælunum í Kristnesi og á Vífilsstöðum og ljóslækningastofu röntgenstofunnar í Reykjavík, en hvergi annarsstaðar. Það liggur nú í hlutarins eðli, að það sé rangt og veki óánægju, að aðeins einn bær verði þessara hlunninda aðnjótandi, en ekki aðrir kaupstaðir landsins, svo sem Vestmannaeyjar, Seyðisfjörður, Akureyri, Siglufjörður, Ísafjörður og Hafnarfjörður, en enginn þeirra fær nú styrk úr ríkissjóði til ljóslækninga. Það er vegna þess arna, að það var í vetur, þegar voru til umræðu bæjarreikningarnir fyrir Hafnarfjörð, að bæjarstj. þar samþ. einum rómi að skora á þm. bæjarins að fá þingið til að kippa þessu í lag, og meðfram fyrir það er þessi þáltill. borin fram.

Það er þannig í Hafnarfirði, að iðulega koma til læknanna börn, sem þurfa á ljóslækningum að halda, að dómi læknanna, ekki einungis dómi læknanna í plássinu, heldur einnig að dómi sérfræðinga í berklasjúkdómum, læknanna á Vífilsstöðum, því að við sendum oft sjúklingana til Vífilsstaða til rannsóknar. Þegar þeir svo koma þaðan aftur, eiga þeir að fara í ljós. En flestir sjúklinganna eru þannig fjárhagslega settir, að þeir geta ekki borgað ljóslækningarnar af eigin rammleik, þó ljóslækningastofurnar taki ekki hátt gjald. Þess vegna biðja þeir um ábyrgð bæjarins fyrir kostnaðinum, og lendir að síðustu á bæjarsjóði að greiða úr sínum eigin kassa fyrir þessar lækningar.

Það má nú ef til vill segja um okkur Hafnfirðinga, að við eigum hægan nærri, þar sem Reykjavík er, og getum sent okkar sjúklinga til Reykjavíkur. En því er nú svo háttað, að þetta eru mest smábörn og þurfa sérstaklega á þessum lækningum að halda að vetrarlagi, og þá getur það beinlínis verið hættuspil að flytja þau til Reykjavíkur. En auk þess er flutningskostnaður til Reykjavíkur fyrir slíka sjúklinga sá sami og af ljóslækningunum í bænum. Þess vegna er það ráð ekki tekið upp, heldur greitt fyrir ljóslækningar á staðnum. Og þar sem þær eru eins góðar og framkvæmdar með sömu tækjum, ber ríkissjóði að borga fyrir þær jafnt í Reykjavík og Hafnarfirði.

Í þáltill. minni er í fyrsta lagi farið fram á það, að haga forminu fyrir þessum greiðslum eins og stendur í berklavarnalögunum, að það skuli semja við ljóslækningastofurnar frá ári til árs um, hvaða gjald eigi að greiðast fyrir ljóslækningar, en eins og ég hefi oft tekið fram, er í lögunum skýrt tekið fram, að ríkissjóður eigi að borga fyrir þessar lækningar, en það skuli vera eftir samningum.

Í öðru lagi er talað um í till., hvaða ljóslækningastofur skuli vera teknar gildar. Það kemur að vísu ekki fram í fyrrnefndu bréfi landlæknis, en hefir komið fram hjá stj. í umr. um þetta mál, að læknar hefðu ljóslækningastofurnar að féþúfu, en ljóslækningarnar svöruðu ekki þeim kröfum, sem gera verði til þessara lækninga. Nú er sleginn varnagli við þessu, ef nokkuð hefir verið hæft í þessari skoðun. Ég ætlast til, að læknarnir sendi landlækni og yfirlækni ljóslækningadeildar landsspítalans skýrslu um það, hvernig ljóslækningunum er fyrir komið, t. d. um það, hvaða tæki eru notuð, hvaða rafmagnsspenna er notuð, og margt fleira, og svo úrskurði þessir aðilar, hvort stöðin sé trygg eða nothæf. Ég hefi borið þetta undir landlækni, hvort þetta væri ekki næg trygging fyrir því, að ef misnotkun ljósanna hefði átt sér stað, sem ég efast mikið um, þá gæti hún ekki átt sér stað framvegis, og álítur hann þetta nægilegt.

Fyrir því er ekki, eins og komið hefir fram hjá hæstv. forseta, nema ein umr. ákveðin um till., að hér er ekki farið fram á neina greiðslu úr ríkissjóði, sem ekki er í núgildandi lögum, heldur er þetta bara árétting á þeim, þannig að Alþ. álíti, að í þessu máli beri að fylgja núgildandi lögum og greiða samkv. þeim. Vona ég, að svo sanngjörn till. fái góðar undirtektir og verði samþ. í hv. d. og Alþ. yfirleitt.