19.03.1932
Efri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (3714)

167. mál, ljóslækningar berklasjúklinga

Jón Baldvinsson:

Till. svipuð þessari var flutt í fyrra í Nd. eða Sþ. af hv. þm. Seyðf., vegna þess að 1929 hafði verið breytt um framkvæmd á berklavarnalögunum af núv. dómsmrh. Þá hafði hæstv. dómsmrh. öðlazt nýjan skilning á lögunum frá þáv. landlækni, að því er hann segir. Annars leyfi ég mér nú að draga í vafa, að landlæknir hafi verið hér upphafsmaður. Hitt þykir mér sennilegra, að stj. eða hæstv. dómsmrh. hafi átt hugmyndina, en landlæknir síðan fallizt á hana. Annars er það sannleikurinn um berklavarnalögin, að allir ráðh., sem hafa átt að sjá um framkvæmd þeirra, hafa reynt að hliðra sér hjá því og fara í kringum þau. Svo var um hv. 2. þm. Skagf., er hann var ráðh., en hann, var þó svo almennilegur að vilja fara lagaleiðina. Sama var að segja um Klemens Jónsson. Um framkvæmd hv. 1. landsk. í þessum efnum, er hann var ráðh., skal ég ekki fullyrða. En allir hafa ráðh. viljað hliðra sér hjá framkvæmd laganna, en þó viljað fá lagabreytingar til þess, nema hæstv. núv. dómsmrh. Ég er ekki í vafa um, að hann hefir gengið móti tilgangi laganna með framkvæmd sinni á þeim. Því mun ég greiða þessari till. atkv. mitt. Ég álít ekki þörf á, að málið fari til n., þótt ég setji mig hinsvegar ekki upp á móti því. En málið er orðið svo þekkt hér í þinginu, að hv. þdm. ættu þegar að geta tekið afstöðu.