02.05.1932
Efri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í C-deild Alþingistíðinda. (3740)

15. mál, fimmtardómur

Jón Jónsson:

Ég bjóst við, að fleiri ættu eftir að tala og ætlaði því að fresta því að taka til máls, þar sem ég á ekki eftir nema stutta aths. En ég skal þá líka fara fljótt yfir sögu, enda hefir mér ekki verið gefið mikið tilefni til langrar ræðu.

Hv. 2. þm. Árn. var eitthvað að „pata“ í till. mínar og sagði, að þær væru „vesalt persónupat“. — Já, hv. þm. er nú alltaf afskaplega skemmtilegur ! En það er þá hreint ekki ólíklegt, að ég hafi lært þetta „pat“ af honum. Þó hv. þm. sé vitanlega ekki með neitt „persónupat“ — til þess er hann of góðgjarn —, þá er hann nú stundum að „pata“ ýmsa aðra hluti, lög o. fl., þó að það sé stundum svo háfleygt, að hvorki ég né aðrir dauðlegir menn skilji þetta „pat“ hans á sama hátt og hann ætlast til, Sbr. stjskrtill. hans frægu. Ég hugsa, að líkt sé því farið um skilning hans á minni till. En við því verður þó ekki gert og þýðir því ekki frekar um það að tala.

Þá var það hæstv. dómsmrh. Hann talaði nú stillilega og drengilega, sem vænta mátti, um till. mínar. Hann spurði, af hvaða ástæðu ég teldi hæstarétt heilaga stofnun. Því er fljótsvarað. — Sjálfur svaraði hann þessari spurningu með orðum einhvers spekings, að menn gerðu hlutinn heilagan, þar sem góðir menn gengju. Þetta má til sanns vegar færa. Í mínum huga er fáninn heilagt merki þjóðernisins. En það er fleira, sem er heilagt. Hæstiréttur er vígi réttaröryggis í landinu, sem er skilyrði fyrir því, að okkar þjóðfélag haldist. Þessi stofnun er því heilög, þar sem hún er svo mikils virði fyrir þjóðfél. En hitt er annað mál, að það má fara með skítugum skónum inn heilaga stofnun. Stofnunin sjálf á að vera hverjum góðum Íslending heilög, og vitanlega eigum við að gera allt til þess að hún verði sem næst því að svara til hugsjónarinnar. Hæstv. ráðh. minntist á fund, sem haldinn hefði verið af framsóknarfélagi Húnavatnssýslu. Ég hefi ekki neitt staðið að þessum fundi né við hann att. Ég tel ekki rétt að vera að panta síma till. eða áskoranir utan af landi. Ég hefi séð, að þessi fundur óskaði eftir því, að dómararnir hæstarétti séu stjórnskipaðir. Ég held. að till. mín sé nú einmitt fyllsta samræmi við þá ósk, þar sem öll stj. á að skipa dómarana í stað eins ráðherra, ef mínar till. verða samþ. Ég brýt því ekki bága við þessa till. fundarins, enda skiptir það heldur ekki neinu máli.

Þá talaði hæstv. ráðh. um, að einhver maður hér suðurstofunni hefði farið virðulegum orðum um till. mínar. Ég tel mér það hvorki til heiðurs né vansa. Ég læt arka að auðnu og lét mig það litlu skipta, hvernig menn dæma um mínar till. Og þótt andstæðingar mínir stjórnmálum geti fallizt á einhverjar till. mínar, þá er ég ekki svo flokksbrýndur, að ég geti fallizt á, að það sé neinn úrslitadómur um, að þær séu óhæfar. Fyrr mætti nú vera ofstækið.

Þá talaði hæstv. ráðh. um flutning á málum milli deilda stjórnarráðinu og taldi slíkt ófært. Tók hann t. d. Fóaáveituna og líkti þessu við, að umsjón hennar væri falin kennslumálaraðherra. En hér er ólíku saman að jafna. Það væri nær að líta á það, að Alþingi, sem er helgasta stofnun þjóðarinnar, heyrir undir forsrh. Hvað væri þá óeðlilegt eða athugavert við, þó næsthelgasta stofnunin væri líka lögð undir forsrh. En hér er það þó ekki gert. Till. leggur skipun dómaranna undir allt ráðuneytið. Hæstv. ráðh. taldi og sjálfsagt, að skipun dómaranna heyrði undir ákvæði auglýs. frá 30. des. 1924, þar sem talað er um, að lög og mikilsvarðandi stjórnarráðstafanir skuli vera tekin til meðferðar á ráðherrafundum. En svo einkennilega hefir viljað til, að skipun dómara í hæstarétt hefir ekki verið tekin með þeirri upptalningu, er auglýst hefir. En þar sem allir virðast sammála um, að þetta eigi að gerast, er rétt að lögbinda það, af því þetta er ekki tekið fram og er atvik þess á valdi stjórnarforsetans. Ef þetta er fastbundið, er ekki heldur hægt að hlaupa frá því.

Þá sagði hæstv. ráðh., að þetta útilokaði ekki það, að forsrh. gæti veitt sjálfum sér dómaraembætti. En hann þarf þó minnst einn ráðherra til að samþ. það með sér. En eftir frv., eins og það er nú, getur dómsmrh. veitt sér sjálfur embættið, án þess að spyrja nokkurn mann að því. — Þetta sýnir, að till. mínar tryggja betur skipun dómaranna heldur en frv. gerir. Fyrir mér vakir það eitt að tryggja sem bezta skipun á þessu og að leggja allt persónulegt til hliðar.

Það er komið að lokum fundartíma. þetta atti líka að vera aths., svo ég get látið staðar numið.