02.05.1932
Efri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í C-deild Alþingistíðinda. (3745)

15. mál, fimmtardómur

Magnús Torfason:

Hv. 4. landsk. vill gera mikið úr prófrauninni og vitnaði þar í prófraunina hjá Dönum. Ég get satt að segja ekki skilið, hvað hann ætlar þangað að sækja. Ég held, að allir viðurkenni, að á því tímabili, sem ég talaði um, hafi aldrei nema hægrimenn reynt að breyta þessa prófraun. Mér er kunnugt um það frá því ég var stúdent í Höfn, þá var það gert af stríðni við ráðuneytið og hæstarétt að tefla fram afarmerkum lögfræðingi og vinstrimanni. Það komst svo langt, að þessi merki lögfræðingur var búinn að ákveða að ganga undir þetta dómarapróf, en undir eins og lögfræðingurinn vissi, að það var andstætt vilja dómaranna, hætti hann við að leggja sig í þessa tilraun. Þetta sannar mér það, að það er ofmælt, að úrskurður hæstaréttar, æðsta dómstóls landsins, geti ekki fallið þvert ofan í allt réttlæti, og hvað það snertir vil ég aðeins minna á eitt mál, sem frægt er orðið um heiminn. Það er réttarmorðið í Ameríku á mönnunum Sacco og Vanzetti. Það var hæstiréttur landsins, sem framdi það, sem allir beztu menn heimsins hafa á móti mælt og er fullkomlega sannað, að var réttarmorð. (PM: Var dómarapróf þar?). Nei, en ég býst ekki við, að það hefði farið neitt öðruvísi, þó að það hefði verið. Því hefir verið slegið fram, að æðsti dómstóllinn ætti að vera eins og merki þjóðfélagsins. Ég býst ekki við, að Bandaríkjamenn vilji telja þennan æðsta dómstól sinn sem merki þjóðfélagsins. Ég hefi oft heyrt því andmælt, að það ætti að dæma Bandaríkjamenn samkv. þessum dómstóli, og að það sé sannarlega ekki rétt að skoða þjóðina ljósi þess dómstóls.

Eins og ég sagði áðan, sannar prófraunin danska okkur ekki nokkurn skapaðan hlut, og eins og ég hefi nú skýrt fullkomlega, getur það komið fyrir, að æðsti dómstóllinn felli úrskurði og dóma ofan allt réttlæti. Ég get ekki kannast við, að æðsti dómstóllinn sé neitt meiri helgidómur en hver önnur stofnun. Hitt er annað mál, að hann ætti að vera það. En dómurinn verður að vinna til þess sjálfur að vera talinn helgidómur þjóðarinnar. Þar má nefna Dani. Ég býst við, að hæstiréttur Dana sé þar talinn helgur dómur nú, en hann var það sannarlega ekki áður. Það sýnir, að það er ekkert dómarapróf, sem ræður því, heldur eru það mennirnir sjálfir, sem í dómnum sitja. Yfirleitt er það svo með alla helga dóma, að þeir eru ekki teknir af misendismönnum. Þeir hafa verið teknir af mönnum, sem unnið hafa sér eitthvað til lofs og ágætis.

Ég skal svo sambandi við þetta drepa á það, sem ég gleymdi áðan, að það hefir verið flutt fram hér deildinni, að hér liggi fyrir eitthvert skjal frá lagamönnum, sem eigi að vera sönnun fyrir ágæti prófraunarinnar. Ég geri lítið úr því skjali. Mér er sagt, að það sé nokkuð flokkslitað. Yfirleitt geri ég ekki mikið úr því, þó að málaflutningsmenn séu fengnir til að skrifa undir eitthvert skjal, þegar þeir vita, að það snertir hæstarétt. Ég býst við, að þar liggi það til grundvallar, sem segja má um hæstaréttarmálaflutningsmenn og málaflutningsmenn yfirleitt, að þeir hafa sig ekki frammi um það að rýna dóma hæstaréttar. Ég býst við, að ef þeir færu til þess, þá mundu þeir geta litið svo á, með réttu eða röngu, að þeim væri það ekki hollt. Það þarf alls ekki að vera af því að þessir menn hafi ekki það siðferðislega þrek, sem þarf til þess að standa uppi í hárinu á þeim, sem eiga að vita um þessa hluti, heldur mun það blátt áfram vera af því, að málafærslumenn eru umboðsmenn annara manna, og það eitt getur gert það að verkum, að þeir líta svo á, að ekki sé rétt að vera að setja sig upp á móti hæstarétti.

Ég held, að það sé miklu réttara og sanngjarnara að hafa samvinnu dómstólsins og ráðuneytisins um það, hvernig dómurinn eigi að vera skipaður o. fl. Ég er alveg viss um, að það er miklu meiri trygging fyrir því, að þeir menn, sem þar um fjalla, leysi það starf vel af hendi. Í því sambandi get ég bent á eitt, sem þar getur komið til mála staðinn fyrir þessa prófraun. Það er að setja mann dóminn um stundarsakir, en ef hann reyndist þar ekki vel, þá yrði það til þess, að hann fengi ekki embættið. Þetta hygg ég, að væri miklu fullkomnari prófraun en sú prófraun, sem nú er lögum.

Um málið út af fyrir sig þarf ég ekki meira að tala. En það er dálítið af þessu persónupati, sem hefir komið hér fram, sem ég get ekki komizt hjá að minnast lítið eitt á, af því að það snertir skipun dómsins fyrstu. Í sambandi við það vil ég taka það fram, að hæstaréttardómararnir, sem þá voru skipaðir, fylgdu þeim flokki, sem Jón Magnússon var þá fyrir. Því til sönnunar get ég upplýst það, að mjög merkur maður hér bæ fór til Jóns Magnússonar, þegar hann hafði heyrt, hvernig dómurinn var skipaður, og benti honum á, að þetta væri ekki vel ráðið. Ég vissi ekki til, að nokkur maður væri vafa um, hvaða pólitískum flokki þessir menn væru. Hitt er rétt, að sumir þessara manna höfðu ekki haft sig mikið frammi um pólitík, t. d. Kristján Jónsson. Þó endaði með því, að hann varð ráðherra á spjótum Heimastjórnarflokksins. Um Lárus H. Bjarnason er það að segja, að hann var að vísu ekki opinberlega þeim flokki, en þó mun hann ætíð hafa fylgt honum að málum.

Annars er það merkilegt, að allt þetta persónupat skuli endilega þurfa að loða við mál hæstaréttar. Þegar hæstaréttarlögunum var breytt og dómendum fækkað, þá var það hreint og beint persónupat, sem kom því fram. Vitanlegt var, að einn af hæstaréttardómurunum langaði til að verða dómstjóri. Þá var fundið upp á að breyta nafninu og gera dómstjórann að forseta. Það stóð svo á, að þessi hæstaréttardómari átti þá ítak hér Ed., og þetta ítak réð málinu. (JakM: Hvaða ítak var það?). Ég þarf ekki að skýra frá því, en það var ekki þingmaður, og það var ekki þingfrú, það var þingfröken.

Hv. 3. landsk. var að bregða mér um skilningsleysi. Ég held, að ég hafi aldrei brugðið neinum manni um gáfnafar hans. Við verðum hver og einn að þakka fyrir það, sem okkur er gefið. Yfirleitt þykir ekki hlýða að bregða mönnum um það, sem þeim er ósjálfrátt. Ég skal gjarnan játa það, að hann sé miklu vitrari, gáfaðri og skilningsbetri en ég, sérstaklega í þessu máli, og þykist hann sýnilega hafa betur vit á því en allir flokksbræður hans. Hann ber nú fram brtt., og þykist ég vita, að það byggist á því, að hann áliti sjálfan sig miklu vitrari og skynsamari heldur en alla flokksbræður sína til samans, og þarf ég því ekki að taka mér nærri, þó að hann álíti sig vitrari en mig.

Það var verið að tala hér um geðríkan dómsmrh. Út af því persónupati get ég líka minnt á, að það eru til geðríkir hæstaréttardómarar. Það er til svo geðríkur hæstaréttardómari, að þá sjaldan ég hefi átt tal við hann um almenn pólitísk málefni, hefir það endað með því, að kamburinn á honum hefir orðið rauður eins og á ársgömlum hana af bezta kyni: Ég segi þetta ekki manninum til ófrægðar. Hann getur ekki að þessu gert.

Ég býst við, að hæstv. forseta þyki þessi aths. vera orðin nokkuð löng, en ég verð þó að bæta einu við. Það hefir komið til tals að veita hæstaréttardómaraembættið, sem nú er laust. Mér er kunnugt um, að hæstiréttur hefir sérstaklega lagt til með einum manni, náttúrlega íhaldsmanni. En sá maður er að mínum dómi og margra annara svo langt frá því að eiga að verða hæstaréttardómari, að hann ætti ekki einu sinni að fá að flytja mál fyrir hæstarétti.