06.06.1932
Sameinað þing: 16. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (3767)

851. mál, verzlunar- og siglingasamningar við Noreg

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það mun vera misminni hjá hv. 2. landsk., að þessi till. liggi hjá n. Henni var vísað 10. maí til stj. Annars hygg ég þessa till. óþarfa. Það er yfirleitt óþarft að bera fram till. um það, að stj. gæti hagsmuna landsins út á við.

Um það, hvort heimilt sé fyrir stj. að segja upp verzlunarsamningum við önnur ríki, hefir hv. 1. landsk. svarað því, þar sem hann drap á það atriði í stjórnarskránni, að konungur gerði samninga við önnur ríki. Þess vegna er sú till., sem hér liggur fyrir, orðuð þannig, að skora á stj. að taka þetta til athugunar, en ekki, að stj. sé gefin heimild til þess. Stjórnin hefir fulla heimild til allra ráðstafana í þessum efnum án íhlutunar þingsins. En verði þessi till. samþ., þá er það sterk hvöt fyrir stj. að verða við tilmælum þingsins.