31.03.1932
Efri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (3772)

251. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Flm. (Jón Þorláksson):

Till. þessi er shlj. till., sem flutt var fyrir skemmstu í Sþ. og fór fram á skipun 5 manna n. með sama verkefni og þessari 3 manna n. er ætlað, sem sé að rannsaka möguleika á og gera tillögur um lækkun á útgjöldum ríkissjóðs, t. d. með fækkun opinberra starfsmanna, afnámi ónauðsynlegra styrkveitinga og sparnaði í þjóðarbúskapnum yfirleitt, og rannsaka rekstur hinna ýmsu stofnana og fyrirtækja ríkisins og gera tillögur um niðurfærslu kostnaðar við þær. Fyrir nauðsyn slíkrar rannsóknar var gerð svo ýtarleg grein undir umr. um málið í Sþ., að ég tel ekki nauðsyn á að bæta þar miklu við, nema andmæli komi fram gegn till. En ég vil láta í ljós, að ég tel það illa farið, hve nú er liðið á þingtímann, er slík n. getur gengið að þessu nauðsynlega starfi.

Þá vil ég svara einni mótbáru, sem bólaði á undir umr. í Sþ., enda þótt hún sé ekki komin fram hér ennþá. Hún er sú, að til séu í þinginu nefndir, sem eigi að vinna þessi verk, og mun hér átt við fjvn. En þetta er ekki rétt, því að fjvn. geta ekki unnið það verk, sem hér er um að ræða, nema að litlu leyti. Samkv. þingsköpum tekur starf fjvn. að engu leyti til yfirstandandi árs, þegar litið er frá því, að stj. kann að leita einhverrar aukafjárveitingar til notkunar á yfirstandandi ári, en slíkri málaleitan er þá vísað til fjvn.

Það er álit mitt og margra annara, að nú beri svo bráðan að um það, að ríkið sem aðrir láti framkvæma niðurfærslur á útgjöldum sínum og samfærslur á opinberri starfsemi, þar sem slíku verður við komið, að með öllu sé óviðunandi, að þingið, sem nú situr, skilji svo við þessi mál, að ekkert sé gert, sem komi til framkvæmda eða öðlist gildi fyrr en í ársbyrjun 1933. Nú er verk fjvn. mjög umsvifamikið, og enda rekið á eftir þeim við starf sitt, ekki sízt fjvn. Nd., því að á starfi hennar veltur það að mestu leyti, hve þing stendur lengi í hvert sinn. Fjvn. eru því svo önnum kafnar, að þær eiga óhægt með að sinna þeim störfum, sem liggja utan hins eiginlega verksviðs þeirra, og ýmislegt af þeim verkefnum, sem þessari n. er ætlað að leysa af höndum, liggur utan við verkefni fjvn., eins og nú horfir við um þá hluti, þar sem n. m. a. er ætlað að rannsaka rekstur hinna ýmsu stofnana og fyrirtækja ríkisins, sem ekki starfa samkv. fjárveitingum í fjárl. og till. fjvn. því ekki ná til, en slíkra stofnana og fyrirtækja er nú svo margt orðið í seinni tíð, að ekki er minni þörf á að gefa því gætur, hverju þar er hægt að snúa áleiðis um samfærslur og niðurfærslur, heldur en að því, er varðar rekstur ríkisins sjálfs og þannig fellur undir verksvið fjvn. Samanburður á fjárlögum og landsreikningum síðustu ára sýnir það, að svo mikill hl. af útgjöldum ríkisins fer fram utan fjárl., að þar er mikið verk að vinna í þessu skyni, og fellur það verkefni eftir eðli sínu ekki undir fjvn.

Ég hefi svo þessi orð ekki fleiri, enda vænti ég þess, að till. fái greiða og góða afgreiðslu, svo að hægt verði að byrja eitthvað á þessu nauðsynlega starfi sem fyrst.