31.03.1932
Efri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (3775)

251. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég get ekki fallizt á það, að slíkt starf, sem þessari n. er ætlað að inna af höndum meðan þingið situr, liggi fyrir utan verksvið fjvn. Að vísu er fjvn. skorður settar um sparnað, þar sem eru hinar ýmsu greiðslur, sem lögboðnar eru ýmist í fjárl. sjálfum eða með öðrum lögum, og ræður fjvn. auðvitað ekki við þetta, né heldur stj., því að fjárl. verður ekki breytt, eftir að þau einu sinni hafa verið samþ., en öllum öðrum lögum má breyta, og það er einmitt verkefni fyrir fjvn. að athuga, hverjar breyt. sé tiltækt að gera á gildandi lögum til þess að draga úr útgjöldum ríkisins. Fjvn. Nd. hefir og sýnt það í verkinu, að hún skilur þetta svo, með því að gera till. sumpart um frestun á nokkrum útgjaldaákvæðum gildandi laga og sumpart um breytingar í þá átt, að ríkið njóti nú um nokkurt skeið þeirra annara tekna, sem lögum samkv. á að, verja í ákveðnum tilgangi, og ætlast n. til, að þessar till. komi til framkvæmda þegar á miðju þessu ári. Fjvn. hafa og mjög góða aðstöðu í þessu efni. Allar stofnanir ríkisins heyra undir fjvn.n. þannig skýrslur frá öllum opinberum stofnunum og eiga viðtöl við forstjóra þeirra, eða eiga a. m. k. þessa völ, ef þær æskja eftir. Viðvíkjandi útgjöldum ársins 1933 hefir fjvn. það á valdi sínu að draga úr þeim, eftir því sem fært þykir, og kemur þetta auðvitað jafnt til greina um niðurfærslur á útgjöldum yfirstandandi árs, en um þau er n. þó eins og stj. bundin við ákvæði yfirstandandi fjárl. og þeirra annara laga, sem þar koma til greina. Ég álít, að n. eigi að athuga og ganga út frá fjárhagsástandinu eins og það er á hverjum tíma, og held því fram, að n. hafi öll skilyrði til að gera þær till. um sparnað, sem unnt er. Starf sérstakrar sparnaðarnefndar yrði aldrei meira en það, sem fjvn. gæti leyst af hendi, vegna þeirra annara starfa, sem þm. verða að sinna um þingtímann. Það lægi þá helzt fyrir slíkri n., meðan þingsins nýtur við, að athuga suma þá hluti, sem lagabreytingar þyrfti við til að sparnaði verði fram komið, en varla mun þó slík n. afkasta meiru í þessum efnum en fjvn. gæti gert, og aðalgagnið, sem af slíkri n. mætti verða, kæmi þá fyrst til, er n. færi að starfa eftir þingið, ef starf n. gæti leitt til samkomulags milli flokkanna um niðurfærslur á ýmsum þeim útgjöldum, sem eru óbundin að lögum, en aðalstarf n. yrði þó undirbúningur væntanlegra lagabreytinga til niðurfærslu á ríkisútgjöldunum. Ég hefi og lýst yfir því áður, að stj. hafði í hyggju að bera fram till. um skipun slíkrar n. í þinglokin, sem starfi að þessum málum milli þinga, og yrði sú n. stjórnskipuð, svo að hægt sé að koma við jafnrétti milli flokkanna, og ég get gengið inn á, að slík till. sem þessi verði samþ., ef samkomulag getur orðið um það milli flokkanna að nefna ekki nema einn mann hver til í þessa n. Óska ég eftir yfirlýsingum af hálfu flokkanna um það, hvort þeir muni ekki sætta sig við þá skipun, og get lýst yfir því fyrir hönd stjórnarflokksins, að hann mun aðeins nefna til einn mann í þessa n., ef til kemur. Þá vildi ég og leita undirtekta flokkanna um það, hvort nokkuð er til fyrirstöðu, þó að slík till. sem þessi yrði samþ., að samþ. yrði í þinglokin, ef stj. skyldi óska þess, þáltill. eitthvað á þessa leið:

„Alþingi ályktar, að n. sú, sem Ed. hefir skipað til að gera till. um niðurfærslur á útgjöldum ríkisins, skuli starfa áfram í samráði við fjmrh. Kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði“.

N. yrði þannig breytt í milliþinganefnd, sem starfaði í samráði við fjmrh. eftir því, sem þurfa þætti. Yrði kostnaður af störfum slíkrar n. aldrei mikill, og hefi ég hugsað mér, að nefndarmönnum væri goldið þingfararkaup þann tíma, sem n. situr að störfum.

Ég óska svara frá flokkunum um þessar tvær fyrirspurnir, áður en ég tala frekar um þessa till., og vil að lokum endurtaka það, að ég legg höfuðáherzluna á, að þessi n. fái nægan tíma til starfa, en slíkt getur ekki orðið nema hún haldi áfram störfum eftir þinglausnir.