07.05.1932
Efri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í C-deild Alþingistíðinda. (3777)

15. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég ætla að svara strax með fám orðum hv. 1. þm. Reykv. Hann sagði, að ég hefði játað það, að eini tilgangurinn með fimmtardómsfrv., sem fyrst var flutt 1930, hefði verið sá, að koma þáv. hæstaréttardómurum frá embætti. Ég sagði ekkert um þetta og engin rök hafa komið fram, sem benda í þá átt. Hann verður að gæta að því, að það er jafnmikil breyt., sem lagt var til um fimmtardóm frá hæstarétti eins og t. d. lögreglustjóræmbættinu, sem nú er, og lögmannsembættinu upp úr embættum þeim, sem þar voru fyrir. Ástæðan til þess, að þau embætti voru lögð niður, var sú, að mönnum líkaði ekki form embætta þessara, auk þess sem starfsmenn þessir höfðu of miklar persónulegar tekjur af þeim, fyrir utan annað fleira, sem ég ætla ekki að fara út í. Þessum embættum var því breytt í nútímahorf. Áhrifin hafa orðið þau, að störfin eru betur unnin en áður og þjónusta almennings betri en áður. Eins er það, að form hæstaréttar og vinnubrögð eru ófullkomin. Stjskr. mælir svo fyrir, að það mætti leggja niður dómaraembætti, ef gerð væri veruleg breyt. á dómaraskipuninni. Þessi breyt. var gerð, en það var ekkert sagt um það, að þessir dómarar ættu að hætta. Það var strax gert ráð fyrir því, að þeir yrðu með þeim fyrstu, sem gætu komið í embætti. — — Þá sagði hv. þm., að það væri stjórnarskrárbrot að gera ráð fyrir því að kalla mætti lagaprófessora sem viðbótardómara í rétt. En hv. þm. hefir ekki gætt að því, að þetta er gamall síður. Þessir lagaprófessorar koma á hverju ári meira og minna, og stundum dæma þeir allir, eins og í prófessoradómnum, sem íhaldinu varð svo bumbult af að fá.

Ef kenning hv. þm. er rétt, þá hefir stjskr. verið þverbrotin allt frá 1919, þegar þetta skipulag var sett á. Eftir þessari skoðun hv. þm. ættu þessir lagaprófessorar að vera svo hræddir við stj., að þeir yrðu sig ekki að hreyfa. Hv. þm. veit, að það hefir aldrei, hvorki af núv. né undanfarandi stjórnum, verið talað um að víkja prófessorum frá embætti. Í því tilfelli þyrftu að vera afarmiklar sakir á prófessorana, ekki sem dómara, heldur sem prófessora. Þetta er allt saman sagt út í hött hjá hv. þm. Það er gengið framhjá því, að prófessorarnir eru nú varadómarar og eiga að vera það áfram, en öll þessi hræðsla við brottrekstur og mútur er heilaspuni íhaldsins. Jafnvel þeir sjálfir múta víst ekki, og engir aðrir væru líklegir til þess. Ég vil benda hv. þm. á það, að hann var langsummaður þegar núv. 2. þm. Reykv. var flokksforingi. Hann var stuðningsmaður þessa ráðh. og hafði miklar mætur á lögviti hans. Hv. þm. veit, að, hv. 2. þm. Reykv. átti sæti í allshn. Nd., og hann og hv. þm. Barð. lögðu mesta vinnu í að athuga þetta frv. Það var ekki eitt orð um það í nál., að þetta væri stjórnarskrárbrot, sem hv. 2. þm. Reykv. hefði áeiðanlega haft betri aðstöðu til að dæma um en þessi samherji hans, sem er minna löglærður.

Út af máli Garðars Gíslasonar er þetta staðreynd, að í annað skiptið segir dómarinn, að það þurfi sannanir til að dæma skaðabætur, en í hitt skiptið, að ekki þurfi nema líkur. Hér er því um snúning að ræða, sem aldrei verður afsakaður, vegna þess að till önnur rök vantar.