07.05.1932
Efri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í C-deild Alþingistíðinda. (3782)

15. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 1. landsk. sagði, að ég vildi leggja hæstarétt niður af því að ég hefði tapað þar málum, einu eða fleirum. Svo fór hann þó að hugsa sig um og sagði, að það hefði verið félag, sem ég var í, og síðast var minn hlutur orðinn svo lítill, að ég var aðeins 1/40000 þeirra aðilja, sem málinu höfðu tapað.

Sama er að segja um hitt atriðið um illa byggðan dóm, sem gekk á móti Tímanum. Kjósendur Framsóknarflokksins eru um 14000 og þó fylgja flokknum miklu fleiri, svo að minn hlutur í þessu tapi er lítið stærri en í hinu fyrra. Þessir dómar hafa því snert marga menn og vakið eftirtekt, ekki vegna fjárskaða, heldur vegna þess, að þeir hafa haft djúp áhrif í þá átt, að tugir þús. af mönnum véfengja dómana, og það er þyngra á metunum en vitranir frá framliðnum einstaklingum, jafnvel þótt þeir hafi verið heilagir.

Hv. 1. landsk. hefði getað fundið einfaldari og nærtækari ástæður fyrir því, hvers vegna umbóta á Hæstarétti er svo altnennt krafizt. Honum hlýtur að hafa verið ljóst, að töluvert almenn óánægja var orðin í bænum með vinnubrögð eins flokksbróður hans, Jóhannesar Jóhannessonar. Einn af flokksbræðrum Jóh. Jóh. sagði svo um hann í sambandi við eitt dánarbú, að hann væri þar stærsti erfinginn. Þar nam hlutur Jóh. Jóh. 1100 kr. og hafði hann þó 40 þús. kr. tekjur á ári. Almenningsálitið á móti þessu var svo sterkt, að allar tilraunir íhaldsblaðanna til þess að rugla málið komu fyrir ekki, og nú dettur engum lifandi manni í hug að afsaka þessi vinnubrögð né að halda því fram, að sú breyt., sem á var gerð, hafi ekki verið réttmæt. Hér er um samskonar breyt. að ræða frá þjóðfélagslegu sjónarmiði.

Hv. 1. landsk. vildi fara að verja hæstaréttardómana frá 1925 og 1926. Þetta mál er nú orðið svo ljóst, að jafnvel nánustu vinir réttarins reyna ekki lengur að verja dóm hæstaréttar í því. Þeir segja, að í skaðabótamáli þurfi að liggja sannanir fyrir tjóni því, sem kært er yfir, en ekki líkur. Hv. 4. landsk. hélt því þá fram, að sannanir þyrftu, og hann hafði líka sannanir fyrir því, að Garðar Gíslason hefði alls ekki skaðazt, heldur fremur hið gagnstæða, og krafðist því sýknunar. Ef dæma hefði átt eftir líkum, er Björn Kristjánsson laumaði rógpésa sínum um kaupfélögin inn á hvert heimili, er ekki ólíklegt, að hann hefði getað orðið úti með álitlega fúlgu. Því að það er venja siðaðra þjóða, að því stærra og heiðarlegra sem fyrirtækið er, því hærri skaðabætur eru því dæmdar í slíkum málum, en því minni, sem það er smærra og ómerkilegra. Þetta veit hv. 1. landsk. auðvitað ekki, en þetta er nú svona samt.

Jóh. Jóh. fyrrv. bæjarfógeti dæmdi G. G. 25 þús. kr. í skaðabætur. Hv. 4. landsk. afvopnaði sækjendurna með því að sanna, að enginn skaði hefði orðið, en þá bregður hæstiréttur sér á leik og segir, að þótt enginn skaði hafi orðið af því, sem stefnt var fyrir, þá geti þó einhver skaði orðið einhverntíma, og dæmir G. G. skaðabætur, að vísu margfalt lægri en Jóh. Jóh. Alþingi 1928 sá, hvert stefndi og ákvað, að sannanir skyldu liggja fyrir framvegis. Það þótti öruggara eftir þessa reynslu.

Hv. 1. landsk. sagði, að það væri ekki sérstök þjóðarógæfa, þótt bankarnir töpuðu 300 þús. kr. Þó upphæðin sé allhá, er hún þó ekki aðalatriðið. Hitt er aðalatriðið, að sennilegt er, að afleiðingin verði sú, að fiskveðin missi gildi sitt, og það verður um leið rothögg á útgerð landsmanna. Um það leyti sem fiskveiðissvindlið átti sér stað, gat Útvegsbankinn fengið endurkeypta fiskvíxla í Lundúnum, en þetta mál hafði þau áhrif, að öll kaup fellu niður, og bankinn hefir verið útilokaður síðan. Tapið er því meira en 300 þús. kr. og e. t. v. óútreiknanlegt.

Það er auðsætt, að samúð hv. 1. landsk. er öll hjá þeim, sem fengu þessa peninga ranglega fyrir sína eigin vanþekkingu. Þess vegna beitir hann slíku ofurkappi til að halda í úreltan dómstól, sem reyndasti og elzti lögfræðingur á þingi hefir sagt, að væri flokksdómur.