07.05.1932
Efri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í C-deild Alþingistíðinda. (3786)

15. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það var auðheyrt á hinu stutta svari, sem hv. 2. þm. Árn. gaf hv. 1. þm. Reykv., að það hafði ekki verið sterkrétt, sem þm. hafði borið fram í málinu. Hv. 2. þm. Árn. hefir sagt sitt orð um þetta og fært rök fyrir því, sem standa óhrakin. Að hv. l. þm. Reykv. vill ekki viðurkenna þau opinherlega, er sökum þess, að þau koma sér illa fyrir hann, enda þótt hann hljóti að viðurkenna þau með sjálfum sér.

Þá spurði hv. þm., hvaða rök ég gæti fært fyrir því, að aukadómararnir mættu samkv. frv. eiga sæti á Alþingi, þrátt fyrir ákvæði stjskr. Hv. þm. virðist ekki vera búinn að átta sig á því, að flokksbróðir hans, hv. 2. þm. Reykv. hefir nú nákvæmlega sömu aðstöðu í Hæstarétti og gert er ráð fyrir, að aukadómararnir hafi í fimmtadóminum. Hann er nú fyrst og fremst kennari við háskólann og þarf ekki að dæma í Hæstarétti nema sérstaklega standi á. Það er ástæðan fyrir því, að honum er leyfilegt að sitja á þingi. En um leið og hann veður aðaldómari í réttinum, þá fyrst kemur hann undir það ákvæði stjskr. að vera ekki kjörgengur. Þetta hlýtur hv. þm. að vita, en hann þykist ekki vita það, af því að hann og flokksbræður hans þurfa æfinlega að finna einhversstaðar stjskr.brot til þess m. a. að geta haft það fyrir pólitíska fæðu handa sér og fylgifiskum sínum.

Um 60 ára aldurstakmarkið, eins og það var upphaflega í frv. þessu, er það að segja, að þingið gat sett það sem skilyrði, ef því svo sýndist. Því hefir t. d. Ólafur Lárusson prófessor marglýst yfir, að hann áliti breytinguna fullkomlega löglega. Hitt er annað mál, hvort við höfum efni á að gera þetta og einmitt af heim ástæðum höfum við framsóknarmenn horfið frá þessu ráði. Hér er því aðeins um fjárhagslegt ákvæði að ræða og ekkert annað. Ég get vel skilið, að hv. 1. þm. Reykv. þyki leiðinlegt, að Alþingi 1928 skyldi ákveða það, að það þyrfti sannanir til þess að geta fengið sér tildæmdar skaðabótakröfur. Það gat nefnilega verið ákaflega þægilegt fyrir hann og samherja hans að fá dóma sér í vil, dæmda eftir líkum, eins og þegar Jóhannes Jóhannesson dæmdi ritstj. Tímans í 25 þús. kr. sekt án þess að hafa hinir minnstu sannanir fyrir því, að sú sekt væri á nokkrum rökum byggð. En Alþingi vildi ekki slíkt réttaröryggi, og því gerði það íhaldinu ómögulegt að fá sér tildæmdar slíkar sektir eftirleiðis.