12.05.1932
Neðri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í C-deild Alþingistíðinda. (3792)

15. mál, fimmtardómur

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Meiri hl. allshn. hefir borið fram á þskj. 686 4 brtt. við frv. eins og það kom frá Ed. Ég mun þá aðeins víkja að þessum brtt., þar sem málið er orðið svo rætt í öllum aðalatriðum, að engin ástæða er til að fara út í þau við þessa umr.

Í reglugerð frá 1924 um starfaskiptingu ráðherra er ákveðið, að bera skuli veitingu nokkurra helztu embætta upp á ráðherrafundi áður en, till. er gerð um veitinguna til konuugs. Er þar talin veiting landlæknisembættis, biskupsembættis o. fl. Dómaraembættin í hæstarétti eru ekki nefnd, en þó liggur í augum uppi, að tilætlunin hefir verið, að þau embætti fellu undir þetta ákvæði reglugerðarinnar. Í 1. brtt. er það ákvæði tekið upp, að veiting aðaldómaraembætta sé borin upp á ráðherrafundi. Hinsvegar er það fellt niður, að forsrh. geri till. um veitinguna til konungs. Vitanlega er gengið út frá, að hver ráðh. beri fram till. um þau embætti, er undir hann heyra. Að vísu er það algert formsatriði, hvaða ráðh. gerir till. um þessi embætti, það fer vitanlega eftir því, hvernig ráðuneytið skiptir með sér innanhússtörfum, en óþarfi sýnist að setja sérákvæði í þessi lög fremur en önnur um það, hvaða ráðh. leggi fram till. um veitingu embætta. Virðist eðlilegast að öllu leyti, að sá ráðh. geri það, er málin heyra undir. 2. brtt. er aðeins orðabreyt. f Ed. var sett inn orðið „kirkjuréttur“ í stað „synodalréttur“. Til samræmis höfum við einnig breytt þessu þannig í 12. gr. frv., og hv. 4. þm. Reykv. hefir borið fram samskonar brtt. á þskj. 668.

Í Ed. var felldur niður kafli, sem kvað á um launakjör dómaranna. Þetta höfum við talið óheppilegt og höfum því borið fram brtt. um það, að laun dómara verði ákveðin í launalögum, en þeir haldi þeim launum, er hæstaréttardómarar hafa nú, unz núg. launalög verða endurskoðuð. Ennfremur, að dómurinn skuli ákveða þóknun til aukadómara.

Loks höfum við flutt brtt. um að lögin öðlist gildi 1. sept. í stað 1. júlí. 1. sept. er nýtt starfsár að byrja og því eðlilegast, að breyt. komi til framkvæmda um leið.