12.05.1932
Neðri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í C-deild Alþingistíðinda. (3793)

15. mál, fimmtardómur

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Barð. sagði, að mál þetta væri svo þaulrætt, að ekki væri ástæða til að minnast á annað en brtt. Þetta mál hefir sjálfsagt verið mikið rætt í Ed., enda er það þaðan ættað, en þegar það fór í gegnum þessa deild, var lítið um það talað, hvað sem olli. Ekki mun þó ástæðan hafa verið sú, að frv. orkaði ekki tvímælis hér í deildinni í ýmsum mikilsverðum atriðum, heldur mun eitthvað annað hafa valdið.

Það virðist nú svo sem það stæði ekki næst mér að fara að hefja umræður um þetta mál hér í deildinni. Mætti ætla, að þeir, sem hér eru löglærðir, hefðu að mun meiri áhuga á þessu máli, og um þekkinguna efast maður ekki fram yfir okkur leikmennina, sem málið snertir að vísu eins og lögfræðingana, en við höfum ekki jafngóð skilyrði til að rökræða það.

Ég mun halda mér við brtt. mínar, eins og hv. þm. Barð. En brtt. mínar eru svo víðtækar, að ekki verður komizt hjá því að ræða málið nokkuð almennt í sambandi við þær. Ég er þó a. m. k. eins löglærður og hæstv. dómsmrh., sem borið hefir málið fram og tekið mikinn þátt í umr. og þótzt standa þar lögfræðingum jafnfætis.

Ég hefi borið fram brtt. mínar á þskj. (668, af því að aðrir hafa ekki orðið til þess, en ég óska, að hv. d. fái tækifæri til að láta álit sitt á þeim í ljós.

1. brtt. er um nafnið. Um það hefir verið mikið rætt og með misjöfnum rökum. Auðvitað er sú ástæða til nafnbreyt., að „hæstiréttur“ sé ekki góð íslenzka, bábilja ein, þó að rétturinn heiti Höjesteret á dönsku. Mörgum hættir til að halda, að hvert það orð, sem líkt er á dönsku og íslenzku, sé af dönskum rótum runnið, en gæta þess ekki, að bæði orðin geta verið runnin af sama norræna stofninum. Mér dettur í hug það, sem sá fyndni maður, Benedikt Gröndal, sagði, að maður mætti nú bráðum fara að hætta að segja já og nei til þess að vera ekki grunaður um dönskuslettur.

Þá hefir verið sagt, að heitið væri ekki hugsunarrétt, af því að dómstigin væru ekki nema tvö og ætti því nafnið að vera hærriréttur eða yfirréttur. Ég skal ekki fara langt út í þetta, en ég sé ekkert á móti því, að nafn réttarins sé þannig, að ekki þurfi að breyta því, þótt sett væri millidómstig. Ég er nú ekki svo kunnugur meðferð mála, að ég geti fullyrt það, en ætla þó, að til séu fleiri dómstig en tvö. En þótt dómstigin væru aðeins tvö, er engin hugsunarvilla í heiti réttarins eins og það er nú. Það táknar ekki annað en æðsta dómstól landsins, en dómstólar í landinu eru margir, eins og allir vita.

En þótt ég mótmæli því, að nokkur afglöp séu drýgð með því að kalla dóminn hæstarétt, og þótt ég álíti, að hæstiréttur sé fullgóð íslenzka, þykist ég þó vita, að heitið sé tekið eftir Dönum og er því ekkert sérlega ginkeyptur fyrir því. Mér finnst rétt að taka upp nafnið, sem er sérkennilegt fyrir okkur, og ég get lýst yfir því, að í orðinu „fimmtardómur“ fellur mér seinni liðurinn „dómur“ miklu betur en réttur. Réttur er, getur maður sagt, frekar annað, og ég álít réttara og að betur fari á að taka upp orðið „dómur“ um dómstól. Þess vegna get ég vel fallizt á þá skoðun, að það sé rétt að breyta nafni dómstólsins og taka upp nýtt nafn á hann. En hinu get ég ekki verið samþykkur, get bara ekki séð, að það sé nein þörf á því, að leggja niður hinn dómstólinn, sem verið hefir æðsti dómstóll landsins, þó breytt sé um nafn á honum.

En ef breyta á um nafn á æðsta dómstólnum, þá er næsta spurningin sú, hvert hið nýja nafn á honum eigi að vera, og þar hefir sá ráðh., sem gengizt hefir fyrir því, að þetta frv. hefir hvað eftir annað verið borið fram, tekið upp nafnið fimmtardómur. Meginástæða hans fyrir þessu nafni er sú, að það sé rétt að tengja saman nútíðina og það tímabil fortíðarinnar, sem við eigum glæsilegast, sem sé lýðveldistímabilið, með því að taka upp smám saman hin fornu heiti, til að láta marka það tímabil, þegar við erum aftur orðnir sjálfstætt ríki eins og við vorum þá. En þegar við athugum þetta nafn, fimmtardómsnafnið, og þegar maður athugar þann tíma, sem nafnið er bundið við, þá sér maður, að um leið og vakin er upp fornöldin að þessu leyti, þá er hún líka snúin úr hálsliðnum, því þessi fimmtardómur er ekki að neinu leyti tilsvarandi hinum forna fimmtardómi. Og þetta sama hefir líka áður komið fram, þegar þessi sami hæstv. ráðh. tók upp á því í annað skipti að nota fornt embættisheiti á allt annað embætti en það var notað á þá. Og ég vil segja, að það sé eins mikill óleikur við sögulegar minningar eins og virðing fyrir þeim að taka forn nöfn og kalla þeim allt aðra hluti en þá, sem áður báru þau. Ég get ekki séð, ef t. d. heitið biskup hefði fallið niður, að það væri rétt að taka upp heitið biskup á allt annað, og kalla t. d. prestinn á Akranesi biskup, þó það heiti hefði verið til áður. Það er bara að rugla sögulegar minningar. Þetta annað embætti, sem ég á við, er lögmannsnafnið, sem tekið hefir verið og sett á þann embættismann, sem áður hét bæjarfógeti, hér í Rvík. Þetta er bara að rugla sögulegar minningar. Lögmennirnir áður voru allt aðrir embættismenn en löggæzlumenn á einum stað. Það hefði kannske miklu fremur mátt taka upp lögmannsheitið fyrir amtmennina. (EA: Það hefði heldur ekkert vit verið í því). Nei, líklega ekki. En a. m. k. get ég ekki skilið, að þá menn, sem hafa sérstök dómsvæði, eru sérstakir dómarar fyrir ákveðin héruð, sé rétt að kalla lögmenn. Lögmennirnir áður voru menn, sem áttu að dæma á miklu víðara sviði en eitt einstakt lögsagnarumdæmi er. Þetta er því bara til að rugla sögulegar minningar.

Alveg sama hendir þennan hæstv. ráðh. hér, þegar hann er að velja fornt og frægt nafn á æðsta dómstólinn. Fimmtardómur var nafn á allt öðrum dómstóli en hér er um að ræða, dómstóli, sem átti alls ekki að hafa með höndum þesskonar mál, sem þessi dómstóll á að dæma. Ég ætla mér nú að vísu ekki þá dul að fara að ræða á vísindalegan hátt um starfsvið hins forna fimmtardóms, því ég rekki ekki mikið inn á það. En svo mikið veit ég þó um hann, að hann átti ekki að dæma í þeim málum, sem fjórðungsdómarnir höfðu tekið til meðferðar og komizt að niðurstöðu um; hann gat ekki tekið niðurstöður fjórðungsdómanna og breytt heim, en það er einmitt verksvið hæstaréttar. Til hans er hægt að afrýja málum, þannig að hann á að taka dómsniðurstöður undirréttanna, og getur breytt þeim eða staðfest þær.

Ég veit nú ekki, hvers vegna fimmtardómurinn forni hét svo, en býst við, að það hafi verið af því, að hann var fimmti dómurinn í landinu. Fjórðungsdómarnir voru 4, og það gat komið fyrir, að mál lykist þar ekki, og því var fimmti dómurinn settur, til þess að þau mál gætu lokizt, sem ekki höfðu lokizt í fjórðungsdómunum. Fimmtardómurinn hafði alveg sérstakan svip, því auk þeirra mála, sem ekki lukust í fjórðungsdómum, var hægt að vísa til hans alveg sérstökum málum, nokkuð tilsvarandi málum heim, sem heyra mi undir landsdóm. Þessi mál voru þingsafglöp og mútur, svo þau voru helzt hliðstæð þeim málum, sem dæma á eftir ráðherraábyrgðarlögunum í landsdómi. Og að fara að taka upp nafn þessa dómstóls, sem þannig var skipaður allt öðruvísi en sá dómstóll, sem hér er um að ræða — — allt öðruvísi, og nefna æðsta dómstólinn því nafni, það er svo fjarri því, að efla og halda uppi sögulegum minningum fornaldrainnar, að það þvert á móti ruglar með öllu meðvitund þjóðarinnar um dómaskipunina í fornöld. Ég veit, að þetta stafar upphaflega hjá hæstv. ráðh. af sögulegri vanþekkingu og hunda- vaðshætti; honum er svo ákaflega gjarnt til þess. Hann hefir t. d. skrifað Íslandssöguágrip, sem er frægt fyrir vitleysur og ónákvæmni; það er að vísu lipur bók, svo ég sé nú sanngjarn, en full af hundavaðshætti og vitleysum. Ég veit, að þetta er þó meining hjá hæstv. ráðh., að vilja taka upp forn nöfn, og að hann vill vekja, með því að taka þau upp, virðingu fyrir okkar sögulegu minningum, en vanþekking hans og fljótfærni veldur því, að hann „rammar ekki hinn rétta höggstað“, eins og meistari Jón mundi hafa orðað það.

Ég get verið sammála hæstv. ráðh. um, að það sé ekkert á móti því að breyta nafni á æðsta dómstólnum, ef nafnið á honum þykir ekki fallegt, og að eðlileg afleiðing af því sé sú, að hann beri fram till. um annað nafn. En það er talsverður vandi að finna annað nafn á dómstólinn, því ég býst við, að menn greini mjög á um, hvaða nafn sé heppilegt. Ég hefi heyrt suma nefna yfirdóm og segja, að það færi vel á að kalla hann það. En ég er alveg á móti því, af því að ég tel heppilegt að geyma það nafn, þangað til ef miðstig skyldi verða sett upp, því ég tel sjálfsagt að halda þá á því dómstigi því nafni sem var á því, en ekki að fara að taka upp á æðsta dómstólnum það nafn, sem áður merkti allt annað, fremur en fimmtardómsnafnið. Æðsti dómstóll t. d., það er nú bæði loðið og ljótt í munni.

En aftur á móti höfum við haft um langan tíma mjög góðar samsetningar á orðunn með því að kenna þau við landið allt; þau hafa myndazt alveg ósjálfrátt og fara vel í munni, t. d. landlæknir og landsbókasafn. Þau eru mótuð sem einskonar mótsetning við samskonar stofnanir eins hluta landsins. Það eru til bókasöfn fyrir sýslur, ömt og hreppa, og svo landsbókasafn; það er ekki neitt yfir hinum, en það er lagt til þess af almannafé og aðgangur að því fyrir alla landsmenn. Landlæknisembættið var nú upphaflega miðað við það, að hann var eini læknirinn á landinu. En þegar svo læknaskipunin vex og læknum fjölgar, þá verður embætti landlæknis að yfirembætti yfir hinum læknaembættunum. Þessar samsetningar eru góðar. Þess vegna hefi ég stungið upp á því, að æðsti dómstóllinn verði kallaður landsdómur, því málum héraðsdómanna er þá stefnt fyrir landsdóminn, og álít ég, að þetta komi vel heim við þessa nafnvenju, sem við höfum haft um skeið. Nafnið landsdómur fer vel í munni, er spengilegt og fallegt, rétt byggt og samkv. sögulegum venjum. Og ég veit ekki nema eina mótbáru við því að taka upp þetta nafn á æðsta dómstólinn, og hún er sú, að það er nafn á dómnefnu einni, sem sé þeim dómi, sem dæma á um ábyrgð ráðherra. Það er nú ekki hægt að segja annað en að þessi dómstóll hafi verið ákaflega umsvifalítill, því það hefir aldrei verið stefnt til hans neinu máli, þó hann hafi stundum verið nefndur; já, það er nú helzt nú á seinni tímum, að mönnum hefir dottið landsdómur í hug í sambandi við stj. En það hefir nú aldrei komizt lengra, og ég veit ekki einu sinni, hvort þessi dómur er nú til; ég hefi nú heyrt sagt, að það mundi nú hafa verið vanrækt að skipa hann, svo að hann væri ekki til, þó kalla þyrfti hann saman. Ég held því, að það hafi ekki safnazt þessari landsdómsnefnu sú virðing, að við gætum ekki tekið af henni nafnið og sett það á annan dómstól, en valið honum annað heiti, og kem ég síðar í brtt. mínum að því atriði. Ég verð því að segja, að svo framarlega sem hv. þm. fellust á að nefna æðsta dómstólinn landsdóm, þá getur það ekki hamlað því, að nafnið verði tekið, þó til sé nauðaómerkilegur dómur með því nafni áður, sem hvorki hefir unnið gott né illt, og verður því að láta sér nægja annað nafn.

Þetta er þá mín 1. brtt., að heitið fimmtardómur í 1. gr. frv. breytist í landsdómur, og svo náttúrlega alstaðar annarsstaðar í frv., og allar samsetningar breytist í samræmi við það og allt í tilsvarandi tölum og föllum, því ég hefi ekki viljað vera að taka upp þær óteljandi brtt., sem til þess þyrfti að breyta þessu sérstaklega á hverjum stað, enda hefi ég séð, að það hefir verið tekið gilt hér, að bera fram eina brtt, um nafn, og láta hana duga til að breyta alstaðar í frv., þar sem nafnið kemur fyrir. Í þessu frv. kemur ákaflega víða fyrir sjálft orðið fimmtardómur og samsetningar af því orði, eins og fimmtardómsritari og fleiri samsetningar tilsvarandi.

2. brtt. mín er við 2. gr. frv.; hún er um það, að fyrri málsl. gr. falli niður. sá málsl. hljóðar um það, eins og alkunnugt er, að hæstiréttur skuli lagður niður. ég álít nú, og mér hefir alltaf fundizt, að þó mikið hafi verið talað um ýms önnur atriði þessa fimmtardómsfrv., eins og t. d. um afnám dómaraprófsins, þá sé þetta þó það meginhneyksli, sem í frv. felst, að þar er sagt berum orðum: Hæstiréttur skal lagður niður. Þeir, sem mæla fyrir frv. segja, að það sé út af fyrir sig ekki nema formsatriði, úr því breyta eigi nafninu, að það sé kallað svo, að hæstirréttur sé lagður niður. En það er miklu meira en formsatriði; það er raunhæft atriði. Og hversu raunhæft það er, sér maður bezt á því, að það verður að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess í frv., að dómarar Hæstaréttar geti. orðið dómarar í þessum nýja dómstóli. Það er alveg eins og ef væri breytt nafni á banka, ef við stofnuðum t. d. Ríkisbanka og Landsbankinn væri lagður niður um leið og Ríkisbankinn tæki til starfa. Ef ekkert væri frekar að gert, er ég hræddur um, að það hefði æði miklar afleiðingar.

Með því að æðsti dómstóllinn er lagður niður, eru dómararnir allir afsettir, og það breytir engu um það, þó svo sé ákveðið í lögunum, að þessum mönnum skuli veitt nýju embættin í nýja dómstólnum.

Það, sem hér er um að ræða, er ég ekki í vafa um, að stappi nærri stjskrbroti. Ég þori ekki, af því ég er nú ekki lögfræðingur, að fullyrða, að það sé stjskrbrot, en það stappar áreiðanlega nærri því. Eins og alkunnugt er, er svo fyrir mælt í stjskr. um dómara hæstaréttar, að þá megi ekki setja af nema með dómi. Þeir hafa þannig algerlega sérstöðu á móts við þá embættismenn, sem hafa á hendi umboðsstörf, annaðhvort eingöngu eða umboðsstörf með dómstörfum, að það er ekki hægt að setja þá af, nema með dómi. Yfirvaldið, hin umboðslega stj. og konungur, sem að þessu leyti fer með framkvæmdarvaldið, getur ekki sett þessa sérstöku embættismenn af. Það væri einkennilegt að ákveða þetta sérstaklega í stjskr., eins og hún er fáorð um útfærslu einstakra atriða, ef þetta ætti ekki að vera æði mikils virði. Og það er það nú líka einmitt, því það að tryggja hæstaréttardómurum, að þeir verði ekki settir af, er gert til þess, að þessir dómarar þurfi ekki, eða að það sé engin hætta á, að þeir taki tillit til annars í sínum dómarastörfum en þess, sem þeir álíta vera rétt. Það er einmitt gert til þess, að þeir þurfi ekkert um það að hugsa, þó geðríkur ráðh. verði reiður af einhverri dómsniðurstöðu hjá þeim, af því að hann getur ekki gripið til einhverrar átyllu til að víkja þeim frá vegna þessarar dómsniðurstöðu. Það er auðséð, að stjskr. vill með þessu vernda stöðu hæstaréttardómaranna gegn öllum, nema sjálfum þeim. Fremji þeir eitthvert verk, sem þeir verða dæmdir fyrir, þá geta þeir misst embættin, eða ef þeir gera eitthvað, sem gerir þá óhæfa til að vera dómarar, en að öðru leyti geta þeir, óhræddir við öll yfirvöld landsins, fellt þá dóma, sem lögin og sannfæring þeirra býður þeim. En nú er með því ákvæði þessa frv., að hæstiréttur skuli lagður niður, beinlínis þessi réttur af dómurunum tekinn. En hvort sem það er nú af því, að það hafi láðst, þegar stjskr. var sett, að veita dómendunum í æðsta dómstólnum þessa vernd gegn löggjafarvaldinu, eða ekki, þá er það vist, að þeir hafa ekki berum orðum þessa vernd, nema gegn umboðsvaldinu. Æðstu menn einnar greinar ríkisvaldsins, dómsvaldsins, hafa þannig vernd stjskr. gegn annari grein ríkisvaldsins, umboðsvaldillu, en löggjafanum hefði sennilega alls ekki dottið í hug, að það þyrfti að vernda dómendurna í æðsta dómstólnum fyrir þriðju grein ríkisvaldsins, sjálfu löggjafarvaldinu. En það hefir nú sýnt sig, að þess var full þörf. Það væri ekki annað en hégóminn einber að vera að setja það í stjskr., að hæstaréttardómarana með ekki setja af, nema með dómi, ef löggjafarvaldið getur svo svipt þá embættum, þegar því sýnist, ef það getur gripið inn í og lagt dómstólinn niður. Maður þekkir það svo vel úr stjórnmálunum, og það hefir verið staðfest svo áþreifanlega í meðferð þessa máls hjá þeim hæstv. ráðh., sem hefir verið að beita sér fyrir því að þó að geðríkur ráðh., sem fær andúð á æðsta dómstólnum, af því að dómar hans hafa gengið honum á móti, geti ekki sjálfur sett dómarana af, þá fær hann bara aðstoð síns flokks til að setja þá af, með því að leggja dómstólinn niður.

Þó ég segi, að þetta hafi sýnt sig nú, þá skal ég geta þess, að hæstv. ráðh. hefir ekki komið því fram enn að leggja æðsta dómstólinn niður, það er ekki fullkomnað verk; það er að vísu búið að reiða öxina, en ekki búið að láta hana ríða að hálsi dómstólsins, því frv. hefir þó verið breytt svo, að dómararnir í hæstarétti eiga nú að taka sæti í þessum nýja dómi, ef þeir vilja. En tilræðið hefir verið gert, og það er alveg óviðunandi, ef hv. alþ. ætlar að ganga svo frá lögunum, að æðsti dómstóllinn verði lagður niður. Afleiðingin mundi óhjákvæmilega verða sú, að þetta mundi endurtaka sig aftur og aftur. Ef ekki er hægt að standa á móti því í fyrsta skipti, þegar ekkert fordæmi er fyrir því, hversu erfitt yrði þá ekki að standa á móti því, þegar hægt er að benda á fordæmið? Hversu auðvelt verður þá ekki fyrir samskonar geðríkan mann í dómsmrh.sæti og núv. hæstv. dómsmrh. að koma með frv. um, að fimmtardómur skuli lagður niður, eða ef mín brtt. verður samþ., sem ég vona, að muni verða, þá að landsdómur skuli lagður niður? Það er yfirleitt alltaf hægt að leggja dóminn niður, meðan hægt er að finna nýtt nafn á hann. Það væri þá kannske helzt, að það yrði að hætta því af því, að það væri ekki lengur hægt að finna nýtt nafn á dóminn. Og þetta verður auðvitað til þess, að þrátt fyrir þá miklu vernd og tryggingu, sem stjskr. á að veita dómurunum í æðsta dómstólnum fyrir því, að hvernig sem þeir dæma. Þá sé engin hætta á, að þeir verði afsettir, þá er þeim haldið síhræddum um það, að hvaða stj. og meirihl.flokkur sem er, setji þá af, ef þeir ekki láti skipast, og dæmi ranga dóma, ef svo ber undir.

En hvers vegna verndar þá ekki stjskr. þá fyrir þessu berum orðum? Það er vafalaust af því, að stjórnarskrárlöggjafinn mun hafa litið svo á, að þetta gæti ekki komið fyrir. En það væri sannarlega full ástæða til að fyrirbyggja það í stjskr., að hver meirihl.flokkur geti sett af alla hæstaréttardómarana.

Það hefir oft verið sýnt fram á það, að það er engin þörf á þessu ákvæði, að hæstarétt skuli leggja niður. Manni gæti í raun og veru dottið í hug, að þegar það var fyrst borið fram, hefði þetta stafað af klaufalegu eða ónákvæmu orðalagi, að meiningin hafi ekki verið önnur en að breyta nafni dómsins, en þetta hafi verið orðað svona óhönduglega, að hæstarétt skyldi leggja niður. En það hefir nú sýnt sig, að svo er ekki. Það er búið að taka svo miklu ástfóstri við þetta orðalag, að jafnvel eftir að það er búið að missa þá þýðingu, sem það átti að hafa í upphafi, sem sé þá, að losna við dómarana úr hæstarétti, þá er samt haldið fast við. þetta orðalag, e. t. v. til þess að greiða leið þeirra, sem seinna verða ráðherrar, til þess, með aðstoð auðsveips flokks, að losna við þá dómendur, sem þeim kann að verða illa við. Því auðvitað verður þeim greiðari leið að bera fram frv. um að fimmtardómur skuli lagður niður, eftir að Alþ. hefir samþ., að hæstiréttur skuli lagður niður. Þá má auðvitað búast við því, að sérhver ráðh. geti fengið löggjafarvaldið til að setja æðstu dómendurna af fyrir sig.

Þá er ekki heldur sú ástæða fyrir hendi, að með frv. sé gerð á æðsta dómstólnum nein umsteypa, þannig, að hér sé um algerlega nýjan dómstól að ræða. Það er svo fjarri því. Ég er reyndar ekki svo kunnugur þessu máli sem skyldi. En við að bera þetta frv. fljótlega saman við lögin um Hæstarétt þykist ég sjá, að það hefði verið auðelt að gera þær breytingar á hæstarétti, sem frv. gerir ráð fyrir, með því að flytja það sem breyt. við hæstaréttarlögin. Það er svo fjarri því, að það umsteypi eldri réttinum, að það er fátt nýtt í því, annað en það, að leggja skuli niður æðsta dómstólinn og taka upp annan nýjan.

Ég skal játa það, að ef lagt væri til að breyta hæstarétti í dómstól, sem væri eitthvað í líkingu við það, sem fimmtardómurinn forni var, þá hefði verið ástæða til að leggja Hæstarétt niður, því þá hefði honum verið breytt í allt öðruvísi dómstól en hann er nú. En allt meginefni frv. er engin breyt. frá því, sem er; þar er flest óbreytt, nema orðalagið. Ég hefi því ekki getað fundið neina ástæðu til að leggja hæstarétt niður, nema þessa einu, sem er fullkomlega hneykslanleg, að benda hverri stj. á þá leið, ef hún er óánægð með einhverja dóma, að lata þingið leggja niður æðsta dómstólinn og losna þannig við þá dómara, sem verið hafa.

Þá kem ég að 3. brtt. minni, sem er við 4. gr., og hljóðar um, að landsdóm skuli skipa 5 fastir dómarar.

Eins og kunnugt er, þá var hæstiréttur, þegar hann var settur á stofn fyrst, skipaður 5 dómendum. Þetta var gert af því að meiri trygging var talin fyrir því, að við fengjum góðan rétt, sem kæmist að vel grundvölluðum dómsniðurstöðum, ef 5 menn ættu setu í honum, heldur en ef þeir væru aðeins 3, eins og var í landsyfirréttinum áður. — Þegar landsyfirrétturinn var lagður niður, var settur upp annar dómstóll, sem var fjölskipaðri. Þessu var svo breytt aftur og fækkað dómurum af sparnaðarástæðum. Ég man vel eftir umr. um það, og ég man ekki eftir að það kæmu neinar raddir fram til að andmæla því, að dómurinn væri lakar skipaður með 3 dómurum en 5. Ráðh., sem þar þetta frv. um fækkunina fram, sagði aldrei orð í þá átt, að hann teldi ekki, að dómurinn væri lakar skipaður. Hann sagði oft, að hann áliti, að dómurinn væri betur skipaður á dómurum en 3, en hann áliti þó, að dómurinn væri svo vel skipaður 3, að það væri forsvaranlegt, og þegar verið væri að reyna að spara á öðrum sviðum, þá væri þetta vel forsvaranlegt. En hann játaði, að dómurinn væri tryggari með mörgum vitrum og lærðum mönnum. Nú er það svo, þegar 3 menn eru í dómi, að í raun og veru er það æfinlega einn, sem dæmir, ef nokkuð orkar tvímælis. — Ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um það, að okkar æðsti dómstóll er óforsvaranlega veikur með 3 dómurum. Það er ákaflega slæmt, ef vefengja þarf dómsniðurstöður æðsta dómstóls landsins. En ef á að gera kröfu til þess, að þær verði ekki véfengdar, þá verður að skipa dóminn þannig, að hann hafi sterka aðstöðu til að vísa öllu á bug og að slíkar raddir hafi við sem minnst að styðjast. Ég álít, að það sé óforsvaranlegt, að 3 manna dómstóll ráði öllum málum til fullnaðarlykta. Ég ætla ekki að fara út í það hér, hvað það er stórkostlegt starf, sem hæstiréttur oft og einatt vinnur, og hvað mikils virði það er að tryggja það eftir því sem hægt er meðal ófullkominna manna, að dómsniðurstöður dómstólanna séu alltaf réttar og í samræmi við l. Og þó að sumir álíti, að slæmt sé að þurfa að binda 5 menn með miklum hæfileikum við jafnlítið starf og þetta, þá er starfið, þó það sé ekki mikið fyrirferðar, svo mikils virði, að sannarlega er vel bindandi við það 2 af landsins beztu mönnum að auki við þá 3, sem nú eru. Það er aldrei hægt að meta starf sem þetta eftir stærðinni einni. — Ég held, að það sé eini kosturinn í mínum augum við þetta frv., að gert er ráð fyrir því, að 5 menn skipi þennan dóm í heim málum, sem mestu varða, að hvenær, sem málið er svo stórt, að ástæða þyki til að kalla til aukadómara, þá skuli 2 af kennurum lagadeildar háskólans sitja í dómstolnum með, því í 5. gr. frv. stendur, að þegar mál eru margbrotin, umfangsmikil, þýðingarmikil eða vandasöm, þá skuli 2 aukadómarar kvaddir til, en í öllum einföldum málum skuli 3 dæma. En þó það sé kostur, að 5 menn sitji í dómnum, þegar um margbrotin mál er að ræða, þá álít ég sporið ekki stigið nógu langt, og að við þessa skipun séu, alveg augljósir gallar. Það er fyrst og fremst það, að ákaflega erfitt er að skera úr því, hvaða mál eru vandasöm og margbrotin. Það er óviðkunnanlegt fyrir aðaldómara fimmtardóms að þurfa að byrja á að dæma um það, hvort málið er svo margbrotið, að kalla þurfi til aukadómara. Ég verð að segja það, að mér er ekki alveg ljóst, hvaða aðstöðu fimmtardómur hefir til þess að segja um það. Hann verður þá að byrja á því að fella nokkurskonar aukadóm í málinu. Ég held, að það sé óheppilegt áður en málaflutningur fer fram, að þá eigi dómarar að vera búnir að mynda sér hundavaðsálit á málinu, hvort það er vandasamt eða ekki, áður en þeir hafa hlustað á dómsókn og vörn. Auk þess getur það verið ákaflega mikið álitamal, hvaða mál eru vandasöm. Það getur t. d. verið fjárhagsmál um fáeinar krónur, en það getur þó verið þannig vaxið, að heim, sem á málið, er það miklu meira virði, hvernig það fer, en þó það varði þúsundum kr. í peningum. Hvernig á dómstóllinn að geta sett sig þannig inn í að rannsaka hjörtun og nýrun, að hann geti sagt um það, hvort málið er stórt eða ekki. En fyrir utan það, að erfiðleikar eru á því að kalla til þessa aukadómara, þá álít ég, að það séu augljósir gallar, þar sem kalla þarf aukadómara í flest mál, þá menn, sem annars eru að l. aukadómarar, í stað aðaldómara, sem forfallast frá því að geta dæmt. Reynslan hefir sýnt, að þessa aukadómara þarf oft að kalla til. Það er eðlileg afleiðing af okkar fámenna þjóðfélagi. Við þurfum ekki annað en að líta á ákvæði frv. um það, sem gerir dómara óhæfa til að dæma í máli, hverskonar skyldleiki eða tengdir geri dómara óhæfa til að dæma. Í þessu landi, þar sem menn eru svo mikið skyldir og tengdir, þá hverfa í fjölda tilfellum einhverjir dómarar úr réttinum af þeim ástæðum. Nú er gert ráð fyrir því, að í málum, sem nokkru skipta, sem 2 af kennurum lagadeildar teknir sem reglulegir dómarar, en þá er náttúrlega helmingi meiri möguleiki til þess að kalla þurfi til aukadómara, því náttúrlega geta þessir lagakennarar líka verið óhæfir til þess að dæma sakir skyldleika eða einhvers annars, sem gerir þá ekki óhlutdræga. En það er auðvitað séð fyrir þessu; dómsmrh. á að skipa dómara í staðinn. Þetta út af fyrir sig er ekki slæm skipun. Það er vitaskuld ekki í önnur hús að venda en til dómsmrh. til þess að skipa aukadómara. En ég hygg, að það ætti að vera séð svo fyrir í l., að til þess kæmi mjög sjaldan, og ég álít jafnvel, að það ættu að vera ákveðnir dómarar, sem þarna kæmu inn, svo aldrei geti komið fyrir, að hægt sé að skipa menn sérstaklega með tilliti til ákveðins máls. Það er áreiðanlega ekki til þess að gera niðurstöðu, æðsta dómstólsins óvéfengjanlegar. Mér finnst eðlilegast, þó ég hafi ekki borið fram brtt. um það, að þegar kennara lagadeildar þrýtur, þá skuli koma einhverjir ákveðnir lagamenn, svo lengi í röð, að vist væri, að dómurinn yrði alltaf fullskipaður. Ef það kæmi til, væri engin ástæða til, að þessir menn væru búsettir í Rvík, þar sem farið er að verða svo tiltölulega auðvelt að ferðast á milli. Maður gæti t. d. vel hugsað sér bæjarfógetana í fjölmennustu kaupstöðunum sem aukadómara. Annars væri hætt við, að menn kæmu inn, sem ætla mætti, að hefðu minni æfingu í að kveða upp dóma. En nú er ekki þessu til að dreifa, og ég hefi ekki borið fram brtt. um þetta. Mín brtt. gerir það að verkum, að mjög sjaldan getur komið fyrir, að kalla þurfi til sérstaka dómara fyrir sérstakt mál, þar sem eru 3 lagadeildarkennarar, sem taka á, ef einhverjir af aðaldómurum forfallast. Ennfremur vil ég sem stuðning með þessari brtt. minni um það, að landsdómur skuli ávallt skipaður 5 reglulegum dómurum, færa það, að ég er ekki viss um, að það sé alltaf heppilegt, að lagakennarar sitji í þessum æðsta dómstóli. Það var hér einu sinni frv. fyrir þinginu um það að láta láta sameina lagadeildarkennaraembættin og hæstaréttardómaraembættin. Ég var á móti því og það meira út frá minni þekkingu um það, hvernig skipun kennara við háskólann er, en hvernig skipun dómaraembættanna er. Mér finnst heppilegast, að dómarar séu yfirleitt fremur rosknir menn, sem lífið hefir kennt kannske eins mikið og bókin og ekki binda sig við einhverjar „teoriur“ og vísindalegar lausnir á málum, heldur hafa þekkingu á þjóðlífinu og atvinnuháttum. Ég ætla ekki að fara að halda því fram, að gamlir menn geri allt betur en ungir menn, en ég held, að í þessu efni frekar en víðast annarsstaðar sett rosknir menn betur til fallnir. Þeir eru líka oft rólegri og horfa með meiri stillingu á það, sem gerist, rífast ekki eins með af straumum og stefnum í þjóðfélaginu. En með öllu þessu geta þeir náttúrlega verið ófærir dómarar. Aftur á móti býst ég við að nauðsynlegt sé að skipa yfirleitt unga menn í háskólakennaræmbætti, af því að þar þurfa menn beinlínis svo langan tíma til þess að ná þeim lærdómi, sem er nauðsynlegur. Svo mótast þessi störf mismunandi. Mér er sagt, að lagakennarar séu talsvert mikið fyrir það að gagnrýna l. í staðinn fyrir það, að dómari á ekki að gagnrýna l, heldur dæma eftir þeim. En aftur finnst mér vel til fallið, að kennarar lagadeildar bendi inn á nýjar leiðir og hvað þeim finnst áfátt. Það ætti að vera þeirra starf. En það er óheppilegt að hafa menn, sem yfirleitt venja sig á þennan hugsunarhátt, að gagnrýna, í þeirri merkingu að finna, hvar áfátt er, sem sjálfkjörna til þess að vera í embætti, þar sem maður er fyrst og fremst skyldugur til að fylgja l.

Náttúrlega mætti segja, að þessi orð mín séu þá eins móti því, að kennarar lagadeildar kæmu inn sem aukadómarar, þegar þeir reglulegu dómarar forfallast, og það er satt. Ég álít það heldur óhyggilegt. Ég álít bezt, að dómurinn sé sem oftast skipaður reglulegum dómurum, og ég ber yfirleitt meira traust til þeirra. Prófessoradóma álít ég yfirleitt óheppilega. En hinsvegar er ekkert á móti því, að lagakennarar kæmu inn sem varadómarar, þegar svo vill til, að einhver aðaldómaranna forfallast. Venjulega eru þeir miklir skarpleikamenn, lærdómsmenn og gáfumenn og þó þeirra gáfur beinist í aðra átt en heppilegast er fyrir dómara, þá er ekki hægt að vera heppilegra niður til að velja aukadómara. Þetta er sett í 1. og sagt, að sé jafnmikil trygging, að kennarar lagadeildar komi inn sem 2 af 5 dómurum eins og ef rétturinn sé skipaður reglulegum dómurum. Þetta er fjarstæða. Dómstóllinn er betur skipaður með 5 reglulegum dómurum. Það er ófært að taka lagakennara sem aukadómara í flest mikilsvarðandi mál, og hver pólitískur dómsmrh. komi til að skipa menn í það og það sérstakt mál. — Ég vildi úr því að þessi l. voru til meðferðar, nota tækifærið til að bæta úr þeim skemmdarverkum, sem unnin voru með fækkun dómara í hæstarétti. Þessar 3 brtt., sem ég hefi gert grein fyrir, eru aðalatriðin og snerta þau deilumal, sem hér eru uppi í samb. við þetta mál. Hinar brtt. eru flestar aðeins afleiðingar af þessum 3 brtt. T. d. er a. gr. aðeins orðuð um, einungis með það fyrir augum að samræma gr. við þá brtt., sem ég síðast talaði fyrir, að landsdómarar séu alltaf 5. Eins er það, að 6. og 7. gr. falla niður aðeins til samræmingar við þessa sömu brtt. Í þeim gr. er mælt fyrir um, hvernig fara eigi að, þegar bæta þarf við aukadómurum úr lagadeild. — Brtt við 8. gr. er einnig miðuð við þetta. Brtt. við 12. gr. er um, að í staðinn fyrir orðið synodalrétt komi kirkjudómur. — 9. brtt. við 16. gr. er einnig til samræmingar, sumpart við þá brtt. mína, að dómstóllinn sé skipaður 5 dómendum, og sumpart við þá brtt. að leggja hæstarétt ekki niður. — Þá eru 10., 11. og 12. brtt. um, að 24., 25. og 26. gr. falli niður. Í þeim gr. er fyrirskipað, á lagamenn við þennan æðsta dómstól skuli allir mynda með sér félag og eru settar reglur um verksvið þess. Mér finnst það óeðlilegt að taka starfsmenn, sem alls ekki eru ríkisins starfsmenn, menn, sem hafa fengið leyfi til að vinna ákveðið starf, einkastarf, og skylda þá til að vera í félagi. Ég er ekki viss um, að það sé rétt af löggjafarvaldinu að fara inn á slík atriði. Ég sé ekki almennilega, hvaða meining er með þessu. Stj. félagsins á að líta eftir, að allir málaflutningsmenn, sem í félaginu eru, reki störf sín með samvizkusemi og ráðvendni. Það er naumast, að það á að vera starf. Hvernig á stj. að sjá um þetta? Hún verður að láta fram fara rannsókn á hverjum manni og fylgjast með honum með njósnurum. Ef maður lítur á 23. gr., þá er þar nægilegt aðhald, þar sem stendur, að dómsmrh. geti, ef fimmtardómur leggi það til, svipt málaflm. leyfi, ef fimmtardómur hefir þrisvar sinnum sektað hann fyrir óhæfilegan drátt á opinberu máli, vísvitandi ósannindi í sókn eða vörn eða önnur stórkostleg skyldubrot. Þetta er hið eina aðhald, sem nokkurs er virði. Ég hefi því lagt til, að þessar gr. verði felldar niður. Þessari félagsstjórn er veitt óhæfilega mikið vald yfir meðlimum félagsins. Það er stofnað nokkurskonar ríki í ríkinu, ef á að veita mönnum dómsvald yfir aðra, en það fer að verða einkennilegt, ef félagsstjórnir geta dæmt í sektir. En félagsmenn hafa rétt til að bera sektarúrskurði félagsstj. eða úrskurði um missi réttinda undir dómstólana. Það er undarlegt að taka það fram, ég hélt, að engum væri fyrirmunað að skjóta málum sínum til dómstólanna, þó þeir væru bundnir félagsskap.

Svo er brtt. við 28. gr., þar sem n. hefir skotizt yfir að breyta synodalrétti í kirkjurétt í samræmi við það, sem annarsstaðar er gert. — — Þá er 14. brtt. mín, við 34. gr., um það ákvæði í upphafi greinarinnar, að dómsmrh. geti veitt leyfi til afrýjunar á tímabilinu frá því 6 til 12 mán. eru liðnir frá því að dómur fellur í undirrétti. Ég breyti því þannig í samræmi við það, að dómsmrh. sé skylt að veita leyfið, sem lagt var til í hv. Ed., en svo getur ráðh. samkv. frv., eftir að þetta tímabil er liðið, veitt leyfi til að áfrýja máli næstu 3 ár.

Það virðist mjög eðlilegt fyrirkomulag, að áfrýjunartíminn skiptist þannig í þrjú tímabil. í fyrsta lagi, að í næstu 6 mán. eftir að dómur hefir verið upp kveðinn í máli, þá hafi málsaðilar sjálfsagðan rétt til að afrýja máli án þess að sækja um leyfi, í öðru lagi, að í þar næstu 6 mán. þurfi að sækja um leyfi til dómsmrh., sem honum er þó skylt að veita, og í þriðja lagi, að næstu þrjú ár á eftir hafi ráðh. heimild til að veita afrýjunarleyfi. Frá hlið þess opinbera á vitanlega að gera mönnum sem léttast fyrir að ná rétti sínum, og virðist engin ástæða til að setja neinar óþarfar hömlur á möguleikann til þess að ná sem réttustum dómsúrslitum.

Næstu 2 brtt. fela í sér annað aðalatriðið í frv., sem ég vil breyta, niðurfelling hæstaréttar, og er önnur brtt. því um það að fella niður allan XII. kafla frv., þar sem kveðið er á um það, hvaða mál megi bera undir fimmtardóm. Þessi kafli verður óþarfur, þegar út frá því er gengið, að hæstiréttur verði ekki felldur niður, heldur verði honum breytt í annan dómstól. — Svo er loks 17. brtt., við 67. gr., um atriði, sem ég er búinn að mæla fyrir og er afleiðing brtt. um að breyta nafni u dómstólnum og kalla hann landsdóm, sem með lögum frá 1905 var valið þeim rétti, sem stefna á ráðh. fyrir til ábyrgðar á sínum störfum. Ég sé ekki, að sá dómur eigi rétt á svo virðulegu nafni og get ekki skilið, hvernig mönnum hefir getað dottið í hug að velja þeim dómstóli þetta nafn. Hann hefð miklu heldur átt að heita skandaladómur eða eitthvað hliðstætt á íslenzku, þar sem þetta er auk þess dómstóll, sem líklega aldrei verður kvaddur saman, og þó svo færi, mundi sennilega skemma sig á því að sýkna þann ráðh., sem kærður væri, fyrir það, hvernig dómstóll sá er skipaður. Landsdómsnafnið á einmitt að falla á æðsta dómstól landsins, en núv. landsdómur á aftur að heita fimmtardómur, af því að hann er hliðstæður gamla fimmtardómnum að því leyti, að hann er eiginlega utan við dómaskipun landsins eins og fimmtardómurinn var á sínum tíma. Ég skal játa það, að ég var ekki alveg viss um, hvernig ætti að koma þessu fyrir, svo það væri fullkomlega formlegt. Ég vissi ekki, hvort rétt væri að ákveða í lögum um einn dómstól, hvert skyldi vera nafn á öðrum dómstóli, en ég hygg þó, að Alþingi hafi rétt til að gera það á þennan hatt, en þurfi ekki að gera það með sérstakri lagabreyt., heldur megi fella ákvæðið inn í þessi lög.

Annars vil ég benda á, að það er full nauðsyn á að endurskoða lögin um núv. landsdóm, og ætti því að skora á stj. að undirbúa frv. um það fyrir næsta þing.

Síðustu brtt. mínar á þskj. 668 eru afleiðing af þeim breyt., er ég legg til, að gerðar verði á frv., m. a. um breyt. á nafni dómsins, og þarf ég því ekkert sérstaklega um þær að tala.