12.05.1932
Neðri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í C-deild Alþingistíðinda. (3805)

15. mál, fimmtardómur

Magnús Jónsson [óyfirl.):

Hv. þm. Barð. finnst það eðlileg afstaða hjá þeim meðmælendum frv., að þeir eru mjög mótfallnir að breyta atriði í frv., sem þeir þó telja aðeins formsatriði. Ég held, að það sé þá aðeins eftir hans hugsunarhætti eðlileg afstaða. Ég álít, að ef manni finnst eitthvert atriði mikilsvert, þá standi maður fast við sína afstöðu til þess, en ef um atriði er að ræða, sem maður telur lítilvægt eða aðeins formsatriði, þá geti maður fremur sveigt sannfæringuna í áttina til þeirra, sem meiri áherzlu leggja á það, til samkomulags. Hvað hv. meðmælendur frv. halda fast í ákvæðið um niðurlagningu hæstaréttar sýnir því, að þeir telja það talsvert mikilvægt atriði.

Hv. þm. Barð. benti einnig á, að nú væri ekki lengur ástæða til þess að tala um ofsókn í sambandi við þetta frv., því nú væri búið að ákveða, að dómarar Hæstaréttar flyttust í hinn nýja dómstól. En ég hefi áður bent á, að með frv. er skapað óheppilegt fordæmi. Það er ekki hægt að neita því, að það verður auðveldara fyrir þingið siðar að ákveða það sama; að leggja æðsta dómstól þjóðarinnar niður, ef hægt er að benda á, að það hafi verið gert nú. Hv. þm. benti á, að þetta hefði verið gert, þegar landsyfirdómurinn var lagður niður. Því var þá þegar skotið fram í af einum hv. þm., að þá var beinlínis um breyt. á dómaskipun landsins að ræða. Og það er fullnægjandi svar. Áður hafði æðsti dómstoll þjóðarinnar verið í öðru landi. Þá var því skapaður alveg nýr dómstóll í landinu, sem hafði allt annað verksvið en landsyfirdómurinn gamli. Dómum landsyfirdómsins var hægt að áfrýja, en dómum Hæstaréttar ekki. Hinsvegar var árið 1924 gerð hliðstæð breyt. á Hæstarétti við þá, sem nú er um að ræða, þegar dómurunum var fækkað. Og þá datt engum í hug að leggja réttinn niður og taka upp annan með nýju nafni. Var þó raunar um víðtækari breyt. að ræða þá en nú, því þá var dómurunum fækkað úr 5 niður í 3, en nú er gert ráð fyrir, að dómendur verði 5 aðeins í stærri málunum, og er það einskonar millileið.

Hv. þm. talaði um, að ef ráð væri að lepja eftir öðrum að taka upp í frv. ákvæðin um skyldufélagsskap málaflutningsmanna, þá hefðum við lapið æði margt, og t. d. það að hafa dómstóla yfirleitt væri komið annarsstaðar að. Ég veit ekki, hvort þessi hv. þm. telur það hliðstæð atriði, hvort nokkrir dómstólar eru hafðir í landinu, og hitt, hvort málaflutningsmennirnir eru skyldaðir til þess að hafa með sér félagsskap. Að rugla slíku smáatriði saman við það, hvort yfirleitt á að hafa dómstóla í landinu, það sýnir svo mikinn rugling, að varla er hægt að ræða um slíka rökfærslu. Vitaskuld höfum við ekki fundið upp það þjóðskipulag, sem við búum við. En annað mál er það, hvort við eigum að hlaupa eftir hverju smáatriði, sem við sjáum tekin upp annarsstaðar, og lepja þar eftir.

Hv. þm. Barð. talaði með viðkvæmni um það, að allar brtt., er fram hefðu komið við frv., væru stílaðar gegn núv.

Hæstv. dómsmrh. Mér þykir þetta einkennileg fullyrðing að því er snertir mínar brtt. Höfuðbrtt. mínar þrjár eru um það, að hæstiréttur verði ekki lagður niður, nafni réttarins breytt og dómurum fjölgað. Ég get ómögulega seð, að þessar brtt. séu stílaðar gegn einum eða öðrum manni persónulega. Annars fannst mér hv. þm. sneiða sjálfur að hæstv. dómsmrh. Í þessum ummælum sínum.