17.02.1932
Neðri deild: 3. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

5. mál, verðtollur

Haraldur Guðmundsson:

Ég kveð mér hljóðs m. a. vegna einnar setningar í grg. þessa frv., en þar segir svo: „Lögin um verðtoll falla úr gildi um næstkomandi áramót, en þar sem enn eigi hefir verið samin heildarlöggjöf um tolla- og skattamál, og ríkissjóður má fyrirsjáanlega einskis missa í tekjum, mun óhjákvæmilegt að framlengja lög þessi“.

Vil ég minna hæstv. fjmrh. á það, að 1928 var hér sett sérstök mþn. í skattamálunum, og fyrir hana lagt í þáltill., hvað hún ætti að vinna og hvernig hún ætti að haga störfum sínum. Veit ég ekki betur en að n. hafi skilað af sér störfum, bæði minni og meiri hl. hennar. Ég veit og heldur ekki betur en að till. meiri hl. n. hafi verið teknar upp af stj. og fluttar af stj. hér á tveim síðustu þingum, og væri því æskilegt, að hæstv. fjmrh. vildi skýra frá því, hvort svo beri að skilja grg., að stj. sé nú fallin frá þessum till., og hvort hún þá ef til vill muni nú hallast að till. minni hl. í skattamálunum. Ég mun greiða atkv. gegn frv. þessu nú þegar við 1. umr. og jafnan síðan.