14.05.1932
Neðri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í C-deild Alþingistíðinda. (3832)

15. mál, fimmtardómur

3832Forseti (JörB):

Hin umrædda rökst. dagskrá, sem hér liggur fyrir til atkvgr., hljóðar svo: (Sjá bls. 894).

Hv. þm. Barð. telur hæpið, að slík dagskrártill. sem þessi, með þeim rökstuðningi, sem í henni felst, geti komið til atkvgr. sakir þingskapa og telur jafnvel, að nokkur vafi leiki á, hvort dagskrártill. þessi sé þingleg. Það er þannig ástatt um þál., að venja er að vísu hér á landi, þegar um vantrauststill. er að ræða, að bera hana fram í sérstöku ályktunarformi, og er þá enginn rökstuðningur í þál. sjálfri falinn. Hinsvegar er hann að finna í ræðum þeirra manna, er vantraustið bera fram. Form og rökstuðningur á rökst. dagskrártill. er vitanlega með ýmsu móti og fer eftir því sjónarmiði eða þeim rökum, sem flm. slíkra dagskrártill. telja við eiga. Ég tel, að í þessari rökst. dagskrá felist ekkert, sem ekki er fullkomlega þinglegt eða á nokkurn hátt brýtur í bága við þingsköp. Flm. þessarar rökst. dagskrár dæma um rökstuðning hennar og tilefni frá sínu sjónarmiði. Deildarinnar er hinsvegar að fella úrskurð um það, hvernig hún lítur á málið. Það getur reyndar undir slíkum kringumstæðum sem þessum farið saman, að þm. séu fylgjandi því, að umrætt löggjafarmál eigi fram að ganga og að þeir séu hinsvegar einnig því fylgjandi, að vantraust á hendur stj. eða nokkurn hluta hennar nái fram að ganga. En ef slík rökst. dagskrá, sem eyðir málinu, yrði samþ., þá nær að vísu á því þingi það löggjafaratriði ekki fram að ganga, sem með því móti er fellt. Þá eiga menn um það að velja að greiða atkv. gegn rökst. dagskránni og fella hana til þess að koma löggjafarfrv. eða málefninu, sem um er að ræða, fram. Eftir er þá hin leiðin opin fyrir þá, sem vilja greiða stj. vantraust, að flytja það laust við önnur þingmál. Hv. þm. Barð. vitnaði til rökst. dagskrár líks efnis, sem borin var fram í sambandi við mál á þingi 1923, og forseti þáv. hafði ekki talið það viðeigandi, að hún væri borin upp, og vísaði henni frá. Ég get ekki skilið, að það sé rétt afgreiðsla á slíku máli. Minn úrskurður í þessu efni fellur á þá leið, að þessi rökst. dagskrá komi hér til atkv.