31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (3838)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil segja hv. 1. þm. S.-M., að mjög gerist hann nú gamlaður, þegar hann man ekki eftir því, í hvaða verkum hann hefir tekið þátt nú fyrir nokkrum árum. Ég vil minna hann á, að á Alþingi 1922 var hann einn flm. að samskonar till. hér í hv. d., um kosning n., sem sitja átti meðan þing starfaði.

Samskonar till. kom fram í Ed. Voru þær báðar samþ., og var hv. 1. þm. S.-M. kosinn í aðra n. En nú stendur hv. þm. upp með þjósti og segir, að ekkert fordæmi sé fyrir því, að slík n. sé skipuð í báðum deildum. (SvÓ: Ég talaði ekkert um fordæmi). Á hvaða grundvelli mótmælti hv. þm. því þá, að nú yrði skipuð n., sem starfaði á sama grundvelli og með sama verkefni og n. 1922. Ég held, að hv. þm. ætti að láta sér nægja á þessu þingi að standa yfir einni jarðarför, síldareinkasölunnar, sem var hans eigið fóstur.

Einkennileg þykir mér mótstaða hæstv. fjmrh. gegn því, að þessi n. verði kosin hér. Hann hefir þó sjálfur sízt neitt að óttast, þótt slík n. yrði skipuð. Hann virðist því gera þetta fyrir aðra, sem meiri ástæðu hafa til að óttast gagnrýni slíkrar n. Ástæður okkar sjálfstæðismanna fyrir því, að fá slíka n. skipaða eru þær, að með því teljum við fært að fá rökstuddar till. lagðar fyrir þetta þing um niðurfærslu á útgjöldum ríkisins. Og það er áreiðanlegt, að við stofnanir, verzlun og einkasölur ríkisins er hægt að spara svo tugum eða hundruðum þús. skiptir. Ég sé enga skynsamlega ástæðu til að standa á móti því, að þetta sé athugað. En þetta var gert með því að fella frá atkvgr. till. í Sþ., og nú er því haldið áfram með því að koma í veg fyrir kosningu 5 manna n. hér. Það er öllum vitanlegt, að það er ekki mikið starf, sem einn maður úr Sjálfstæðisflokknum getur innt af höndum á þeim tíma, sem eftir er þings. En þrír menn hefðu getað gert þó nokkuð. Hæstv. ráðh. segir, að það sé verra, ef margir eru í n. Svo getur að vísu verið stundum, en það á ekki við í þessu tilfelli. Það væri áreiðanlega von um meiri árangur, ef mennirnir væru fleiri. Ég hefi ekki mikla trú á því, að menn úr stjórnarflokknum vinni mikið gagn í svona n. Þeir myndu bara spyrja stjórnir fyrirtækjanna eða ríkisstj. og láta þar við sitja. Andstæðingarnir myndu þar á móti taka vissar greinar ríkisfyrirtækjanna til athugunar og koma fram með rökstutt álit á þeim. Ég veit reyndar, að aldrei yrði komizt til botns í öllu því moldviðri, sem upp hefir verið hrúgað síðustu árin, þótt 3–4 menn starfi að þessu. Andstöðuna gegn því, að þetta sé þó gert, er ekki hægt að skýra öðruvísi en svo, að stj. vilji fyrir hvern mun halda þeim launum, stöðum og fyrirkomulagi, sem allir vita, að er ofvaxið ríkissjóði og á mörgum sviðum allsendis óþarft, þótt ég hinsvegar sjái enga ástæðu fyrir hæstv. fjmrh. að taka þátt í slíkri andstöðu. Ég hefi hugsað mér, hefði ég átt sæti í þessari n., að þá hefði verið nóg fyrir mig að taka eitt ríkisfyrirtæki til athugunar á þessu þingi. Hinir hefðu þá getað tekið 2 eða 3 önnur fyrirtæki. En nú verður öllu þessu drepið á dreif, ef stjórnarflokkurinn ætlar sér að viðhafa þá ósvinnu að vísa þessari till. frá með rökst. dagskrá.

Hæstv. ráðh. talaði um skipun mþn. Ég get hugsað mér, að slík n. hefði verið skipuð síðast á þinginu, ef ástæða þætti til þá, en fyrr ekki. Á meðan þingið stendur eiga þingn. að starfa að þessu. Það er sannarlega þess vert, að þm. vinni það, sem hægt er, meðan þeir eiga hér setu. Og á meðan á að spara aðra starfskrafta.

Um það, hvort fjvn. getur annað þessu, læt ég aðra hv. þdm. dæma. Ég held þó, að sú n. sé mestum störfum hlaðin og hafi sízt afgangs tíma til gagngerðra rannsókna. Hún fær að vísu skýrslur frá stofnunum ríkisins yfir starfsmannahald o. þ. h. En það, sem á bak við liggur, er ekki rannsakað. Ég hefi séð eina slíka skýrslu og efa mjög, að hún sé rétt. Í n. verður minni hl. að sætta sig við, að honum sé bolað frá að fá þann kunnugleika, sem nauðsynlegur er, um ríkisreksturinn á hinum ýmsu sviðum. Ég hélt þó, að þeir tímar væru nú, að ekki veitti af samstarfi allra góðra manna. En þegar sumum þm. er bolað þannig frá, þá er ekki von um jafngott samstarf og annars gæti verið. En sökin liggur öll á herðum stjórnarflokksins.