02.04.1932
Neðri deild: 41. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (3845)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Mér heyrðist á ræðu hæstv. fjmrh., er hann síðast talaði, að hann vera með þykkju til okkar flm. till., sérstaklega til mín sem 1. flm., og það brá jafnvel fyrir hjá honum ásökun um það, að till. væri ekki flutt í þeim tilgangi, að samstarf gæti tekizt um það að greiða úr og lagfæra rekstur þjóðarbúsins. Till. ber nú annað með sér sjálf. Bæði orðalag hennar og grg. sýnir það glöggt, að hún er flutt í fullri alvöru. Mér hafði satt að segja tæplega dottið í hug, að hæstv. ráðh. fyndist ástandið þannig, að það gæti staðizt, að nokkur færi að hreyfa við þessu máli öðruvísi en í fullri alvöru. En ég var þess var á dögunum, þegar þetta mál var flutt í hv. Ed., að hæstv. ráðh. er ekki einn um þessa skoðun í sínum flokki. Hæstv. dómsmrh. stóð þar upp og hélt því fram, að þessi till. væri ekki flutt í alvöru. Það er nú engin von til þess, að maður með slíku hugarfari og hæstv. dómsmrh. geti skilið það ástand þjóðarinnar, sem er, og að þinginu beri skylda til að sjá fyrir ýtrasta sparnaði á rekstri og fyrirtækjum ríkisins. Hann hefir vitanlega aldrei haft vit á þeim efnum, en ég hafði haldið, að hæstv. fjmrh. hefði öðruvísi hugarfar. Hæstv. dómsmrh. hefir vitanlega ætíð hagað sér eins og fáviti í öllum fjármálum, en ég verð að segja það, að margt í framkomu og till. hæstv. fjmrh. hefir mér virzt benda á það, að hann skildi svo ástandið, að hann sæi, hvílíkur voði er fyrir höndum, ef ekki verður snúið við á þeirri braut, sem nú um skeið hefir verið farin í búskap þjóðarinnar. En einmitt af því að þessi till. er borin fram í fyllstu alvöru, hefir mér mjög sárnað sú meðferð, er hún hefir orðið fyrir af flokki hæstv. ráðh. Ég drap á það í fyrri ræðu minni, hversu viðbragðsfljótur þingmeirihlutinn var til þess að drepa till. í Sþ.

Hæstv. fjmrh. hefir verið dálítið tvístíga í þessu máli. Stundum hefir hann sagt, að það væri ekki nema gott og gagnlegt að fá slíka n., en að hans dómi ætti starf hennar aðallega að fara fram milli þinga. Aftur á hinn bóginn hefir hann kastað fram spurningu um það, hvað ætti nú eiginlega að fara að gera með nýja n., sem hefði aðeins hið sama verksvið og fjvn.

Ég hefi bent á það fordæmi, sem gerðist á Alþingi 1922, er sérstök nefnd var skipuð með sama tilgangi, og það gekk eins og í sögu. Ég benti á það, að þá var það einmitt sami hv. þm., sem las áðan með hálfgerðum sigurhreimi í röddinni sína rökst. dagskrá, sem ætluð er til að jarða þessa till., einmitt þessi sami hv. þm., sem á þingi 1922 flutti till. sama efnis og þessi till. Það má segja hér, að það „skipast sitthvað á langri leið“, því svo er það með hv. 1. þm. S.-M., sem nú hamast á móti samskonar till. og hann flutti 1922 sem fyrsti flm.

Að því er snertir ummæli hæstv. fjmrh. um það, að starf n. væri ekki annað en það, sem fjvn. gæti gert, þá hefir hv. þm. Borgf. svarað þeim svo rækilega og sýnt fram á, að fjvn. hefði hvorki aðstöðu né tíma til þess að annast þessi störf. Það er eftirtektarverð skýrsla þessa hv. þm. um það, að jafnvel frá stjórnarráðinu sjálfu, þeirri stofnun, sem stj. sjálf hafði yfirumsjón með, gat n. ekki fengið sundurliðun á 30 þús. kr. aukaútgjöldum. Þegar svona illa gengur að fá skilagrein frá stjórnarráðinu sjálfu, þá ræður af líkum, hvernig það muni ganga að fá glögg skil frá sumum hinum nýbökuðu „direktörum“ ýmsra ríkisstofnana, sem sumir hverjir munu hafa heldur litla menntun til að bera; væri það þá ekkert undarlegt, þó víða kynni að bera á því, að ekki sé allt í lagi, enda sýndi hv. þm. Borgf. það glögglega, að svo er, með því dæmi, er hann tók af ríkisútgerðinni, að þá loks forstjórinn kemur með reikninga fyrirtækisins til n., þá eru þetta engir reikningar, heldur sundurlaus slitur, sem hvorki eru fugl né fiskur og ekkert er á að byggja, svo ég viðhafi lýsingu hv. þm. Borgf. En þetta verður n. að láta sér nægja. Með þeirri till., er hér liggur fyrir, er farið fram á, að n. fái betri aðstöðu heldur en fjvn. hefir nú til þess að vinna þetta starf, fyrir utan það, að verkefni n. á einungis að vera það, að rannsaka og gera sparnaðartill. Aðstaðan verður sú, að hver nm. getur kynnt sér þá stofnun, sem um er að ræða, með því blátt áfram að fara sjálfur á staðinn og skoða plöggin og tala við starfsmennina og krefja þá, sem fyrir standa, til sagna, en það er mjög mikilsvert. Hæstv. fjmrh. heldur, að þetta verk geti fjvn. tekið að sér sem eitthvert íhlaupaverk, en því fer mjög fjarri, að svo sé. Hann skildi ekki, hvers vegna ætti að kjósa tvær n. í þessu máli, hvers vegna ætti að vera að kjósa n. ofan á n. Það væri búið að kjósa þriggja manna n. í Ed. En það er fordæmi fyrir því að kjósa tvær n., sína í hvorri deild, í sama máli; það er viðskiptanefndin, sem þannig var skipuð á Alþingi árið 1922. En það var enginn þá í þinginu, sem hélt fram kenning hæstv. ráðh. um það, að því fleiri sem nm. væru, því verr mundi starf þeirra verða leyst af hendi. Árið 1922 voru í viðskiptanefndinni 5 menn úr Ed., en 7 úr Nd., og þessir nefndarhlutar unnu saman, en það er líka hugmynd okkar um þessar tvær nefndir. Við lögðum að vísu upphaflega til, að 5 manna n. yrði skipuð í Sþ., en hæstv. stj. tókst með stuðningi síns flokks að láta forseta eyðileggja þá till., og mun það almennt talið megnasta gerræði, og ég hygg, að það eigi ekki aðra lýsingu skilið. Þegar svona fór í Sþ., voru bornar fram till. um, að kosin yrði 3 manna n. í Ed. og 5 manna n. í Nd. Hugmyndin var svo vitanlega sú, að þessar tvær n. rynnu saman og mynduðu eina samvinnun., eins og daglega á sér stað hér í þinginu að gert sé um þýðingarmikil mál. T. d. gera landbn. þingsins það nú. Það er því eiginlega ekkert annað en útúrsnúningur hjá hæstv. fjmrh., er hann segir, að hér sé verið að kjósa n. ofan á n. Hitt má öllum vera ljóst, að þar sem nú er mjög áliðið þings, þá munu einir þrír menn ekki geta komið í verk miklu af því marga, sem gera þarf. Það getur hver og einn sagt sér sjálfur. Ef átta menn væru kosnir, sem svo ynnu saman og skiptu með sér verkum, þá væri vitanlega miklu meiri von um árangur. Ég ætla ekki neitt að deila um þá fjarstæðu, sem hæstv. ráðh. heldur fram, að átta menn muni vinna verr en þrír. Það er fáránlegt að vera að deila um slíkt.

Mér virðist hver dagur, sem líður, og ekki hvað sízt að því er útlenda markaðinn fyrir framleiðsluvörur okkar snertir, færa heim sanninn um það, að ef hinn opinberi kostnaður verður ekki færður niður nú, svo um muni; þá muni hann þó áður langt um líður færast niður með öðru móti, og það að okkur nauðugum. Ég hélt þó, að hæstv. fjmrh. hlyti að sjá, að atvinnurekendur eru alls ófærir til að bera meiri gjöld en nú er, og að hið eina tiltækilega, sem hægt sé að gera, sé það, að þingflokkarnir gangi í það af alefli að lækka útgjöld ríkisins. Það getur reyndar vel verið, að einhver hv. þm., sem fengið hefir bitlinga úr ríkissjóði, líkt og hv. þm. Borgf. upplýsti að hv. þm. Dal. hefði fengið og vitanlegt er um fleiri hv. þm., þyki það sárt, ef farið er að rannsaka niður í kjölinn, hverjir þeir bitlingar eru. En þeir ættu þó að sjá það, að hjá því verður ekki komizt að láta slíka bitlinga hverfa, svo framarlega sem gera á tilraun til þess að sjá hag ríkisins borgið.

Hæstv. fjmrh. lét á sér skilja, að við sjálfstæðismenn værum fullir vanþakklætis og ekkert glaðir yfir því, að loksins, eftir mánaðarstreitu, er kosin n. í annari deild þingsins og hún aðeins skipuð þremur mönnum. En það er búið að sýna það, að þetta er ekki nóg, og það er búið að sýna, að það er stj. og flokk hennar að kenna, að ekki hefir verið tekið fastari tökum á þessu máli. Það er því að vonum, að við séum hvorki þakklátir né glaðir.

Hæstv. fjmrh. var að brýna okkur sjálfstæðismenn á því, að við vildum ekki þiggja samstarf, sem hann hefði boðið okkur. Ég hygg nú, að hæstv. fjmrh. hafi persónulega nokkurn hug á því að hafa samstarf um þetta. En gangur málsins í þinginu sýnir þá bezt, hvaða árangur það hugarfar hans hefir borið í hans eigin flokki. En það er gersamlega þýðingarlaust að brýna minni hl. á því, að hann neiti samstarfi og sýni engan vilja til þess, meðan meiri hl. misbýður honum svo mjög og misbeitir valdi sínu sem hann hefir gert og raun er á orðin. Það er ekki vegur til þess, að samstarf takist, og á því ber meiri hl. ábyrgð, þegar hann hagar sér gegn minni hl. og beitir sínu meirihl.valdi eins og raun er á orðin í fleiru en einu nú á þessu þingi. Því til sönnunar get ég bent á þá töf, sem þetta mál, sem nú er til umr., hefir orðið fyrir. Og ég get líka bent á það, þegar neitað var í Ed. nú nýlega um bókun einfaldrar atkvgr., sem fram fór í d. og vitanlega var alveg rétt frá skýrt. Nei, hæstv. ráðh. þarf ekki að brýna okkur, sem fyrir gerræðinu verðum, um það, að við viljum ekki taka á móti samstarfi frá andstæðingunum um það, sem miðar í rétta átt. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á það, að þessi till., sem nú liggur fyrir, er ágætur prófsteinn á vilja hans og samflokksmanna hans um þá löngun til samstarfs, er þeir bera í brjósti. Ef till. verður svæfð, þá sýna þeir viljaleysi sitt til nauðsynlegrar samvinnu. Ef till. verður samþ., þá hefir hæstv. ráðh. bæði sýnt það og sannað, að hann hefir þrek og vilja til að stuðla að því, að samvinna takist. En verði till. grafin, eins og hv. flm. dagskrárinnar vildi vera láta og komst að orði, till., sem stefnir að lækkun og sparnaði á útgjöldum ríkisins á þeim erfiðleikatímum sem nú eru, þá er það sannarlega vottur þess, að flokkur meiri hlutans í þessari hv. d. er ekki með hinu rétta hugarfari, svo ég viðhafi orð hæstv. fjmrh.