02.04.1932
Neðri deild: 41. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (3849)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Sveinn Ólafsson:

Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í það að svara þeim, sem hafa verið að senda mér tóninn. Ég sé mér þó ekki annað fært en að kvitta með örfáum orðum fyrir hnútur nokkrar, sem til mín hefir verið kastað. Ég átti von á því, að ýmsum hv. þm. mundi ekki falla dagskrártill. vel í geð og bjóst við því sem sjálfsögðu, að þeir mundu þyrla upp moðreyk nokkrum, sem líka hefir orðið reyndin á. Samanburður þeirra á þessari n. og hinni, sem skipuð var 1922, á alls ekki við. Sú n. hafði víðtækara verksvið en þessi. Sú n. var skipuð með góðu samkomulagi allra flokka þingsins og þeirra, sem þá áttu sæti þar, enda var um hana lítill ágreiningur. Á skipun hennar var enginn sá formgalli, að vísa þyrfti henni frá atkvgr., og í henni var ekki bent til 35. gr. stjskr., eins og orðalag hennar vottar. Sú n. var einnig, eins og hv. þdm. er kunnugt, skipuð snemma þings og hafði því ærinn tíma til að inna sitt verk af hendi meðan þingið sat. En nú má ætla, að liðinn sé meira en hálfur þingtíminn, og jafnvel að komið sé nærri þingslitum. Nefnd, sem skipa ætti nú önnum hlöðnum þm., getur því litlu áorkað á þeim tíma, sem eftir er af þinginu, því það er rétt, sem hv. þm. Borgf. sagði, að bæði fjvn. og allar aðrar n. eru störfum hlaðnar, auk þess sem fundatími lengist nú mjög, ef að vanda lætur, þegar fjárl. eru fram komin. Er því eigi þess að vænta, að slík n. geti lokið mikilsverðum störfum meðan þingið situr.

Eina vonin um árangur af slíkri nefndarskipun væri þá sú, sem hæstv. fjmrh. hefir haft á orði, að gera till. unt, að skipuð væri samkv. þingvenju milliþingan. — en ekki slík n. sem sú, er datt útbyrðis í Sþ. á dögunum —, sem gæti haldið áfram starfi sínu eftir að þingi væri slitið. Af slíkri n., sem í ró og næði og með góðum tíma gæti athugað og gert till. um niðurfærslur gjalda, væri helzt einhvers árangurs að vænta. Sú n., sem skipuð er nú í Ed., getur fullnægt þessu skilyrði. Nefnd, sem skipuð er þremur mönnum, hefir betri tök á þessu, ef hún starfar áfram, heldur en n., sem nú að áliðnu þingi er kosin til þessa og starfar aðeins þingtímann. Árangurinn verður áreiðanlega annar og meiri, ef horfið er að því ráði, og þess vegna hefi ég leyft mér að koma fram með dagskrártill.

Köpuryrði þau og hnútur, sem að mér hafa verið réttar, læt ég inn um annað eyrað og út um hitt. Slíkur varningur er of hversdagslegur til þess að eyða tíma til andsvara. Hinsvegar vil ég vænta þess, að sá viðauki, sem hér er farið fram á, að kosinn verði til viðbótar þeirri n., sem nú hefir verið skipuð af Ed., verði ekki samþ., enda er sú viðbót gersamlega óþörf.

Það er að vísu rétt, að ég 1922 lagði til, að sparnaðarnefnd, sem þá var kosin, yrði skipuð 5 mönnum, en álít, að nú muni nægja 3 manna n. Í þessu er ekkert ósamræmi. N. 1922 var skipuð í byrjun þings og verksvið hennar eingöngu miðað við þingið sjálft. En þessi n. á að byrja störf sín að áliðnu þingi og er auk þess miðuð við annað verkefni.

Ég mun að öðru leyti ekki eltast við útúrsnúninga þeirra hv. þm., sem vikið hafa að mér. Ég vil styðja að því, að sem flestu af því, sem á dagskrá stendur, verði lokið. Mun ég því ekki taka frekar undir það málþóf, sem hér er hafið að nauðsynjalausu.