30.05.1932
Efri deild: 87. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í C-deild Alþingistíðinda. (3851)

15. mál, fimmtardómur

Jón Jónsson:

Það getur verið, að frv. dagi uppi fyrir þessa brtt., en það er ekki hægt að kenna mér einum um það, vegna þess að ég þóttist með brtt. mínum um daginn stilla mjög í hóf. Þá fylgdi ég frv. með þeim breyt.; sem settu tryggingu fyrir veitingu embættisins, og á öllum þeim langa tíma, sem liðinn er síðan málið var hér til meðferðar, hefði vel mátt afgr. það. Frv. getur vel gengið fram ennþá, þótt þessi breyt. verði gerð á því. Hæstv. ráðh. sagði, að verið hefðu flokkssamtök á móti frv., en hann veit það, að þótt Sjálfstæðisflokkurinn fylki liði á móti frv., þá þarf ekki að stranda í Sþ., því að hæstv. dómsmrh. veit, að ef brtt. mín er samþ., þá fylgi ég frv., en það er hæpið, að ég sjái mér það fært, ef brtt. verður felld.

Um dómaraprófið þarf ég ekki mikið að tala. Ég lít svo á, að það sé trygging fyrir því, að dóminn skipi ekki aðrir en færir lögfræðingar, en sé engin sjálfsveiting fyrir réttinn.

Það er alveg rétt, að sá möguleiki er hugsanlegur, að sá ráðh., sem ber ábyrgðina á skipun réttarins, verði borinn atkvæðum í því máli, en sá möguleiki er ólóklegur, og til þess verður áreiðanlega ekki gripið nema sérstök nauðsyn og þörf sé á. En ef svo fer, þá stendur ráðh. það alltaf opið að draga sig til baka frá sínum störfum. Hann þarf því ekki í þessu tilfelli frekar en öðrum að gera það, sem hann vill ekki gera.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að þessi brtt. stórspillti frv., ef hún yrði samþ. Ég álít aftur á móti, að hún sé til stórra bóta og veiti mikla tryggingu fyrir því, að vandað sé til þessa réttar, sem skiptir svo geysilega miklu máli fyrir okkur. Ég legg því mikla áherzlu á, að brtt. verði samþ.