30.05.1932
Efri deild: 87. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í C-deild Alþingistíðinda. (3853)

15. mál, fimmtardómur

Jón Baldvinsson:

Við Alþýðuflokksmenn höfum fylgt þessu frv., af því að við höfum álitið, að það væri til bóta.

Hinsvegar hefir það verið svo, að Framsóknarflokkurinn, sem hefir borið þetta frv. fram, virðist nokkuð ósammála um framgang málsins. Hv. 3. landsk. og hæstv. dómsmrh. hafa deilt nokkuð um málið, og nú stendur deilan í raun og veru um það, hvort málið skuli ná fram að ganga eða ekki. Ef þessi brtt. verður felld, þá verður frv. fellt hér í deildinni, því að hv. þm. hefir gefið í skyn, að hann muni greiða atkv. á móti frv., ef brtt. hans nær ekki fram að ganga. Verði till. aftur á móti samþ., þá verður frv. að fara í Sþ., og þá geta Sjálfstæðismenn fellt það þar, því að það er ekki rétt, sem hv. 3. landsk. hélt, að flokkurinn hafi ekki atkvæðamagn til þess. (JónJ: Ekki hefir hann haft það). 15 menn geta fellt öll frv. í Sþ. nema fjárlög og fjáraukalög, og á því vil ég vekja athygli hv. þm., ef hann hefir ekki vitað það áður.

Það ber því allt að sama brunni með þetta frv. Það verður sennilega fellt, hvernig sem að er farið. Ég mun þó samkv. minni fyrri afstöðu greiða atkv. móti brtt. hv. 3. landsk. Það er eina hugsanlega leiðin til að bjarga frv., því að eins og ég benti á áðan, þá eru ekki líkur til, að málið komist fram, ef það fer í Sþ.