02.04.1932
Neðri deild: 41. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (3854)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Ingólfur Bjarnarson:

Það er að vænta þess, þar sem tveir hv. þm. hafa nú gert að umræðuefni hið mikla en árangurslausa starf, sem ég hefi sem form. fjvn. lagt í að útvega skýrslur úr stjórnarráðinu, að mér þyki hlýða að lýsa, í hverju þetta erfiði er fólgið. Það er rétt, sem hv. þm. Borgf. gat um, að mér var falið á einum fundi n. að útvega sundurliðaðar skýrslur úr stjórnarráðinu um einn ákveðinn lið og símaði til endurskoðandans, því að mér fannst liggja beinast við, að hann myndi geta útvegað mér þessar skýrslur, og spurðist ég fyrir um það hjá honum. Sagði hann, að að vísu væru reikningarnir ekki komnir allir saman, en að hann myndi þó geta gert þetta og sent mér skýrslurnar síðar. En ég skal játa, að ég gerði ekki eins mikið til þess að ná í þetta eins og mér skilst nú, að hefði þurft. Ég leit svo á, að þar sem svo mjög var liðið á fundartíma nefndarinnar fyrir 2. umr., þá kæmi það ekki að sök, þó að það biði að fá skýrslur þessar þar til fyrir 3. umr., því að það gat á engan hátt staðið störfum n. fyrir þrifum.

Sama er að segja um dæmið, sem tekið var um það, hve slælega gengi með reikninga skipaútgerðarinnar. Forstjórinn kom á fund til okkar í n., en hafði reikningana ekki alveg tilbúna, því að hann vantaði einhver reikningsskil utan af landi til þess að geta fullgert þá. Þó hafði hann heildarreikninginn nær fullgerðan og leysti úr öllu því, er hann var aðspurður og óskað var að fá upplýsingar um. Jafnframt lofaði hann að senda n. afrit af reikningnum fullgerðum, sem hann sagði, að yrði þá bráðlega, ásamt sundurliðaðri launaskrá. Það er alveg rétt, að reikningurinn er ekki kominn ennþá, enda hefi ég ekkert gert til þess að fá hann frekar, fyrr en í morgun, að þetta kom aftur til tals í n. Mun hann nú koma mjög bráðlega. Það má kannske segja, að það hafi verið trassaskapur hjá mér að ganga ekki betur eftir þessu, en ég þori að fullyrða, að þetta hafi engin áhrif haft á störf n.

Það er alveg rétt, að fjvn. hefir mikið að gera, og ég skal sízt fullyrða, að hún gæti haft mikinn tíma umfram sín venjulegu störf til þess að gera ákveðnar till. um ríkisbúskapinn, sparnað o. fl., og ég vil í þessu sambandi benda á, að mér finnst, að starfsemi hennar hafi heldur en hitt liðið við þá starfstilhögun Sjálfstæðisflokksins, að láta fulltrúa sína í henni starfa einnig í annari tímafrekri n. Ég álít, að betra væri að hafa sömu tilhögun og við framsóknarmenn, að hlífa fjvnm. við öðrum starfsfrekum nefndum.