02.04.1932
Neðri deild: 41. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (3857)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Jón Auðunn Jónsson:

Út af ummælum hæstv. fjmrh. um það, hve illa gengi að færa niður útgjöldin við Djúpbátinn, vil ég taka það fram, að árin 1910–1914 fékk sá bátur, sem þá annaðist ferðirnar og var 10–12 smál. að stærð, 10–12 þús. kr. styrk á ári fyrir 36 ferðir. En bátur sá, sem nú annast ferðirnar, er miklu stærri, 60 smálestir, en fær þó ekki í styrk nema 19 þús. kr. fyrir 104 ferðir á ári. Þegar tekið er tillit til þess, hversu þessi bátur er miklu stærri og hentugri en sá fyrri og ferðir þrefalt fleiri, þá eru útgjöldin beinlínis færð niður frá því, sem áður var.

Til samanburðar útgerðarkostnaði þessa báts má benda hæstv. fjmrh. á strandferðirnar og kostnað ríkissjóðs af þeim fyrr og nú. Á þessu sama tímabili, frá 1910–1914, greiddi ríkissjóður styrk til strandferðanna fyrir tvö skip 60 þús. kr. En nú á síðasta ári verður kostnaður ríkissjóðs við þessar sömu ferðir, vegna tveggja skipa eins og þá, 430 þús. kr. Hæstv. ráðh. hlýtur nú að sjá mismuninn á þessum tveimur útgerðum, og er þess að vænta að hann dragi réttar ályktanir út frá honum.

Þá var hæstv. ráðh. eitthvað að tala um berjamó í þessu sambandi. Mér finnst það ekkert illa viðeigandi. Hér þarf sannarlega að fara á berjamó ráðleysisins og tína í margar skjólur ráðleysisber hæstv. stj., til þess að sýna þjóðinni, hvernig málum hennar hefir verið stýrt að undanförnu.