02.04.1932
Neðri deild: 41. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (3862)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Pétur Ottesen:

Mér virtist hinn hreinskilni maður hv. 1. þm. S.-M. hitta naglann á höfuðið, er hann sagði, á hverju hann hefði byggt dagskrá sína, sem hæstv. fjmrh. afhenti honum altilbúna og með sinni eigin hendi. Hann sagðist sem sé vera á móti till. af því að í henni fælist rannsókn. Ætli það megi ekki rekja skyldleikann til hæstv. fjmrh.? Það má einu sinni ekki tala um rannsókn, hvað þá að það megi rannsaka þær mörgu ríkisstofnanir, sem svo geigvænlega hefir verið hróflað upp nú hin síðustu ár. Ég þakka hv. þm. hreinskilnina, enda þótt hann hafi í þetta sinn hitt á hana fyrir munn og pennadrætti hæstv. fjmrh. Hann hefir viðurkennt, hvar fiskur lægi undir steini, að andstaðan gegn þessari till. væri byggð á því, að ekki mætti hrófla við þessum ríkisstofnunum, þessum pólitísku helgidómum stj. og því málaliði, sem þar er við ríkissjóðsjötuna. Þessum stofnunum hefir ekki sumum hverjum verið komið á fót af því, að hér væri um þjóðnytjastofnanir að ræða, heldur af því, að um er að ræða stofnanir, sem stj. hefir notað til þess að afla sér málaliðs, — málaliðs til þess að tryggja sig í valdasessi og efla þannig flokk sinn á kostnað ríkissjóðs. Það er því ekki nema eðlilegt, að stjórnarflokkurinn, sem ber ábyrgð á öllu þessu athæfi stj., vilji sem minnst láta hnýsast inn í þessa helgidóma. Þeir þurfa að fá að vera óáreittir og allt, sem þar gerist, hulið blæju þagnarinnar.

Það hefir nú þegar fengizt nokkur lausn á því, hvað liggur til grundvallar fyrir andstöðu stj. og stjórnarliðsins gegn þessari nefndarskipun. Hæstv. fjmrh. hefir þó ekki treyst sér að standa á móti því, að nefnd yrði kosin í Ed. Hún er skipuð 3 mönnum, þar af einum manni úr Sjálfstæðisflokknum, en nú á að tryggja það, að fleiri menn úr þeim flokki fái ekki að stiga fæti inn fyrir dyr þessara stofnana til að hnýsast í það, sem þar fer fram.

Ég skal þá snúa mér að hæstv. þm. S.-Þ. Hann viðurkenndi ummæli mín um afgreiðslu reikninga ríkisstofnananna í hendur fjvn. og svör þeirra við fyrirspurnum nefndarinnar sönn og rétt, enda ekki annað hægt, því að ég vék þar ekki hársbreidd frá sannleikanum. En hann vildi gera lítið úr tómlæti og skeytingarleysi þessara stofnana í því að láta í té skýr svör og refjalaus við fyrirspurnum fjvn. Ég skil þetta svo, að hann vilji heldur bera í bætifláka fyrir þetta, þar sem þetta tekur mjög til stj. En í n. hefir hann engu síður en við hinir látið í ljós óánægju gagnvart þessu framferði stofnananna.

Um Skipaútgerðina er það að segja, að við höfum ekki fengið að sjá þessa reikninga að öðru leyti en því, að forstjóri kom með þá á fund til okkar, las upp nokkrar tölur, en fór síðan á brott með það allt saman. Báðum við hann um skrá yfir laun starfsmanna við þessa stofnun, en hana höfum við ekki fengið enn. Var farið fram á þetta að nýju við Skipaútgerðina í gær og það ítrekað í morgun, en ekkert hefir orðið af því ennþá, að þessu hafi verið sinnt. Hv. þm. sagði, að þetta hefði ekki orðið n. til baga ennþá. Það er nú svo. Veit ég ekki, hvernig færi um störf n., ef allar stofnanir ríkisins höguðu sér eins gagnvart henni. Allur dráttur á reikningum og öðrum gögnum er til seinkunar nefndarstarfinu. Hv. þm. lét í ljós, að það hefði að einhverju leyti valdið töfinni, að við hv. 2. þm. Skagf. ættum sæti í öðrum fastanefndum þingsins. Ég man ekki til, að n. hafi séð sér fært að taka meira en 3–4 tíma á dag í n.störf, enda þótt enginn fjvnm. væri í öðrum n. Eins og ég hefi áður skýrt frá um störf n., hefir í engu verið slakað til frá þessu nú á þessu þingi. Um fundarsókn okkar hv. 2. þm. Skagf. get ég fullyrt það, að hún hefir sízt verið lakari en annara nm., og er því enginn flugufótur fyrir því, að það hafi á nokkurn hátt tafið fyrir störfum fjvn., að við jafnframt höfum verið í annari n., en náttúrlega höfum við orðið að leggja á okkur meiri vinnu fyrir þessar sakir.

Þá varði hæstv. fjmrh. nokkuð löngum tíma til þess að skemmta flokksmönnum sínum. Er svo að sjá, sem hann líti svo á, að það sé um að gera á erfiðum tímum að leiða hugann frá erfiðum hugsunum og áhyggjum og bera sig karlmannlega. Það er náttúrlega nokkuð til í þessu, en allt hefir þó sín takmörk. Sagði hann út af upplýsingum mínum um skilagreinir frá ríkisstofnunum, að ég hefði gefið í skyn, að verið væri að leyna einhverju, og ætti það skilið að fá þung svör: Veit ég, að það kemur sér stundum illa að segja satt. Ég sagði ekki annað en það eitt, er satt var, og liggur mér í léttu rúmi, þó að hæstv. ráðh. tali um að gefa þung svör. Það er ekki hægt að hnekkja sannleikanum.

Hæstv. ráðh. vill gera lítið úr starfi þessarar nefndar og lítur á það allt sem hégóma. Henni er runnið það svo í merg og bein, Framsóknarflokksstjórninni, að skipa milliþinganefndir, hverja ofan í aðra, að hún getur ekki hugsað sér, að neitt starf verði af hendi leyst með öðru móti. En hver er svo reynslan af þessu milliþinganefndafargani stjórnarinnar? Því er fljótsvarað. Gífurlegur kostnaður — en nauðalítill árangur. Enda er það svo, að til þessara nefnda er stofnað fyrst og fremst til að leiða pólitíska skjólstæðinga að bitlingajötunni. Eru dæmi til þess, að einstakir milliþinganefndarmenn hafa stungið í vasa sína svo tugum þúsunda króna skiptir fyrir þessi störf. En afköst af öllum þessum n.störfum eru ekki í neinu hlutfalli við kostnaðinn. Þetta er reynslan af störfum mþn. Er það undarlegt, að hæstv. fjmrh. getur ekki hugsað sér, að hægt sé að rannsaka svona mál nema í mþn. Á Alþingi er aðalvinnan fólgin í n.störfum. Þar fer fram gagnrýni og samanburður á málum. Án n.starfa myndu málin sækjast seint og illa. Samskonar störf er gert ráð fyrir, að þessi n. vinni, því að hinar föstu n. þingsins geta ekki gripið yfir það, sem henni er sérstaklega ætlað. En hér á þingi eru hinsvegar til starfskraftar, sem ekki eru svo bundnir, að þeir geti ekki innt af hendi slíkt starf.

Hæstv. ráðh. talaði oft um, að til þess að koma réttingu á fjárhaginn þurfi aðallega tvennt: Fyrst og fremst þurfi að draga úr útgjöldunum, en í öðru lagi að afla nýrra tekna. Vil ég benda á það, að ef rétta á við fjárhaginn með því að draga úr útgjöldunum, en það tel ég vera það úrræðið, sem næst liggur, þá ber nauðsyn til að rannsaka yztu afkima ríkisbúskaparins nú þegar, meðan þing stendur yfir, svo að hægt sé að lögleiða sparnað, sem komast má í framkvæmd á þessu ári.

Ráðningu starfsmanna við ríkisstofnanir er t. d. þannig háttað, að hægt er að segja þeim upp starfi þeirra með ákveðnum fyrirvara; sama gildir og um breytingu á launakjörum. Á miðju þessu ári eru útrunnir ráðningarsamningar margra manna við ríkisstofnanirnar. Því er hægt, ef vilji er til þess, að koma fram á þann hátt stórfelldum sparnaði við þessar stofnanir nú á þessu ári.

Það er þess vegna verkefni þessarar þingskipuðu n. að gera nú þegar ýtarlega rannsókn á því, hvernig er högum háttað í þessum stofnunum. Það er öllum vitanlegt, að þar má koma við stórauknum sparnaði nú þegar. En til þess að fá þetta fljótt og vel af hendi leyst þarf að skipa nefndir í báðum deildum. Getur þá Alþingi það, er nú situr, gert nauðsynlegar ráðstafanir um niðurfærslu á útgjöldum þessara stofnana, sem koma til framkvæmda á þessu ári. Með því að skipa mþn. í þessu augnamiði er öllu slegið á frest.

Hæstv. ráðh. hlýtur að viðurkenna réttmæti þessarar hugsunar og það, að okkur er full alvara í þessu máli; hann hlýtur að viðurkenna, að þetta er leið — og eina leiðin — til að koma á sparnaði á ríkisútgjöldum þegar á þessu ári.

Hæstv. ráðh. sagði, að þótt slík n. verði skipuð, þá muni hún reka sig á það hjá forstjórum ríkisstofnananna, að ekki sé hægt að draga mikið úr kostnaði hjá hverjum þeirra. Ég get vel búizt við því, að þetta geti verið rétt hjá hæstv. ráðh., en það er fleira, sem þarf að taka tillit til, heldur en umsögn þessara manna. Það er gjaldgeta ríkissjóðs. Um hana ætti hæstv. ráðh. að vera kunnugt, og hefir hann lýst henni þannig, að eigi verði hjá því komizt að sjá ríkissjóði fyrir nýjum tekjum; annars blasi við greiðsluþrot. Það, sem okkur, sem að þessari tillögu stöndum, skilur á við hæstv. fjmrh. um lausn þessa vandamáls, er það, að við viljum koma réttingu á fjárhag ríkissjóðs með því að draga úr útgjöldunum, og þetta er í lófa lagið, ef menn vilja. Með því að láta fram fara slíka rannsókn sem í till. felst, er fenginn grundvöllur undir niðurfærslu á útgjöldum ríkisins einmitt þar, sem slík niðurfærsla er allra sjálfsögðust og auðveldust. Það þýðir ekkert að vera að vitna til þess, hvað forstjóri þessarar og þessarar stofnunar segir. Útgjöldin verða að lækka. Það er ekki verið að spyrja að því, hvað þeir menn segja, sem bíða óþreyjufullir eftir síma, brúm og vegum. Má segja, að þörfin fyrir þetta minnki ekki á krepputímum. Hún er aldrei brýnni er þá. En veruleikinn kemur fram í þeirri mynd, að þrátt fyrir það, að þörfin minnkar ekki, þá verður að skera niður þessar framkvæmdir. Sá harðhenti veruleiki, að þess er enginn kostur nú að afla þeirra tekna, sem til þess þarf að halda uppi ríkisbúskapnum í því formi, sem hann hefir verið rekinn síðustu árin, knýr svo fast á, að þar verður undan að játa. Það verður að draga úr útgjöldunum.

Er það kunnugt, að síðan á þinginu 1922, er hér var rædd svipuð till., hefir ríkisbúskapurinn blásið mjög út. Þá lýsti hv. 1. þm. S.-M., sem var flm. þeirrar till., ástandi ríkissjóðs mjög átakanlega. Sagði hann, að starfsmönnum hefði fjölgað óvenjulega síðustu árin, og af því að sú fjölgun hefði hitt á verstu dýrtíðina, hefðu útgjöldin orðið enn tilfinnanlegri. Kvað hann of tómlátlega farið með till., ef litið væri á hana sem kjósendaskrum og ekkert annað. Er þetta athugandi fyrir hæstv. ráðh., því að hann virðist líta á þessa till., sem hér er borin fram, sem kjósendaskrum eitt. (Fjmrh.: Ef það er gert á þennan hátt). Já, ef það væri gert á annan hátt, þá myndi hæstv. fjmrh. líka segja, að það væri ekki sá rétti máti.

Hv. 1. þm. S.-M. heldur enn áfram á þingi 1922 og vitnar í gjaldgetu almennings. Farast honum orð á þessa leið: „Ég veit um sjávarþorpin á Austur- og Norðurlandi, að aldrei hefir hagur þeirra þrengri verið en nú. Útvegsmenn eru að gefast upp og útvegurinn að fara í strand. Sömu sögu segja bændurnir úr sveitunum. Hvert sem litið er, blasir við hrun eða hnignun atvinnuveganna, sem orðið hafa fyrir þyngri skattaálögum síðustu ár en nokkru sinni áður“.

Hvernig er þetta nú? Ef hv. þm. væri samkvæmur sjálfum sér, hefði hann borið fram slíka till. nú og málað með enn sterkari litum starfsmannafjölda ríkisins og hina þverrandi gjaldgetu þess og almennings. Nei, ég held, að með því viðhorfi, sem nú er, sé brýn þörf — og það jafnvel brýnni þörf en nokkru sinni áður — samtaka um niðurfærslu á útgjöldunum. Við höfum viljað byggja þetta þannig upp, að strax á þessu ári væri hægt að meira eða minna leyti að framkvæma þessar niðurfærslur. Þarf að fara á fremstu grös í því efni. Ef það hrykki ekki til til að koma á nauðsynlegri rétting á fjárhag ríkissjóðs, þá væri forsvaranlegra að reyna að bæta eitthvað við það, sem sótt er ofan í vasa almennings til ríkisþarfa.

Sjálfstæðisflokkurinn hefir hér rétt út höndina, og fer árangurinn eftir því, hvernig stj.flokkurinn tekur við þeirri útréttu hönd. Hæstv. ráðh. þarf ekki að vera að vekja hlátur út af þessu máli hjá flokksmönnum sínum. Hann hefir að vísu nægan liðsafla til að koma því fyrir kattarnef hér í d. En hann tæki með því meiri ábyrgð sér á herðar en fjmrh. getur gert. Þarf ekki svo skuggalegt útlit sem nú er til þess að sjá, að ómögulegt er að halda ríkisbúskapnum í sama horfi með þeim útgjöldum, sem nú eru. Verður að draga úr þeim með því að fækka eitthvað þeim starfsmönnum, sem hrúgað hefir verið upp hjá ríkinu síðustu árin. Sumar stöðurnar hafa ekki verið stofnaðar af þjóðarnauðsyn, heldur af nauðsyn valdhafanna á því að koma fylgifiskum sínum einhversstaðar fyrir. Laun nálega allra þessara manna eru hærri en fastra starfsmanna, er taka laun sín samkvæmt launalögum. Er fullkomin þörf á því að gera ýtrustu tilraunir til þess að hægt sé að draga úr útgjöldum ríkissjóðs sem allra fyrst. Að þessu stefnir þessi till., með því að koma á hreyfingu starfskröftum, er taki að vinna að því máli nógu fljótt til þess að Alþingi geti gert nauðsynlegar ráðstafanir í þessu efni áður en því lýkur. Að því leyti sem borið er saman ástandið 1922 og nú, þá má benda á það til dæmis, að fjölda af embættum og stöðum hefir verið komið upp síðan og auk þess komið upp útgjaldafrekum stofnunum eins og útvarpinu, viðtækjaverzluninni, skipaútgerðinni o. fl. (HG: Gullaldardagar þá). Það getur verið að það hafi ekki verið jafnmiklir gullaldardagar þá fyrir hv. þm., því að hann var þá ekki orðinn bankastjóri af stjórnarnáð. Ætti það, sem ég hefi tekið fram, að vera nóg til að sýna, að okkur er full alvara og að hæstv. ráðh. getur skakkt til, þegar hann er að telja sér og öðrum trú um, að okkur gangi ekki annað en kjósendadekur til að halda fram slíkri till.

Ef hæstv. fjmrh. tekur ekki á móti þessari útréttu hönd okkar sjálfstæðismanna, er það annaðhvort af því, að enn er við lýði hjá honum sá hugsunarháttur, sem ríkjandi hefir verið hjá stjórnarflokknum, að snúast gegn öllum nytjamálum, sem við sjálfstæðismenn höfum borið fram, eða þá af því, að hann hefir ekki komið auga enn á þau sannindi, eða ekki séð þau nógu ljóst og skýrt, að það er á engan hátt fært eins og nú er högum háttað að koma lagfæringu á fjárhag ríkissjóðsins á annan veg en þann að færa niður útgjöldin.

Hæstv. ráðh. talaði um það í sambandi við Djúpbátinn, að ekki væri annað en reka mennina á land. En það er lítið gagn að því, ef mennirnir eru eftir sem áður á föstum launum, eins og sagt er, að einir tveir stýrimenn og a. m. k. einn loftskeytamaður séu, sem reknir hafa verið í land af einu varðskipinu. Er það eitt út af fyrir sig nóg rannsóknarefni. (Fjmrh.: Er það ekki líka til athugunar hjá sjútvn.?). Ég veit það ekki, en það þarf að rannsakast. Það þarf einnig að athuga, hve há laun yfirmenn hjá ríkisútgerðinni hafa. Ég hefi heyrt, að skipstjórarnir þar hafi 12–14 þús. kr. laun. Ef þeir væru látnir hafa sömu laun og varðskipaforingjarnir, þá mætti spara þar 25–26 þús. kr. á ári.

Þá er Þórsfiskurinn svonefndi. Þar munu líka finnast menn á launum. Það leikur á tveim tungum, hvort þar hefir ekki verið um stóran óhag að ræða fyrir ríkissjóð. Er það efni til rannsóknar, og ekki hefir fjvn. séð neitt um það. Þeir, sem seldu Þórsfiskinn, gerðu félag með sér og keyptu og seldu annan fisk. M. a. keyptu þeir fisk af Akurnesingum, sem stóðu í þeirri trú, að það væri ríkissjóður, sem af þeim væri að kaupa. En þegar þeir fóru að ganga eftir greiðslunni, sem gekk erfiðlega með, komust þeir að raun um, að svo var ekki. Það mun hafa verið nokkuð erfitt að greina á milli, hvað ríkið hafði og hvað þessir menn. Það er líka rannsóknarefni.

Ég sé það á hæstv. forseta, að það muni vera komið að því að fresta fundi. En það voru fleiri atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem ég hefði þurft að taka til athugunar, en ég fæ þá kannske aths. síðar.

Ég skal enda með því að minna á það, að hæstv. fjmrh. þótti litlar nytjar hafa orðið af starfi flokksbróður síns, hv. 1. þm. S.-M., og annara, er sæti áttu í sparnaðarn. 1922, þar sem hann festi hvorki hönd né fót nema á fáum og litlum till., sem frá þeirri n. hefðu komið. Það getur nú verið, að hinn beini árangur af starfi þeirrar n. hafi ekki verið sérlega mikill. En árangurinn hygg ég, að meira hafi legið í ýmsum athugunum, sem n. gerði á útgjöldum ríkisins og urðu til athugunar og leiðbeiningar við framhaldsvinnu að slíkum málum. Og þótt sú n. hafi máske ekki unnið neitt þrekvirki, þá segir það ekkert um það, að ekki gæti orðið gagn að starfi þeirrar n., er hér um ræðir. Það er á sinn hátt eins og það, að þó við nú um stund höfum haft slæma ríkisstjórn, þá má samt ekki sleppa allri von um það, að við munum eiga eftir að fá betri stjórn.