02.04.1932
Neðri deild: 41. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (3864)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

3864Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. Borgf. telur sig og sinn flokk hafa rétt út höndina til andstæðinganna. En ég þykist hafa breitt út faðminn, þar sem ég gekk inn á, að kosin yrði n. eftir þeirra tillögum. En þá virðist hafa brugðið svo við, að þeir kipptu að sér hendinni og brúka nú bara munn. Eftir tali hv. þm. að dæma, þá á þessi n. að taka fyrir öll viðfangsefni þingsins, eins þau, sem aðrar n. hafa til athugunar. Svo er t. d. með þessa 2 eða 3 menn, sem hv. þm. Borgf. o. fl. sögðu, að væru í landi af varðskipunum. Það atriði liggur fyrir hjá sjútvn. til athugunar og úrskurðar. (FO: Hún á bara að athuga, hvort hún vill gefa leyfi sitt til þess, að þeir séu reknir). Þá leyfir hún það, ef hún getur, og framkvæmir með því þann sparnað. (PO: En ef það er rangt að reka þá?). Þá gerir n. það auðvitað ekki, og þá er engum sparnaði hægt að koma við þar. Annars er um laun yfirmannanna á ríkisskipunum það að segja, að enginn þeirra hefir hærri laun en það, sem borgað er fyrir sambærileg störf á Eimskipafélagsskipunum.

Það er hrein fávizka að ætlast til, að n. slík sem hér um ræðir geti tekið til meðferðar öll viðfangsefni þingsins. Ef hún ætti að gera það, þá yrði vitanlega ekkert gert. En þetta er tónninn í ræðum hv. þm. Hv. þm. Vestm. sagði, að ég hefði sannað, að fjvn. hefði engan tíma til að athuga hugsanlegar niðurfærslur á útgjöldum ríkisins, því að ég hefði sagt, að hún læsi saman þau plögg, er henni bærust. Afleiðingin af því væri sú, að hún hefði engan tíma til að athuga sparnað. En hvaða skjöl eru það nú, sem fjvn. er að lesa? Það eru skýrslur frá hinum ýmsu ríkisstofnunum, sem hún er að lesa, og um leið að athuga, hvar hægt sé að spara með niðurfærslu útgjalda. Og til viðbótar við þessar skýrslur biður fjvn. um og fær viðbótarskýrslur og kallar auk þess forstöðumenn stofnananna á sinn fund til viðtals og athugunar. Hér hefir verið talað eins og enginn hugsaði neitt eða framkvæmdi neitt að niðurfærslu á útgjöldum ríkisins. Með fjárlfrv. mínu skar ég þó niður sem svarar fullri millj. kr. af útgjöldum ríkisins, miðað við fjárl. nú. Og fjvn. hefir enn klipið af útgjöldunum sem nemur um 340 þús. Þetta var einmitt verkefni fjvn., og hún hefir líka unnið samkv. því. Meðan þing starfar hefi ég heldur ekki talið þörf á annari eða öðrum n. en fjvn. til að inna þetta hlutverk af hendi, þótt ég hinsvegar hafi ekki viljað verjast því, að ein n. væri skipuð til viðbótar, svo sem gert var í Ed.

Í fjvn. Nd. situr nú sjálfur hv. þm. Borgf., sem er manna kunnugastur starfsemi ríkisins, vegna elju sinnar og langrar setu í fjvn. Og þar situr líka hv. 2. þm. Skagf. Er það ekkert last til annara sjálfstæðismanna þessarar d., þótt sagt sé, að þeir hafi ekki haft færari mönnum á að skipa til þessa starfa. Og fjvn. er einmitt skipuð með það fyrir augum að athuga fjármál ríkisins. Hún er sú fasta n., sem að þessu vinnur. Já, hér hefir verið talað eins og ekkert hafi verið gert. Þó starfa tvær fjvn. í þinginu og ein að auki, sem hafa þetta sérstaklega til athugunar. Og sá sparnaður, sem komið getur til framkvæmda á yfirstandandi ári, er líka athugaður um leið og fjárl. næsta árs eru tekin til meðferðar, nema þær upphæðir vitanlega, sem eru fast bundnar í fjárl. þessa árs. Þessar umr., sem nú hafa staðið, hefðu máske getað gert eitthvert gagn, ef þær hefðu verið fluttar á sumarþinginu síðasta, en þá var nú tónninn nokkur annar. Þá var talið mest áríðandi að fylla fjárl. sem mest, svo ekki væri hægt að eyða neinu utan þeirra. Þar með voru svo útgjöld þessa árs lögbundin.

Hér er sannarlega ekki verið að hindra neina möguleika til að koma fram sparnaði. Hv. þm. Borgf. sagði sjálfur, að nefndirnar hefðu ekki meira en 4 tíma afgangs á dag til að vinna nefndarstörf. Ég hygg nú, að óhætt muni vera að segja, að n. hafi ekki nema 2–3 tíma, þegar fundir lengjast, en við þá eru vitanlega allir þm. bundnir.

Ég hefi þegar nefnt tvo hv. sjálfstæðismenn, sem starfa í fjvn. þessarar d. En auk þess starfar hv. fjvn. Ed., og þar á Sjálfstæðisflokkurinn líka fulltrúa. Og enn er hin nýskipaða n. í Ed., þar sem sjálfur formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. 1. landsk., á sæti. Það er því að gera nokkuð lítið úr þeim hv. þm., sem ætlazt er til, að haldi áfram starfi sínu þegar þingi er lokið, að segja það, að ekkert sé gert og að alla athugun eigi að hindra.

Ég þarf nú ekki að eyða mörgum fleiri orðum um þetta. Ég býst við, að umr. um málið fari að styttast hér, en þá er vitanlega eftir eftirleikurinn um allt þetta dæmalausa, sem Framsóknarflokkurinn hafi aðhafzt í þessu máli, sem verður efni í blaðagreinar Sjálfstæðisflokksins, með viðeigandi, gleiðletruðum fyrirsögnum. Sú efsta verður um þá kúgun, sem ég og Framsóknarflokkurinn hafi sýnt sjálfstæðismönnum. Undirfyrirsagnirnar verða svo: „rangsleitni, ofbeldi“ og því næst: „Öll rannsókn hindruð í hreiðri ríkisstjórnarinnar“. — En svo kemur önnur frásögn um það, hvernig herra Jón Þorláksson hafi þröngvað Framsóknarflokknum til að samþ. skipun n. í Ed. Og í þeirri grein verður lýst með viðeigandi orðnum hinum ágætu starfskröftum hans og einnig sagt frá því, að hann fái lengri tíma til síns starfs en meðan þing stendur. Óneitanlega fer betur á því, að þetta sé ekki allt í sömu greininni. Þær verða að vera tvær, hvort sem þær koma í sama blaðinu eða ekki. Nei, þetta dugir ekki. Það er ekki hægt að segja í sömu andránni eins og satt er, að sjálfstæðismenn hafi fengið till. sína samþ. í annari deild þingsins, og segja svo; að ekkert hafi fengizt. En kjósendurnir eru máske ekki óvanir rökvillum á hinum pólitíska sjó.