02.04.1932
Neðri deild: 41. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (3865)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Haraldur Guðmundsson:

Ég fæ ekki skilið deilur hv. íhaldsmanna og hæstv. fjmrh. Deiluefnið virðist ekkert vera. Hv. þm. Borgf. sagði, að tillögur þeirra sjálfstæðismanna væru framrétt hönd til Framsóknarflokksins. Og ég heyrði hæstv. fjmrh. segja frá því, að hann hefði breitt út faðminn móti þeim. Ég held því, að öll þeirra deila sé aðeins til þess að skemmta skrattanum. (EA: Eru það kommúnistar?). Nei, önnur persóna mun það vera, eftir því sem einn hv. sjálfstæðismaður álítur og hefir lýst á prenti. Hann þóttist sjá í vitrun þann hv. þm., er fram í tók, með horn og klaufir, eða eins og umræddri persónu hefir oftlega verið lýst. En ég sé ekki, hvers vegna flokkarnir eru að karpa um þetta, nema þá, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, til þess að fá fyrirsagnir að blaðagreinum.

Hv. þm. Borgf. vék nokkuð að þeirri gullöld, sem hér hefði verið, þegar ekki var nein viðtækjaverzlun, engin prentsmiðja rekin af ríkinu, engin ríkissmiðja, ekkert útvarp o. fl. o. fl., og ég ekki orðinn útibússtjóri. Já, ég trúi því vel, að hv. þm. Borgf. hafi þótt þetta gullöld, og það hefir eflaust fleiri íhaldsmönnum fundizt, t. d. Stefáni Th. Jónssyni, sem fékk meira en helming af öllu veltufé útibúsins á Seyðisfirði lánað hjá útibússtjóranum þáverandi, bróður sínum. Líkt er án efa um fleira. Hjá þeim var gullöld. En hvort það hefir verið sérstök gullöld fyrir bankana og ríkissjóðinn, er annað mál. Áætlaðar tekjur af ríkisprentsmiðjunni og ríkisvélsmiðjunni eru nú 65 þús. kr. í fjárlfrv., og er þó opinber prentun sízt dýrari en áður var, heldur þvert á móti. Viðtækjaverzlunin leggur á annað hundrað þús. til útvarpsins. Ekki fékk ríkissjóður þessar 165 þús. kr. á gullaldardögum Íhaldsins, sem hv. þm. nú minnist klökkur og með sárum söknuði.