11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (3886)

29. mál, fávitahæli

Frsm. (Jón Jónsson):

Þessi till., sem hér um ræðir, er ekki mikil fyrirferðar á pappírnum, en er þó nokkuð stór að efni til. Með henni á að heimila stj. að koma upp hæli handa fávitum svo fljótt sem auðið er. N. hefir athugað málið nokkuð ýtarlega og m. a. leitað umsagnar landlæknis um það, og er álit hans prentað sem fskj. með nál. á þskj. 336. N. lítur svo á, að hér sé um svo stórt mál að ræða, að ómögulegt sé að flana út í að ráðstafa því með einni þáltill. Það þarf fyrst og fremst að afla sér upplýsinga um, hvað þörfin er mikil fyrir þá stofnun, sem hér er um að ræða, hvernig hentugast er að koma henni fyrir o. s. frv. Verður m. a. að leita fyrir sér um erlenda reynslu á þessu sviði. Auk þess sá n., að ekki mundi verða hægt á þeim fjárkrepputímum, sem nú standa yfir, að ráðast í stórbyggingu. Hinsvegar dylst n. ekki, að nokkuð mikil þörf er á að ráðstafa á einhvern hátt þeim vesalingum meðal þjóðarinnar, sem hér um ræðir, því miklum erfiðleikum valda þeir á heimilum sínum.

Út frá þessu lítur n. svo á, að bezta lausn á þessu frá þingsins hálfu nú eins og sakir standa væri sú, að fela hæstv. ríkisstj. að undirbúa málið fyrir þingið svo fljótt sem unnt er. Leggur hún því til, að málið sé afgr. með rökst. dagskrá, sem birt er á þskj. 336, væntir hún, að hv. d. geti fallizt á það.