01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í C-deild Alþingistíðinda. (3923)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Guðbrandur Ísberg:

Ég verð auðvitað að beygja mig fyrir úrskurði hæstv. forseta, en ég er ekki sem bezt ánægður með það að eiga að sitja hér við dyrnar í alla nótt, eftir það að hafa verið hálfskjálfandi í allan dag vegna trekks frá dyrunum.

Hv. þm. Vestm. hefir lýst afstöðu okkar minni hl. í sjútvn. og bent sérstaklega á það álit okkar, að frv. geti ekki náð tilgangi sínum. En með því er stofnað til mikillar og óþarfrar skriffinnsku fyrir loftskeytamenn á togurunum. Ég mun ekki fara mikið út í umr., en vil þó benda á það, að þetta eykur gífurlega starf loftskeytamannanna, og svo tekur það einnig tíma að taka á móti skeytunum í landi og lesa þar úr þeim. Í lok 4. gr. frv. er sagt, að landssímastjóri skuli hafa skoðun þessa með höndum, og að því búnu eiga skeyti þess að sendast til dómsmrn. En ef við athugum þessi fyrirmæli í sambandi við bréf loftskeytamanna, sem fylgir nál. á þskj. 196, fáum við þær upplýsingar, að 10 mánuði ársins séu send milli skips og lands 850 þús. loftskeyti. Þennan skeytafjölda tæki svo mikinn tíma að rannsaka, að þó landssímastjóri gerði aldrei annað, ynnist honum ekki tími til þess. Í 4. gr. segir ennfremur, að sjútvn. Alþingis eigi líka að fá skeyti til athugunar. Ég get ekki skilið, að þær fari að eyða sínum dýrmæta tíma í það að fara í gegnum þessa ófróðlegu skeytabunka. Þá er bara dómsmrh. eftir. Auðvitað væri æskilegast, að dómsmrh. tæki sjálfur að sér þessa skoðun. Hann gerði þá a. m. k. ekki annað óþarfara á meðan. Nú má gera ráð fyrir, að flest þessi skeyti séu á dulmáli og taki því langan tíma að stafa sig fram úr hverju þeirra. Og gera má ráð fyrir, að maður athugaði 25 skeyti á klst.; með 8 stunda vinnudegi yrðu það 200 skeyti á dag. Það yrðu 60–70 þús. á ári. En hér er um 850 þús. skeyti að ræða. Það þyrfti því 13–14 menn að sitja við allt árið, ef tími ætti að vinnast til þess að skoða öll skeytin. Ef við sláum nú af og segjum sem svo, að maður mundi lesa úr 50 skeytum á klst., þá er þetta samt viðbót við starfsmannahald ríkisins, sem nemur einum 7–8 mönnum. En ég vil benda hv. d. á það, að eigi að drífa þetta frv. í gegn, verður að ætla álitlega fúlgu í fjárl. til þess að launa þessa menn. Ef gert er ráð fyrir, að hver maður fái 5000 kr. í árslaun, væru þarna 40000 kr., sem sannarlega væri hægt að verja betur. T. d. væri hægt að gera annað varðskipið, sem nú liggur í höfn, út um tíma fyrir þetta fé. Og það væri ólíkt betra fyrir landhelgigæzluna heldur en þessi gagnslausa frv.ómynd.