11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í D-deild Alþingistíðinda. (3924)

29. mál, fávitahæli

Guðrún Lárusdóttir:

Ég gat þess við fyrri hl. þessarar umr., að nefndin, sem undirbjó frv. það til laga um barnavernd, er nú hefir verið lagt fyrir Alþingi, sendi fyrirspurnir til allra hreppsnefndaroddvita á landinu viðvíkjandi tölu og aldri vanþroska barna og fávita.

Svörin, sem nefndinni bárust, sýndu það glöggt, að manntalsskýrslur eru í þessu efni mjög ónákvæmar. Nú hefir hagstofan unnið úr svörum þessum og fyrirliggjandi manntalsskýrslum, þar sem taldir eru fávitar eftir aldri og kynferði. Ennþá vantar þó upplýsingar úr yfir 60 hreppum og 2–3 stærstu kaupstöðunum. Í almenna manntalinu frá 1. des. 1930 eru ekki taldir nema um 100 fábjánar á öllu landinu, og örfáir þeirra, eða eitthvað 6, yngri en 10 ára. En þrátt fyrir það, þótt barnaverndarnefndin fengi engin svör úr 63 hreppum né 3 fjölmennustu kaupstöðum landsins, þá eru fávitarnir, sem aðrir oddvitar og bæjarstjórar sögðu til, miklu fleiri, eða samtals 195, þegar með eru taldir þeir 21, sem manntalið telur í þrem fyrrgreindum kaupstöðum, og 10 aðrir, sem manntalið greinir frá í þeim hreppum, sem engin oddvitaskýrsla kom frá. Af þessum 195 eru 27 yngri en 10 ára, en 34 10 til 20 ára, og má óhætt gera ráð fyrir, að þessi börn og unglingar séu a. m. k. 60, ef allt væri talið. Eru þetta í raun réttri hrópandi tölur til forráðamanna þjóðarinnar að hefjast handa um stofnun hælis handa þessum vesalingum.

Þegar litið er til þess, hve margir hreppar eru ótaldir, verður það alveg ljóst, að talsvert mundi bætast við tölu fávitanna við grandgæfilegri rannsókn, og mundi hún einnig leiða það í ljós, að þörfin á fávitahæli eða hælum er orðin býsna aðkallandi hér á landi, og það enda þótt ekki væri um fleiri slíka aumingja að ræða en þá, sem þegar eru taldir.

Það er líklega nokkuð svartur kapítuli í sögu landsins, meðferðin, hirðingin og aðbúðin, sem þessir vesalingar hafa orðið við að búa. Þó ég geri ráð fyrir, að hagur þeirra hafi eitthvað skánað í seinni tíð, þá veit ég samt, að mjög er áfátt um þá hluti víða enn. Það er í rauninni ofureðlilegt, þegar alls er gætt. Fávitar eru oftast nær erfiðir viðfangs og þyngsta byrði heimilanna og þurfa á allt annari meðferð að halda en flestöll heimili geta látið þeim í té. Þeir eiga enga samleið með öðru fólki. Þeim er alstaðar ofaukið, þeir eru brjóstumkennanlegir aumingjar, sem fara sjálfir á mis við allt sólskin í lífinu og skyggja samtímis meira eða minna á sólskinið fyrir öðrum.

Það væri því ekki lítil hjálp og léttir fyrir þau heimili á landinu, sem þjást undir slíkum byrðum, ef hæli kæmust upp fyrir slíka menn. Og ég veit fyrir víst, að þess er beðið með óþreyju, að þjóðin eignist það sem fyrst. Má jafnvel teljast einkennilegt, að fávitum hafi verið gert svo miklu lægra undir höfði en öðrum ósjálfbjarga börnum þjóðarinnar, sem svo að segja öllum hefir verið séð fyrir hælum og sjúkrahúsum.

Hér og hvar sitja mæddir foreldrar yfir þessum sorgarbörnum sínum, sem eru gersamlega svipt sjálfsbjargarskilyrðum, sakir skorts á ljósi skynseminnar. Persónulega veit ég um margt slíkt fólk, og vil ég í þessu sambandi minna á bænarskrá til Alþingis í vetur frá aðþrengdum foreldrum um styrkveitingu til þess að koma stálpuðum fávita dreng á hæli ytra. Þetta er neyðaróp eitt af mörgum, frá þeim, sem í afkimum sitja og heyja þungt, þreytandi stríð. Þessi unglingur er orðinn ofurefli heimilisins, ástand hans hefir farið versnandi með aldrinum, eins og oft vill verða, eftir því sem líkamsburðir stælast, en ýmsir gallar og tilhneigingar, samfara aumingjaskapnum, gera meir og meir vart við sig.

Við fyrri hluta umr. dvaldi ég einkum við þá hlið málsins, sem snertir hina brýnu, knýjandi bráðaþörf þess, að þjóð vor fari að dæmi annara þjóða og efni til hælis og hjúkrunar fyrir þá menn, sem eru í raun og veru aumastir allra. Þá fór ég einnig nokkrum orðum um athafnir nágrannaþjóðanna á þessu sviði mannúðarinnar.

Þegar ég nú ber það saman við okkar athafnaleysi í þessu sjálfsagða skyldumáli sérhverrar þjóðar, ber saman líðan þeirra, sem ennþá hýrast vanhirtir, oft í lélegum híbýlum, farandi alls á mis, og hinna, sem njóta aðhjúkrunar og hirðingar á góðum hælum, þar sem hreinlætis og nærfærni er gætt í hvívetna, og hinir veikburða, skertu hæfileikar fá að njóta sín, að svo miklu leyti sem við verður komið, þar sem allt er gert til þess að létta á þungri þrautabyrði, þá finn ég sárt til vegna aumingjanna okkar hér á Íslandi, sem hafa farið á mis við þessi gæði, og finnst mér ég ekki taka of djúpt í árinni, þótt ég telji einmitt þetta mál eitt hið brýnasta nauðsynjamál þjóðar vorrar, sem þolir enga bið, að framkvæmt verði úr þessu. Um það er heldur enginn ágreiningur. Má ég því vel una, er hv. allshn., sem fékk málið til athugunar, hefir játað þá nauðsyn, og sömuleiðis landlæknir, sem í bréfi sínu til n. hefir látið þá skoðun sína mjög greinilega í ljós.

En ég get þó ekki sagt, að ég sé allskostar ánægð með þá úrlausn málsins frá hendi hv. n., sem hér liggur fyrir í rökst. dagskrá á þskj. 336.

Mér hefir alltaf verið það ljóst, að þetta mál, eins og öll vandamál, þarf rækilegan undirbúning, og þar sem þáltill. mín ræðir um að fela stj. framkvæmd málsins, svo fljótt sem auðið er, þá er mér og hefir einlægt verið það ljóst, að slík framkvæmd skeður ekki undirbúningslaust.

Að minni hyggju er það bezti undirbúningur málsins að samþ. blátt áfram þáltill. eins og hún liggur fyrir. Og skal ég gera nánari grein fyrir því: Þá væri um leið komin ástæða fyrir einhvern unga lækninn, sem utan fer til sérfræðináms, að kynna sér rækilega þessa grein sjúkdóma, sem ég ætla, að enginn íslenzkur læknir hafi tekið upp sem sérfræðinám, vafalaust af því, að ekkert útlit er fyrir, að hann hefði þess not hér heima á eftir.

Þá væri einnig ástæða fyrir einhvern kennarann, sem lætur sér annt um vangæf og vanþroska börn, að leita dvalar um hríð á erlendu hæli fyrir hálfvita á barnsaldri. Mér vitanlega hefir enginn íslenzkur kennari kynnt sér meðferð slíkra barna og unglinga á erlendum hælum, sjálfsagt aðallega sökum þess, að engin slík stofnun er til hér heima. Sama máli gegnir um hjúkrunarkonur, sem utan fara. Það er ekki von, að fátækt námsfólk eyði bæði tíma og fé til þess að kynnast starfi erlendis, sem litlar eða engar líkur eru til, að það geti síðar lagt stund á heima á ættjörð sinni. En vilji menn hinsvegar heldur afgr. málið með rökst. dagskrá, þá læt ég mér það lynda, með því móti, að tiltekið sé, hvenær þeim undirbúningi skuli vera lokið, til þess að koma í veg fyrr drátt á þessu nauðsynjamáli; það hefir þegar dregizt allt of lengi, þjóðinni til smánar, heimilum til hnekkis og einstaklingum til æfinlegs tjóns.

Sá undirbúningur, sem hér kæmi þá fyrst og fremst til greina, virðist mér aðallega fólginn í þessu tvennu:

1. Að fá fulla vitneskju um tölu, aldur og ásigkomulag allra fávita í landinu.

2. Að fela hæfum manni að kynna sér fyrirkomulag, rekstur og allan útbúnað á þeim hælum erlendis, sem reynslan sýnir, að borið hafi góðan árangur.

Og þessum undirbúningi tel ég, að mætti ljúka fyrir næsta reglulegt Alþingi, og væri þá málinu haldið lengra, eftir því sem efnin og ástæðurnar leyfa.

Eitthvert fé mundi þurfa til að undirbúa málið á þann hátt, sem hér er að vikið. Hve mikið, fer sjálfsagt mjög eftir því, hvernig maður væri valinn til að kynna sér erlend hæli og fyrirkomulag þeirra.

Yfirlæknirinn á Kellensku fávitahælunum í Danmörku, dr. Weldenskov, hefir sagt, að sumir menn, sem hann hefir kynnzt einmitt við störf á fávitahælunum, hafi ekki þurft lengri tíma en 3–4 mánuði til þess að fá nægilegan undirbúning til fullkominnar starfhæfni á þessum sviðum, þar sem aftur aðrir yrðu aldrei verkinu vaxnir, þó þeir glingruðu við það æfilangt. Þessi er þá munurinn á mönnunum að dómi hins reynda og æfða læknis, sem manna bezt þekkir til slíkra mála og þeirra, er hér um ræðir. Og svipaður munur kemur fram, ef litið er á fjármálahliðina. Sumir menn geta komizt af með lítið fé til utanferða og orðið vel ágengt eigi að síður, öðrum nægir ekki stórfé; en eyðsluseggir, sem ekki komast út fyrir pollinn nema þeir hafi þúsundir á milli handa, mundu ekki líklegastir til að sinna stjórnarstörfum á slíkum stofnunum.

Á þessu stigi málsins og úr því, sem komið er, er ekki tímabært að tala um tilhögunina á hælinu eða hælunum; það verður tíminn og reynslan, sem leiðir það í ljós. Ég geri þó ráð fyrir, að farið yrði eftir erlendum fyrirmyndum, þar sem þær eru beztar og að svo miklu leyti, sem þær yrðu samrýmdar okkar staðháttum.

Geta mætti þess hér, að í Danmörku voru það framtakssamir einstaklingar, sem komu á fót fyrstu fávitahælunum, en nú eru þau orðin ríkisstofnanir, — ríkið kostar rekstur þeirra, þótt þau séu að formi til sjálfseignarstofnanir. Þar hefir það reynzt óhjákvæmilegt að flokka fávitana eftir ásigkomulagi þeirra og haga stjórn hvers hælis eftir þörfum þeirra, er þar dvelja. Þannig er t. d. að jafnaði læknir látinn stjórna þeim hælum, sem ólæknandi, óvinnufærum mönnum er ráðstafað, kennari eða uppeldisfræðingur er hafður fyrir því hæli, þar sem börn eru og unglingar, sem von er um, að nái einhverjum þroska, en mest veltur þó vanalega á starfi hjúkrunarkvenna, sem annast daglegar þarfir aumingjanna.

Ársmeðlag á þessum dönsku hælum mun vera um 1100–1200 kr.

Ég vík þá að lokum að rökst. dagskránni á þskj. 336 og leyfi mér, með skírskotun til þess, sem þegar er tekið fram, að bera fram brtt. við hana, og orðist hún þá þannig:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti fara fram nauðsynlegan undirbúning málsins fyrir næsta reglulegt Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Ég ber þessa brtt. fram með það eitt fyrir augum, að flýtt verði fyrir undirbúningi málsins, sem ég tel aðkallandi nauðsynjamál, auk þess sem það er hreint og beint mannúðarmál, sem þjóð vor getur eigi án vansa látið afskiptalaust lengur.

Ég treysti því, að hv. þdm. sjái nauðsyn málefnisins og ljái því fylgi sitt að þessu sinni með því að greiða fyrir þessari breyttu dagskrá, sem ég hefi borið hér fram, og sýni þannig skilning á málefni aumingjanna.