11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (3925)

29. mál, fávitahæli

Frsm. (Jón Jónsson) Hv. 6. landsk. hefir talað af mikilli tilfinningu um þetta mál. Lasta ég það ekki, því að mér er kunnugt um, að hv. þm. hefir mikinn áhuga fyrir þessu og þvílíkum mannúðarmálum. En ef skilja á hv. þm. svo, sem hann sé að láta í ljós óánægju sína yfir undirtektum n., þá er ekki ástæða til þess, því að n. hefir tekið vel og vinsamlega í málið. Hefir n. fengið bréf frá landlækni, sem sýnir, að hann hefir einnig áhuga fyrir málinu. Telur hann brýna þörf fyrir slíkt hæli sem þetta. Sýnir þetta, að landlæknir vill greiða götu málsins. En hinsvegar verð ég að segja það viðvíkjandi afstöðu n., að ekki er ástæða til þess nú á þessum erfiðu tímum að ákveða með þáltill., að ríkið reisi slíkt hæli, sem enginn veit, hvað myndi kosta. Væri það í meira lagi flausturslegt af n.

Hvað þeirri rökst. dagskrá viðvíkur, sem kom frá hv. þm., sé ég ekki, að hún feli í sér aðra breyt. á okkar dagskrá en þá, að þm. vill láta fara fram undirbúning fyrir næsta Alþingi. En ég hygg ekki vera ástæðu til að taka þetta fram, því að sjálfsagt verður látinn fara fram sem beztur undirbúningur.

Hvað því viðvíkur, sem hv. þm. sagði, að hér væri verr fyrir þessum vesalingum séð en annarsstaðar, verð ég að segja, að mér þykir það ekkert tiltökumál, þótt hér sé ekki allt komið í samskonar lag og hjá öðrum þjóðum. Höfum við haft margs að gæta síðan sjálfstæðið fékkst. Ég þekki að vísu ekki mikið til meðferðar á fávitum, en í mínu héraði veit ég þó um einn, sem stundaður er með mestu ástúð, og býst ég við, að svo sé víðar um land. Þó tel ég auðvitað fulla þörf á að koma upp þessu hæli strax og ástandið leyfir. Verð ég að halda því fram, að till. n. sé nógu hörð til þess að ýta undir framgang málsins, eftir því sem ástæður eru til.