07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (3945)

448. mál, fækkun opinberra starfsmanna

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Ég held, að það hafi verið í eldhúsumr., að ég gerði þá fyrirspurn til hæstv. stj., hvort hún vildi sýna alvarlega viðleitni um sparnað á ríkisfé. Hæstv. forsrh. tók vel á þessu, en mér hefir sýnzt lítið verða úr því í verkinu. Sem dæmi má minna á það, að við 3. umr. fjárlagafrv. bárum við flm. þessarar till. fram sparnaðartillögur, sem námu rúmlega 100 þús. kr., en þær voru allar felldar með atbeina hæstv. stj. Einnig má minna á það, að afgreiðsla fjárlagafrv. hér í d. sýndist alls ekki benda á þann sparnaðarhug, sem virðist vera alveg nauðsynlegur, þegar litið er á, hvernig útlitið er framundan. Það dugir ekki að ætla sér að halda gjöldunum í svipuðu horfi og verið hefir undanfarin

4 ár. Atvinnuvegir landsins geta ekki risið undir verulegum skattauka. Um það held ég, að öllum hljóti að koma saman. Útgjöldin verða að lækka til stórra muna. Þessi hv. d. hefir gert lofsverðar tilraunir í þá átt, og hæstv. fjmrh. einnig í frv. sínu til fjárlaga, en þó er alls ekki nóg að gert. Enn vantar mikið, en þó kannske allra tilfinnanlegast, að hæstv. stj. sýni sparnað í framkvæmdum sínum, sparnað í framkvæmdinni á rekstri ríkisbúskaparins. Á þessu veltur ósegjanlega mikið. Á þessu veltur í raun og veru hagur ríkissjóðs að mjög miklu leyti. Sparnaði er ákaflega víða hægt að koma við, og eyðslu er alltaf hægt að koma við. Þingið er að miklu leyti máttlaust gagnvart eyðslusamri stjórn, þegar af þeirri ástæðu, að eyðslan kemur fram eftir á og flokkarnir hafa alltaf tilhneigingu til þess að halda hlífiskildi yfir sinni stjórn.

Mín skoðun er, að einhver stærsta fjármálasyndin, sem drýgð hefir verið á undanförnum árum, sé einmitt sú, að ríkisreksturinn hefir orðið óhæfilega dýr. Ég segi þetta ekki út í bláinn, heldur er það byggt á nánum kunnleika mínum vegna yfirskoðunar landsreikninganna. Sem dæmi má nefna, að dómgæzla og lögreglustjórn kostaði 1926 um 930 þús. kr., en 1930 tæplega 1½ millj. kr., að til kirkju- og kennslumála fór 1926 rúmlega 1600 þús. kr., en 1930 um 1900 þús. kr., að skrifstofukostnaður lögreglustjóra og bæjarfógeta í Reykjavík var 1926 rúmlega 136 þús. kr., en 1930 var kostnaður tilsvarandi embætta yfir 250 þús. kr., að fyrir aukavinnu í stjórnarráðinu var greitt 1928 um 28 þús. kr., 1929 tæp 40 þús. kr. og 1930 tæp 65 þús. kr. Margt fleira mætti nefna, en ég kæri mig ekki um það í þessu sambandi. En yfirleitt er það svo, að á undanförnum árum hefir engrar sparsemi verið gætt í rekstri ríkisins, og skipta þær upphæðir, sem vel hefði mátt spara, geysifé.

Einmitt þetta, hve lítils sparnaðar hefir verið gætt í ríkisrekstrinum, er höfuðástæðan til þess, að hv. þm. Borgf. og ég höfum borið fram till. þá á þskj. 448, sem hér er til meðferðar. Hún er í 4 liðum, og mun ég fara nokkrum orðum um hvern þeirra.

Fyrsti liðurinn er áskorun til hæstv. stj. um að fækka starfsmönnum ríkis og ríkisstofnana eins og unnt er. Við flm. erum sannfærðir um, að í þessu efni má mikið gera. Stj. hefir ekki á undanförnum árum verið sínk á stofnun nýrra embætta og opinberra sýslana. Hún hefir stofnað 10–12 ný löggæzlumannaembætti, 2 embætti við bifreiðaeftirlit, 2 við vélaeftirlit — þau eru að vísu lögð niður nú —, mörgum starfsmönnum hefir verið bætt við í stjórnarráðinu, og áreiðanlega eru allt of margir starfsmenn í ýmsum ríkisstofnunum. Sem dæmi um þetta get ég nefnt það, að einn úr útvarpsráðinu hefir sagt mér, að alveg nýlega hafi verið ákveðið þar að draga mikið úr mannahaldi og ráðgert að spara við það og ýmislegt annað sem svarar um 30 þús. kr. á ári. Þetta mætti auðvitað mótspyrnu í fyrstu, en hafðist í gegn af því að einbeittni var sýnd, og vegna þeirrar sparnaðaröldu, sem nú er risin.

Ég er sannfærður um, að miklu víðar má spara, og það í stórum stíl, ef viljinn er góður. Engin tiltök eru að nefna allt slíkt í stuttri þingræðu. Þó vil ég nefna örfá dæmi af þeim, sem mér er kunnugt um.

Á Þingvöllum hefir verið skipaður gæzlumaður, og býr hann í hinu veglega, nýreista húsi þar, sem annars enginn veit, til hvers á að nota. Mér er sagt, að maður þessi hafi í laun 6000 kr. á ári, og starf hefir hann lítið eða ekkert, nema ef vera skyldi eitthvert eftirlit sumarmánuðina meðan gestir eru, svo að þetta er sennilega náðugasta og bezt launaða embættið á landinu. Þetta starf verður að leggja niður nú þegar, enda er ekkert fé ætlað til þessa í fjárlögum. Það er til skammar að heimta af skattþegnum landsins, að þeir borgi annað eins og þetta.

Nú er mér sagt, að við vínverzlunina sé sérstakur maður, sem hafi það á hendi að semja skrá yfir lyfseðla lækna. Og það er komið hér nýtt hefti, að ég ætla tíunda hefti um þetta efni. A. m. k. stendur X á því, og ég hefi séð mörg áður. Þetta er ekki annað en skrá yfir afgreidda áfengisseðla, og fyrir að semja hana eru borgaðar, að því er mér er sagt, 170 kr. á mánuði. Og í þessari skrá eru aðeins upplýsingar, sem ég skil ekki, að nokkur lifandi maður hafi gagn af eða kæri sig um að fá. Hér er nú t. d. skrá yfir áfengi til verklegra nota, mjög nákvæm skýrsla. Ég fyrir mitt leyti skipti mér ekki neitt af því, hvort Árni Árnason, trésmiður á Sámsstöðum, hefir fengið 2 eða 3 kg. af áfengi til verklegra nota. Það er sjáanlega nokkuð misjafnt, hvað tekið er, en yfirleitt get ég ekki hugsað mér, að það sé ástæða til að vera að prenta rit um þetta. Ég sé hér, að sjálfvirka símastöðin í Reykjavík hefir fengið 22 kg. af spir. con. Ég hélt ekki, að stöðin væri tekin til starfa, en ég sé, að hún er þó farin að drekka spiritus. En mig langar ekkert til að vita þetta. (JAJ: Hún ætti nú að drekka „landa“). Síldarbræðslan „Hekla“ á Flateyri hefir fengið 32 kg., og ég fyrir mitt leyti efast ekki um, að það hafi farið í síldina. Prentmyndagerðin er langhæst, með 51 kg., og svo er þetta allt niður í fáein grömm. Þetta er auðvitað allt notað til iðnaðar, og mér finnst óþarfi að vera að safna því saman og birta á hverju ári skýrslu um það, eða oft á ári. Eða þá hvað læknar gefa út mörg recept, bæði áfengisseðla og aðra lyfseðla. Því skýrslan nær bæði yfir algenga lyfseðla og áfengisávísanir. Það er ef til vill nógu fróðlegt, því það gefur dálitla hugmynd um praksis þessara lækna að sjá, að t. d. Matthías Einarsson hefir gefið út 10 þús. lyfseðla árið 1931, en að það sé ástæða til fyrir ríkið að vera að prenta slíkt, það get ég ekki séð. Þetta eru ekki aðeins áfengislyfseðlar; það eru allir lyfseðlar.

2. liður till. er um að fella niður svo sem frekast verður við komið greiðslu fyrir aukavinnu úr ríkissjóði eða frá ríkisstofnunum. Þetta er orðað svo: „eins og frekast verður við komið“ af því, að ég viðurkenni, að það er ekki með öllu hægt að losna við að greiða fyrir aukavinnu, og ég vil ekki sýna neina ósanngirni. En ég vil ekki, að aukavinna sé borguð þannig, að á há embættislaun sé hún borguð sem uppbót, þegar það styðst ekki við nein lög og heldur ekki við neina sanngirni. En ég gæti nefnt þess dæmi, að það hefir verið gert, ef ég vildi.

3. liður till. er um að færa laun opinberra starfsmanna, sem launalög ná ekki til, í samræmi við hliðstæða flokka launalaganna, eftir því sem við verður komið og eins fljótt og samningar leyfa.

Það er afleitt, að það sé áberandi munur á launum þeirra embættismanna og starfsmanna, sem standa í launalögum, og á launum þeirra manna, sem gegna stöðum, sem nýrri eru en launalögin frá 1919. Sem dæmi þessa má nefna forstöðumann Viðtækjaverzlunar ríkisins; hann hefir 9000 kr. árslaun. Það er hærra en nokkur embættismannalaun nú, að undanskildum ráðherralaunum og launum dómsforseta hæstaréttar, ef ég man rétt.

Yfirmaður landssmiðjunnar hefir hærri laun en biskup landsins, eða 9000 kr. Í þessu er ekkert samræmi. Það er náttúrlega ákaflega hætt við, að það verði erfitt, þegar launalögin verða endurskoðuð, að koma launum embættis- og starfsmanna í það horf, sem ríkið hefir ráð á að borga, ef hægt er að benda á í þjónustu ríkisins menn, sem hafa svona há laun.

Ég skal geta þess hér, að í fjvn. bárum við flm. þessarar till., ég og hv. þm. Borgf., allar þessar till. undir n., og hún var öll á einu máli um það, að hún vildi vera með í flutningi þessara 3 till., en 4. till. vildi fjvn. ekki vera með í að flytja, og þótti okkur þá réttara, að við flyttum þær allar í einu lagi, því við vildum alls ekki sleppa 4. till., sem ég kem nú að. Hún er um að stj. leiti samninga við Eimskipafélag Íslands um að taka að sér útgerðarstjórn skipa ríkisins og leggja niður skipaútgerð ríkisins, ef viðunanlegir samningar nást.

Ég lít svo á, að það sé ekki efa undirorpið, að ef starfræksla allra þeirra skipa, sem Eimskipafélagið og ríkið eiga, væri undir sömu stjórn, þá yrði hún ódýrari. Mér er líka sagt, að hæstv. stj. eða maður úr henni hafi átt að segja, að hún hefði aldrei stofnað Skipaútgerð ríkisins, ef hún hefði vitað, hver yrði forstjóri Eimskipafélagsins. Með tilliti til þessarar yfirlýsingar, sem eftir því sem ég veit bezt, hefir komið, ég held frá hæstv. forsrh., skilst mér, að hæstv. stj. geti ekki haft neitt á móti því að leita a. m. k. samninga við Eimskipafélagið um þetta, svo það sé hægt að fá niðurstöðu um, hvaða kjör eru í boði, og reikna þannig út beina kostnaðinn við þetta, hvort hann verður ekki minni en með því fyrirkomulagi, sem nú er. En svo, þó að beini kostnaðurinn við þetta yrði ekki minni en hann er nú, lít ég svo á, að það yrði mikill annar hagnaður af því, sem liggur í því, að þá er hægt að hafa miklu meira samstarf milli þessara skipa, og það mundi minnka kostnaðinn til mikilla muna, bæði hjá ríkisskipunum og Eimskipafélaginu.

Það hefir nú verið rannsakað nokkuð þetta mál, eða kostnaðarhlið þess, að því er snertir strandferðirnar, og komið fram till. frá hv. 1. landsk. í Ed. um það. Sú till. gengur miklu lengra en þessi till., því þar er gengið út frá, að leitað sé samninga við Eimskipafélagið um að reka fyrir eiginn reikning strandferðirnar. Mér er það nú ljóst, að samningar um það mundu taka langan tíma. En ef hæstv. stj. vill leggja niður Skipaútgerð ríkisins, þá getur hún gert það. En það er bert, að þó það yrði ákveðið að láta Eimskipafélagið taka að sér rekstur strandferðaskipanna fyrir eiginn reikning, þá þarf til þess samþykki þingsins, og það tekur langan tíma. Fyrir því er það, að þó sú till. sé fram komin og þó hún verði samþ., þá er till. mín og hv. þm. Borgf. ekki óþörf.

Það er nú komið svo, að strandferðakostnaðurinn er orðinn svo mikill, að við svo búið má ekki standa. Ríkið hefir ekki ráð á slíkum geysikostnaði við strandferðir. Á það var bent áður en Súðin var keypt, að það væri fjarstæða að ætla að hafa til viðbótar strandferðum Eimskipafélagsins 2. strandferðaskip; það væri aðeins til þess að stela frá öðrum verklegum framkvæmdum því fé, sem ríkið ella mundi geta til þeirra lagt. Það er nú komið á daginn, að þetta var hárrétt, því hallinn á strandferðunum er orðinn gífurlegur. 1931 var hátt upp í hálfrar millj. kr. halli á strandferðum ríkissjóðs. En svo er ekki nóg með það. Hæstv. stj. hefir skipað eina n. enn, og nú til að rannsaka, hvað strandferðirnar mundu kosta Eimskipafélagið, og eftir því, sem n. álítur, er það ekkert smáræði, sem ferðirnar kosta Eimskipafélagið. Það eru, ef ég man rétt, milli 600 og 700 þús. kr. á ári. Sé nú gengið út frá því, þá kosta strandferðirnar yfir millj. á ári. Þetta er allt of mikið, og jafnvel þó það komi ekki allt á ríkissjóð, þá kemur það þó allt á landsmenn. Og auk þess er það svo, að ef þetta heldur svona áfram, þá geta ekki liðið mörg ár þangað til annaðhvort verður að draga til mikilla muna úr þessum gífurlega kostnaði Eimskipafélagsins, annaðhvort með því að hækka framlag ríkissjóðs til þess eða að það hætti að láta sigla á smáhafnirnar, eða, ef hvorugt verður gert, að Eimskipafélagið verður uppiskroppa og fer á hausinn, og þá verður ríkissjóður að taka við öllu saman. Þetta er það, sem blasir við, og annað ekki.

Ég fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum efa um, að það rétta í þessu máli er það, að taka allt aðra stefnu upp en verið hefir hjá núv. stj. Það verður að losa ríkið við eitthvað af skipunum, sem keypt hafa verið, og láta Eimskipafélagið taka við strandferðunum að öllu leyti, þ. e. a. s., vita að hvaða samningum er hægt að komast við það. Það fyrirkomulag verður langbezt.

Ef Eimskipafélagið tæki að sér þá afgreiðslu, sem Skipaútgerð ríkisins hefir nú, þá mundi sparast allt það húsnæði, sem hún þarf, en af því hefir Eimskipafélagið nóg. Sennilega mundi eitthvað sparast líka á fólkshaldi, en það, sem aðallega mundi sparast, liggur þó í því aukna samstarfi, sem verða mundi milli ríkisskipanna og Eimskipafélagsins, ef öll stjórn þeirra væri undir einu þaki.

Ég vil vona, að hæstv. stj. hafi ekki neitt á móti þessari till., því í till. er ekki farið fram á annað en það, að leitað verði samninga við Eimskipafélagið og þeim tekið, ef viðunandi samningar nást, en auðvitað liggur það í valdi hæstv. stj. að meta, hvort samningarnir eru viðunanlegir eða ekki. Það er ekki hægt að leggja það undir annan aðila. — Ég skal svo ekki fara um till. fleiri orðum að sinni.