07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (3950)

448. mál, fækkun opinberra starfsmanna

Jónas Þorbergsson:

Ég vildi gjarnan bera fram þau tilmæli til hv. flm. þessarar till., að ef hann kysi að ræða eitthvað um útvarpið, fjárhag þess og starfsemi, þá leitaði hann um það upplýsinga hjá mér áður en hann vekti máls á því hér í d. Ég þykist vita, þar sem hann er sanngjarn maður, að þá telji hann þetta ekki nema réttmæt tilmæli; og það er vissulega honum sjálfum fyrir beztu, því að það er óviðkunnanlegt, að þm. séu að fara með eitt og annað, tæpa á hinu og þessu, sem þeir hafa annaðhvort engar eða ófullnægjandi upplýsingar um og reynist svo rangt, þegar á herðir. Hv. þm. þóttist hafa fengið upplýsingar um það, að í ráði væri að leggja niður viðgerðarstofu útvarpsins, af því að ekki væri talið, að hún bæri sig sem stendur. Það er rétt, að það hefir komið fram till. frá einum manni í útvarpsráðinu um að leggja niður stofuna, en þessi maður hefir hvorki haft aðstöðu til að vita nógu nákvæmlega um ástand hennar né borið neitt skynbragð á þörf hennar og ætlunarverk. Stofan er stofnuð eftir till. verkfræðings útvarpsins, Gunnlaugs Briems, sem einn óhjákvæmilegur þáttur í starfsemi útvarpsins. Útvarpið er nýtt hér á landi og mjög mikill skortur á almennri þekkingu á notkun og viðgerðum tækjanna. Viðgerðarstofunni er ætlað að verða við þörfum manna og eftirspurn um eins góða og skjóta viðgerð og hægt er. Í öðru lagi er stofunni ætlað að kenna mönnum þessar viðgerðir og ala upp menn með nægilegri þekkingu til þess að setja upp sjálfstæðar viðgerðarstofur í öðrum landshlutum. Þegar notkun útvarpsins eykst og tækin eldast og ganga úr sér, eykst einnig þörfin á viðgerðum og þekkingu manna í þessum efnum. Þetta er tilgangur viðgerðarstofunnar. Hún er stofnuð af brýnni nauðsyn, en ekki í gróðaskyni. Hún hefir ekki verið rekin með ágóða og aldrei til þess ætlazt, heldur á hún að sinna sínu hlutverki og, ef unnt væri, bera kostnaðinn af því sjálf, og er ekki vonlaust, að það megi takast áður en langt um líður.

Ég ætla að taka það fram — og veit að hv. flm. er það kunnugt —, að ekki hefir verið nein tregða á upplýsingum frá mér viðvíkjandi útvarpinu. Það hefir þvert á móti alltaf verið ætlun mín, að Alþingi fengi sem allra gleggstar og nákvæmastar upplýsingar um alla viðleitni þess, starfsemi þess og allan rekstur. Ég hefi lagt mig í líma til að gera n., sem nú starfar, auðvelt að kynna sér þessa stofnun. Mér finnst því naumast „fair play“ af samstarfsmanni mínum úr fjvn., sem er þessu kunnur, að hann ekki leiti upplýsinga hjá mér um þau atriði þessa máls, sem máli skipta og ég á samkv. stöðu minni að gefa upplýsingar um, áður en hann fer með lauslegt umtal hér í hv. d. Ég mun ekki erfa þetta við hv. flm., en mér hefði þótt vænt um, að hann hefði viljað sýna þessa sanngirni.

Þá gat hv. flm. þess, að ég hefði verið honum sammála um, að það ætti að leitast við að spara við útvarpið eins og unnt væri, og væri ég þar með búinn að játa, að ekki hefði verið beitt sparnaði. Ég vil ekki fallast á þessa röksemdafærslu hv. flm. Þarna kemur fyrst og fremst til greina, að hér er um nýja stofnun að ræða, sem verið er að byggja upp frá grunni, þar sem verið er að kenna fólkinu að vinna og þar sem starfshættir og skipulag er að ráðast smám saman við aukna þekkingu og æfingu. Þegar svo háttar til, vill alltaf verða svo, meðan fólkið er ekki æft til starfsins, að meiri tími gengur til starfsins og afköst verða minni en ætlazt er til. Þetta er algengt, en með aukinni reynslu og æfingu fer vinnan fljótar fram og þá fer að verða tími til að endurskoða og athuga, hvort ekki sé hægt að færa saman og fela t. d. einum manni störf tveggja, og ég vil undirstrika það, að einmitt þetta atriði kemur hér mjög til greina hvað útvarpið snertir. Þótt nú séu talin líkindi til, að eitthvað verði hægt að spara, þarf það ekki að vera fyrir það, að ekki hafi verið reynt að spara áður, heldur hafi ekki verið ástæða til að spara á meðan fólkið var ekki eins æft í sínum störfum eins og það verður að fenginni mikilli reynslu. Í öðru lagi kemur hér til greina kreppan og þær almennu sparnaðarráðstafanir, sem nú eru á döfinni, og mikil líkindi eru til, að verði að draga nokkuð úr dagskrá útvarpsins, aðeins til sparnaðar. Það sannar heldur ekki, að ekki hafi verið sparað, þótt útvarpsráðinu og stjórn útvarpsins hafi fundizt rétt að halda uppi þessari dagskrá. Þá var miðað við aðrar ástæður, og verður vonandi unnt að draga eitthvað saman starfsemina án þess að útvarpið missi sínar vinsældir, en að það haldi áfram að vera sá þáttur í lífi þjóðarinnar, sem það er þegar að verða.

Þá gat hv. flm. þess viðvíkjandi því, sem ég sagði um laun forstjóra Eimskipafélags Íslands, að hann mundi hafa haft þessi laun hjá S. Í. S., þar sem hann var starfsmaður áður. Að fengnum upplýsingum um það skal ég geta þess, að S. Í. S. treysti sér ekki að bjóða honum sömu launakjör og honum voru boðin hjá Eimskipafélaginu, svo að þetta er heldur ekki rétt hjá hv. flm.

Ég býst ekki við, að ég þurfi að taka til máls aftur, en það var aðeins út af því, er hv. flm. sagði, að hann vildi bera þessar till. fram til þess að herða á stj. um sparnað, þangað til n. sú, sem nú er starfandi, væri búin að ljúka störfum og skila sínu áliti. Þá skal ég geta þess, að stj. var byrjuð á þessari viðleitni löngu áður en þing kom saman og löngu áður en nokkur nefndarskipun fór fram og flm. báru fram þessa till., og geri ég ráð fyrir, að hún haldi áfram þeirri stefnu, sem hún sjálf hefir tekið, og allar þær till., sem hafa verið bornar hér fram, verka að sjálfsögðu mjög hvetjandi á stj. í þessa átt. Hinsvegar sé ég ekki, að sú till., sem hér liggur fyrir, hafi neina þýðingu, þar sem í henni felst ekkert annað en það, sem þegar er tekið að framkvæma. Sé ég því ekki ástæðu fyrir þingið til að leika sér að því að samþ. aftur og aftur till. um sama efni, og held því fast við till. mína um það að vísa málinu til stjórnarinnar.