01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í C-deild Alþingistíðinda. (3953)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Jón Auðunn Jónsson:

Það stendur í 1. gr. þessa frv., að allir togarar skuli hafa fullkomin loftskeytatæki. Nú vitum við það, að á þýzku togurunum, sem eru allra togara bezt útbúnir, er hætt að hafa loftskeytatæki, en firðtaltæki tekin upp í stað þeirra. Ég kom um borð í togara frá Þýzkalandi fyrir fáum mánuðum. Ég spurði skipstjórann, hvernig þessu væri fyrir komið, og sagði hann, að í öllum togurum þess félags, sem hann vann hjá, en þeir eru yfir 100, væri hætt við loftskeytatæki, en firðtaltæki sett í þeirra stað. Og þetta væri ákaflega þægileg breyting, taltækin væru miklu ódýrari, enda mætti heita svo, að á hverri viku væru loftskeytatækin tekin úr fjölda fiskiskipa og taltækin tekin upp. Mér finnst í meira lagi undarlegt, ef Alþingi ætlar að fara að koma í veg fyrir, að nýjar og betri aðferðir verði teknar upp á íslenzkum veiðiskipum. En það er svo með þetta frv., að það var sannað fyrir mörgum árum, og sá, sem það gerði, hefir ekki lagt það ómak á sig að breyta eftir kröfum tímans, heldur flytur það óbreytt þing eftir þing. — Frá þýzka togaranum, sem ég minntist á áðan, talaði ég við 2 þýzk skip, og var annað 28 mílur suðaustur af Ingólfshöfða, og heyrðist ágætlega. Sum skip hafa meira að segja svo góð tæki, að þau geta staðið í talsambandi við Þýzkaland héðan frá Íslandi. Ég held því, að mjög sé varhugavert að samþ. frv. þetta eins og það liggur nú fyrir. Ég geri að vísu ráð fyrir því, að flm. þessa frv. muni þykja það ágætt, að íslenzk veiðiskip séu verr útbúin en þyrfti að vera, því að hann hefir alltaf sýnt, að hann vill togaraútveginn feigan. En ég vona, að enginn hv. þm. fylgi honum í því athæfi. Því að eflaust yrði þrengra fyrir dyrum smáútvegsmanna, bænda og verkalýðs, ef togaraútgerðin verður dæmd til þess að deyja út. En með þeirri stefnu, sem nú er haldið, að honum er alltaf íþyngt meira og meira, er ekki annað fyrirsjáanlegt en að hann verði að hætta.

Hv. þm. Ak. hefir glögglega bent á það, sem gerir þetta frv. að hreinasta humbugi. Enginn vafi er á því, að mikið þarf að fjölga starfsmönnum ríkisins, ef á að þýða öll skeyti milli skipa og lands. Ég hefi verið um borð í togara í stuttri veiðiför. Okkur gekk erfiðlega að finna fisk, en í 3 daga höfðum við alltaf skeytasamband við togara hér fyrir sunnan og austan land, og leið enginn hálftími svo, að við skiptumst ekki á skeytum við önnur skip um aflafréttir. Öll skipin í þessu skeytafélagi, en þau voru um 10, sögðu frá, hvað kom í hverjum drætti, hvort aflinn væri að glæðast eða þverra. Við vissum alltaf jafnsnemma og þeir hvað veiðinni leið. Mér er óhætt að segja, að á þessum þrem sólarhringum sendu þessir 10 togarar mörg hundruð skeyti, og hefði verið mikið erfiði fyrir loftskeytamennina, hefðu þeir átt að skrifa þau öll upp.

Það er ekki lítið aukið erfiði, sem lagt yrði á loftskeytamennina með því að skylda þá til að skrifa niður öll skeyti, sem þeir senda og taka á móti, og mundi slíkt tefja svo stórkostlega fyrir öllum skeytasendingum milli skipa, að ekki yrðu full not stöðvanna í skipunum. Ég verð að segja það, að ég gæti vorkennt loftskeytamönnunum, sem verða að hafa heyrnartólin á höfðinu 11–12 klukkustundir samfleytt, aðeins með mathvíldum, þó að þeim sæist yfir að bóka rétt hvert það skeyti á dulmáli, sem þeir annaðhvort senda sjálfir eða taka á móti, en undir eins og þeirri reglu er ekki fylgt og skeytin verða öðruvísi í afriti en þau voru í raun og veru, er dómsmrn. þar með gefin ástæða til að hafa grun á þessum skipum og þá banna heim að nota loftskeytatækin. Það má búast við því, og ég hygg enda, að það sé meiningin með þessu frv., að sett verði á stofn mann mörg skrifstofa, sérstakir hlustendur, sem reyni að taka skeytin milli skipanna, og slíkt má nokkurnveginn takast, ef 10 –20 menn eru á þessari skrifstofu, og strax og þannig yrði hægt að staðreyna misritun skeyta milli skipanna, getur dómsmrn. svipt slík skip loftskeytatækjunum, ef því býður svo við að horfa. Nú vita allir, hversu feikilega þýðingu loftskeytatækin hafa fyrir veiðar skipanna. Muna allir hinir eldri sjómenn, að skipin urðu oft að leita 4–5 daga og jafnvel upp undir viku að fiski án þess að finna, áður en loftskeytin komu til sögunnar, af því að önnur skip, sem fundið höfðu aflann, gátu ekki látið vita um, þó að þau vildu. Ég þykist og vita það, að enginn gangi þess dulinn, að hæstv. dómsmrh. mundi gripa fegins hendi öll tækifæri til að svipta skipin loftskeytatækjunum. Ég hefi heyrt það frá einum af skóssveinum hæstv. dómsmrh., að nú væri stjórnarflokkurinn búinn að taka fram fyrir hendur hæstv. dómsmrh. um skipun nýrra embætta og starfsmanna, en flokksmenn ráðh. hafa áreiðanlega ekki séð í gegnum hann, þegar þeir lofuðu að fylgja þessu frv. „Hann vissi, hvað hann gerði hann Jónas“. Með frv. er honum búðin opin leið til að ráða 15–20 nýja starfsmenn til eftirlits í þessum efnum, og þarf ekki að efa, að þær upphæðir, sem til þessara manna rynnu, yrðu ekki neitt smáræði, er tímar líða fram. Ef menn annars eru svo auðtrúa, að þeir trúi því, að með þessu frv. verði unnt að koma í veg fyrir eitthvað af lögbrotum landhelgiveiða, ættu þeir a. m. k. að treysta landssímastjórninni til að fara með eftirlitið og leggja framkvæmdir þessara mála undir hana. Hitt er hið mesta óráð, eins og enda allir hljóta að sjá, þegar þeir er bent á það, að gefa manni eins og dómsmrh. með þessu átyllu til að svipta andstæðinga sína því notagildi, sem loftskeytin hafa fyrir veiðar skipa þeirra. Ég hefi sagt hér frá því áður, að á skipi, sem ég er útgerðarstjóri fyrir, hafi loftskeytamaðurinn búið sér til firðtalsáhald, og er hann var að reyna þetta áhald, fékk hann mann á Ísafirði til að hlusta eftir firðtali frá sér. Héldu sumir, að þetta væru boðsendingar til útgerðarinnar, og andstæðingablað mitt á Ísafirði bar mér það á brýn, að ég hefði látið smíða þetta áhald í því skyni að geta sent skipið inn í landhelgina, og gekk það svo langt í þessum rógi sínum, að ég neyddist til að stefna ritstjóranum vegna útgerðarinnar og fá ummælin dæmd dauð og ómerk og ritstjórann sektaðan. Þessi loftskeytamaður var að reyna að finna nýja leið til að búa til ódýr firðtæki, og þó að hann gæti að vísu ekki talað óraleiðir með þessu tæki sínu, sem hann hafði algerlega búið til sjálfur og ekki kostaði nema um 400 kr., gat hann samt láatið heyra til sin frá Halamiðum allt austur til Þórshafnar á Langanesi. Átti hann oft samtal við Esju og Gullfoss álíka leiðir, og heyrðist svo vel í tækinu, að farþegarnir heyrðu jafnvel samtalið út á þilfar, og gerði það oft mikla lukku, því að hann var þá stundum að skýra frá því á sjómannamáli, sem í botnvöpuna hefði komið í það og það skipti. Hæstv. dómsmrh. hefir farið eins í þessum efnum Hann hélt í upphafi, að loftskeytin væru mikið notuð í óleyfilegum tilgangi, en ég er sannfærður um, að hann hefir nú fengið þær upplýsingar í þessu máli, að hann veit, að þetta er ekki rétt. Ég veit það, að flest eða öll íslenzk skip eru nú hætt að fara í landhelgina, og mig undrar þetta ekki, því að áhættan er svo mikil, að það má kalla helbera heimsku að ætla sér að fara í landhelgina, ef hún er varin, svo sem nú er hægt með þeim skipakosti, sem við höfum yfir að ráða, og jafnvel þótt ekki væru nema 2 skip við gæzluna, enda ætla ég, að öllum sé ljóst, af hverjum rótum þetta frv. er runnið.

Ég sé, að klukkan er farin að ganga tvö, og vil því beina því til hæstv. forseta, hvort og á að halda áfram ræðu minni, en ég á allmikið eftir af henni enn, eða hætta nú og geyma mér niðurlagið þar til síðar, og kysi ég það heldur, til þess að ég gæti náð til fleiri þm. en nú eru hér staddir með orð mín, og þá ekki sízt hæstv. dómsmrh., sem hefir ekki látið sjá sig hér í deildinni nema rétt í byrjun ræðu minnar.