11.04.1932
Neðri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í C-deild Alþingistíðinda. (3964)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Mér finnst rétt að segja fáein orð um þetta mál innan um hinn langa vaðal íhaldsmanna, þótt engin þörf sé á því málefnisins vegna, því að það er öllum ljóst. — Íhaldsmenn vilja nú fyrir hvern mun koma þessu frv. fyrir kattarnef, og aðferðin, sem þeir ætla sér að beita, eru ekki rök á móti málinu, því að þau hafa þeir ekki til, varla heldur atkvæðamagn, því að það brestur þá líka, heldur málþóf. Mér finnst því rétt, að það sjáist í Alþt., að meðhaldsmenn malsins nota svo sem 5–10 mínútur til andsvara gegn hverjum 3–4 klst., sem þeir taka fyrir sínar ræður. Meira held ég að við þurfum ekki, enda viljum við ekki hjálpa íhaldsmönnum með því að ýta undir málþófið og gera það réttlætanlegra fyrir þá. Í þessu máli liggur það nú orðið ljóst fyrir, að það eru eingöngu eigendur togara og viljalaus eða keypt verkfæri þeirra, sem mæla gegn þessu frv. Það eru þeir hv. þm. N.-Ísf., hv. þm. G.-K., hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. Vestm., sem líka er á nokkurn hátt riðinn við togaraútgerð. En aðrir láta sig þetta litlu skipta, og t. d. hv. þm. Borgf., sem þó er harðvítugur flokksmaður, hefir aldrei tekið til máls í þessu máli til andmæla því, svo að ég muni. Og þó að hann mæli ekki heldur þeim í gegn, þá getur það verið af eðlilegri kurteisi við flokksbræður sína. Það má því slá því föstu, að það eru eingöngu þeir íhaldsmenn, sem sérstaklega eru við togaraútgerð riðnir, sem berjast móti þessu frv.

Því hefir nú fyrr og síðar verið lýst af íhaldsmönnum sjálfum, hvernig íslenzku togararnir hegðuðu sér. Hv. þm. Borgf. hefir sagt hér í þessari deild, að það væru þeir, sem færu á undan í landhelgina, og að svo eltu útlendu togararnir þá Ágúst Flygenring sagði, að íslenzku skipin leiðbeindu útlendu skipunum inn í landhelgina, og hv. þm. Snæf. og fleiri hafa lýst þessu á sama hátt. Þetta sýnir, að íslenzku skipin hafa forgönguna um landhelgiveiðar. Það má að vísu segja, að það sé þekkt mannlegt eðli, sem kemur fram í því, að togaraeigendur vilja halda í þetta ástand. En umsögn þeirra manna, er ég nefndi, er góð sönnun til viðbótar við hinar löngu ræður, að þeir vita sig seka. Eftir að varðskipum var fjölgað og landhelgigæzla batnaði, sem hvorttveggja hefir orðið í tíð núv. stj., má segja, að ekki sé nema einu þráður eftir, sem tengi hin brotlegu skip við landhelgina. Sá þráður er loftskeytanotkunin. Sú skipun, sem hér er lagt til, að verði gerð í loftskeytanotkuninni, er hið einasta, sem nú er hægt að gera til viðbótar því, sem áður hefir verið gert til verndar fiskimiðum hinna dreifðu sjávarþorpa. Mér finnst hv. þm. N.-Ísf. í þessu máli gleyma sínum kæru fiskistöðvum þar vestra, Hnífsdal, Bolungavík og Jökulfjörðunum. Hann man aðeins eftir togurum sínum.

Ég hefi tekið með mildi á þessari baráttu hér. Það má segja, að baráttan um landhelgiveiðarnar sé flutt úr landhelginni og inn í þingið. Nú er orðið erfitt um landhelgiveiðar togaranna, nema þá í náttmyrkri, og þegar þeir vita, hvar varðskipin eru, fara þeir inn með breitt yfir nafn og númer. Og einnig hér í þinginu er hv. þm. N.-Ísf. á flótta, ásamt öðrum togaraeigendum, með breitt yfir nafn og númer, þar sem þeir telja sig vilja vernda landhelgina, enda þótt ræður þeirra beri vott um annað. Ég skal nú ekki um það segja, hvort. heim tekst með málþófi sínu að hindra framgang þessa máls á þessu þingi. En það mega þeir vera vissir um, að eftirlit með loftskeytanotkun togara, til þess að fyrirbyggja, að þau séu notuð til að beina togurunum inn í landhelgi, mun verða lögtekið fyrr eða síðar.

Eftir því, sem hert verður á landhelgivörnum, minnka og landhelgiveiðar erlendra togara. Áður fyrr, þegar útlendu togararnir sáu, að íslenzku togararnir fiskuðu mikið í landhelgi án þess að vera teknir, þá var það almenn skoðun útlendinga, að íslenzku stj. leyfði heim að veiða í landhelgi. Stj. var kennt um það, sem loftskeytin voru völd að. Þetta var vitanlega hin mesta hneisa fyrir Iandið og felldi skugga á hið íslenzka ríki, skugga, sem útgerðarmennirnir íslenzku voru valdir að með loftskeytanotkun sinni.

Allt, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði, var á engum rökum byggt. Og í rakaleysi sínu komst hann jafnvel svo langt að segja það um hina íslenzku útgerðarmannastétt, sem hann sjálfur telst til, að ekkert væri að marka drengskaparvottorð hennar. Vann hann það til, til þess að geta fært þau rök gegn þessu frv. Hitt held ég, að sé sönnu nær, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, að þeir mundu almennt ekki vilja brjóta gefið drengskaparvottorð, og að einmitt á því byggðist mótstaða þeirra gegn frv. Hv. þm. N.-Ísf. sagði reyndar, að erfitt væri að komast hjá því að brjóta þetta drengskaparvottorð. En sá erfiðleiki er ekki til, ef engin löngun er til þess að syndga gegn landhelgilögunum. Og sé sá vilji ekki til, þá er vitanlegt, að það er engum erfiðleikum bundið að gefa drengskaparvottorð. Ég hefi áður sýnt fram á það, að drengskaparvottorðið getur aldrei hindrað það, að heiðarlegur útgerðarmaður geti notað loftskeytin til gagns fyrir atvinnu sína.

Hv. þm. N.-Ísf. reyndi að sýna fram á, að framkvæmd þessa frv., ef að l. verður, fylgdi mikill kostnaður. Nú veit hv. þm. það, enda stendur það í frv., að loftskeytamenn á varðskipunum geta fylgzt með þeim skeytum, sem send eru, og borið þau saman við bókfærð skeyti togaranna. Kemur þá í ljós, hvort eitthvert skip er að reyna að senda skeyti utan við, án þess að bókfæra þau. Það hafði geysileg áhrif á landhelgiferðir togaranna, þegar sú ráðstöfun var gerð, að send voru skeyti á dulmáli úr ýmsum verstöðvum hingað til Rvíkur um landhelgiveiðar togaranna. Það brá svo við, að togararnir fóru minna í landhelgi eftir það.

Það þarf vitanlega ekki að kryfja öll skeyti til mergjar, og loftskeytamennirnir á varðskipunum geta gert talsvert af því, sem gera þarf fyrir landsstj. í þessu efni, án aukins kostnaðar. Og það þarf áreiðanlega ekki aukna vinnukrafta til þessa eftirlits. Fólkið, sem vinnur á ritsímanum, og loftskeytamennirnir á varðskipunum geta gert þetta. Ég veit að vísu ekki, hvað íhaldsstj. myndi gera. Það er að heyra á heim íhaldsmönnum, sem talað hafa, að þeir telji þetta mikið verk. En fyrir mér hefir það aldrei vakað, að miklu þurfi til þessa að kosta. Þar sem mér, eins og hv. þm. hélt, gengur engin glettni eða ertni til að flytja frv. þetta, þá hefi ég, til þess að sýna, að mér er full alvara, hugsað mér að tala við n. fyrir 3. umr. um að breyta einu atriði, sem sé því, hvenær beri að taka hinn frjálsa rétt af skipum til skeytasendingar. Hv. þm. var að vísu að tala um, að það ætti eftir frv. að taka allan rétt af grunuðum skipum til skeytasendinga. Slíkt þykir hv. þm. hentugt að segja, þegar hann er að halda uppi málþófi. En samkv. frv. mega skipin vitanlega halda áfram að senda skeyti, en þau skeyti verða undir sérstöku eftirliti. En hv. þm. gerði ráð fyrir því, að ég mundi nota þetta of mikið, ég væri svo duglegur að framkvæma hlutina. Nú er ráð mikið hrós, sem í því felst hjá hv. andstæðingum þessa frv., að ég muni hafa framkvæmd laganna til lengdar og að ég sé duglegur. En ég get sagt þeim það, að ég miða frv. þetta alls ekki við það, hvort ég sit lengur eða skemur í stj., né heldur hitt, hvort ég er duglegur eða ekki. Ég miða einungis við það, að frv. þetta verði að gagni hjá hvaða stj. sem er, þótt ég hinsvegar viðurkenni, að gagnið að þeim myndi verða minna hjá stj., sem skipuð væri íhaldsmönnum og því væri það togaraeigendum. Ég hefi hugsað mér að leggja til við nefndina, að réttur stj. til að setja sérstakt eftirlit með skeytum hinna grunuðu skipa gilti aðeins til bráðabirgða í hvert sinn, þannig að úrskurður stj. félli úr gildi, ef hann væri ekki staðfestur af meiri hl. sjútvn. á næsta þingi, eftir að þær hefðu átt kost á að kynna sér malavöxtu. Það er engin ástæða til þess fyrir stj. að halda í leyfið til að taka þennan rétt af skipum, ef þingið vill ekki fallast á það í hverju tilfelli. Enda þótt stjórnin hafi rétt fyrir sér, en þingið ekki, þá er ekki ástæða fyrir stj. til þess að halda uppi betri vörnum fyrir landhelgina en þingið vill vera láta, og því er rétt að skjóta því undir úrskurð Alþingis. En það veit hv. þm. N.-Ísf. eins vel og ég, að til eru brotlegir togarar í þessu efni. Og þá ætti hann líka að fallast á það, að rétt sé að takmarka rétt þeirra til loftskeytanotkunar. Mitt eina sjónarmið með því að fá lög um þetta efni samþ. er trú mín á því, að þau geri gagn. Og ég vil ganga sem bezt frá þeim, til að þau komi að sem mestum notum við að verja landhelgina ágengni togaranna.

Ég vil að lokum benda hv. þm. N.-Ísf. og öðrum andmælendum frv. á, að þeir styðja þetta mál með engu meiru en því að halda hér uppi málþófi með löngum ræðum og ofbeldisfullum athöfnum, sem bólað hefir á, en ég hefi vitanlega ekkert á móti því, að þeir færi þannig fram vörn hins seka, úr því að þeir finna svo mikið til öryggisráðstöfunar eins og þessarar.