11.04.1932
Neðri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í C-deild Alþingistíðinda. (3965)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Ólafur Thors:

Það er búið að ræða þetta mál allmikið. Hv. þm. N.-Ísf. og hv. þm. Vestm. hafa nú tekið fram flest af því, sem ég álít nauðsynlegt, að fram komi í þessu máli. Ég minntist sjálfur nokkuð á málið við 1. umr., og hefi einnig flutt eina ræðu við þessa umr. frv., og þarf ég litlu við það að bæta. Ég vil þó ekki láta hjá líða að minnast nokkuð á tvær gr. frv., sem hæstv. dómsmrh. gerði sjálfur að umtalsefni.

Önnur gr. er 4. gr., þar sem svo er fyrir mælt, að eftirlit skuli hafa með skeytaviðskiptun milli lands og veiðiskipa annarsvegar og milli veiðiskipanna hinsvegar. Hv. þm. Ak. hefir sýnt fram á, að ef þetta á að vera meira en rétt á pappírnum, þá verða 12–16 menn að vinna 8 st. á dag allan ársins hring, ef á að hafa eftirlit með öllum þessum skeytum. Nú þegar hæstv. ráðh. kemur og segir, að ekki þurfi að óttast stofnun embætta í þessu skyni, þá vil ég bara benda á fortíð þessa hæstv. ráðh., sem í heimildarleysi hefir stofnað hvern bitlinginn á fætur öðrum til þess að kaupa sér fylgi. Hverjum dettur í hug, að hann lati undir höfuð leggjast að hagnýta sér það, sem má kalla lögheimild til þess að koma þessum skoðanabræðrum sínum að jötunni? Það vita allir, að ef þetta verður lögfest, þá verður það notað og — misnotað. Það vita allir, sem þekkja embættisferil hæstv ráðh.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um 6. gr. frv. Þar er svo fyrir mælt, að ráðh. geti tekið afnotarétt loftskeyta af veiðiskipum, ef honum þykir grunur liggja á, að skipin hafi misnotað þau. Þó að ég treysti því, að tími hæstv. dómsmrh. í valdasessinum fari nú að styttast, þá skal ég því ekkert segja um slíkt fyrr en orðið er. Og ég veit, að allir, sem þekkja hugarfar hans til andstæðinga sinna og hans mikla virðingarleysi fyrir lögum og rétti, eru þess fullvissir, að þessi heimild verður misnotuð af honum, ef hún verður lögfest.

Í þessu sambandi vil ég skýra frá smáatriði, sem kom fram gagnvart mér frá hendi þessa hæstv. ráðh., sem bendir til, hvernig hann mundi nota þessa heimild. Fyrir nokkru stefndi ég ritstjóra Tímans út af illmælum um mig. Fyrsta málið, sem ég höfðaði, var út af því, að ritstjórinn sagði, að ég í pólitískum tilgangi hefði gerzt valdur að því, að sérfræðingur í geðsjúkdómum hefði talið ráðh. ósjálfráðu gerða sinna. Þetta mál fór svo, að undirrétturinn, þ. e. a. s. Björn Þórðarson lögmaður, dæmdi ritstjórann til að greiða háa sekt og málskostnað og ummælin dauð og ómerk. Samtímis höfðaði ég annað mál gegn þessum ritstjóra fyrir önnur illmæli, sem ég hygg, að hann hafi reyndar minnst skrifað af sjálfur, heldur hafi hann látið nafn sitt undir þessi skrif, en hæstv. dómsmrh. hafi skrifað það sjálfur. Nú vildi ég sjá, hverjar undirtektir dómurinn í fyrra meiðyrðamalinu fengi í hæstarétti, og eftir því ætlaði ég að taka ákvörðun um áfrýjun síðara meiðyrðamálsins á hendur ritstjóranum. Nú eru það lög, að ef dómi undirréttar er ekki áfrýjað innan viss tíma, þá verður að sækja um leyfi til þess til dómsmrh., og það hefir verið algerlega óbrotin venja allt frá öndverðu að veita þetta áfrýjunarleyfi. Umsóknin hefir eingöngu verið skoðuð sem formsatriði og aldrei komið fyrir, að dómsmrh. hafi neitað nokkrum manni um þennan rétt. Þegar nú dómur hæstaréttar féll í fyrra malinu, var svo langt liðið frá uppkvaðningu undirréttarins í síðara málinu, að ég þurfti að sækja um slíkt leyfi, og með því að hæstiréttur herti á dómi undirréttarins meiðyrðin, gerði ég það. En þegar málflutningsmaður minn fer fram á, að þessi heimild verði veitt, sem hefir einungis verið formsatriði, að leita megi álits hæstaréttar um illmæli, sem dómsmrh. hafði sjálfur haft um einn alm. landsins, þá er þessi regla brotin í fyrsta skipti. Hvað segja nú menn um slíka notkun ráðherravaldsins? Hvert traust geta menn borið til þess ráðh., sem brýtur þannig íslenzkar réttarvenjur og neitar alþm. um, að hann fái að leita til hæstaréttar vegna illmælis, sem hæstv. ráðh. sjálfur hefir látið frá sér fara? Ég segi því: Fortíð þessa manns spáir illu um framtíðina. Það er ekki óhætt að fela honum það vald, sem á að gefa honum samkv. 6. gr.

Ef það verður gert, þá megum við, sem erum í andstöðu við þennan hæstv. ráðh., vænta þess, að afnotaréttur loftskeyta verði tekinn af skipum okkar, ekki til að gera okkur atvinnutjón, heldur til að reyna að gera okkur vansæmd.

Hæstv. ráðh. segir, að við útgerðarmenn sönnum sekt okkar með því að andmæla þessu frv. En er það ekki von, að við andmælum slíku frv. sem þessu? Hver ætti að vera réttkjörnari til þess en við? Ég veit ekki betur en að það sé föst venja, þegar áhugamál bænda eru til umr., að þá rísi bændur upp og segi álit sitt. Og það er alveg hliðstætt með mál sjávarútvegsins. Það er eðlilegast af öllu eðlilegu, að sjávarútvegsmenn flytji ræður um þau mál, þegar þau eru til umr. Það er ekki nema eðlilegt, þegar mál eins og þetta er hér á ferðinni, að við rísum upp og köllum á hjálp löggjafanna til að afstýra því, að leidd verði í lög þau ákvæði, sem má misbeita. Ég vil því segja það, að hvað sem verður um þetta frv., þá er það skylda allra þm. að nema burt þessa heimild 6. gr. úr frv. Það er ekki heldur laust við, að hæstv. ráðh. finni, að það er hæpið að fela honum slíkt vald. Ofurlítill iðrunarvottur sást hjá honum þegar hann stakk upp á, að sjútvn. beggja d. skyldu vera látnar dæma um, hvort þessu væri ekki misbeitt. Hann fann, að það þurfti að hafa einhvern hemil gegn misbeitingu þessa valds, viss hæstiréttur til að nema úr gildi þá dóma, sem hann felldi í þessum efnum. En ráðh. ætlast til, að þingið dæmi eftir á, og það er mikilvægur galli. Þess eru mörg dæmi, að flokksmenn þessa hæstv. ráðh. kveinka sér við eftir á að rísa gegn afbrotum hans, þó að þeir séu fyrirfram reiðubúnir til að hindra, að þau verði framin.

Ef setja á önnur fyrirmæli um þetta en þau, sem nú gilda í íslenzkum lögum, þá væri skynsamlegra að hafa þau þannig, að ekki mætti svipta skipin rétti til skeytanotkunar nema fyrirfram væri fengið til þess samþykki sjútvn., og er það þó, að ég hygg, ekki næg trygging þess, að rétt sé ráðið, m. a. af því, að hér á þingi kemur það oft fyrir, að flokkapólitík ræður eins miklu a. m. k. eins og réttlætistilfinningin.

Ég hefi alltaf haldið því fram, og ég er enn sannfærður um, að það er rétt, að þetta frv. nær ekki þeim tilgangi að koma í veg fyrir landhelgiveiðar, ef það hefir þá verið tilgangurinn. Það byggi ég m. a. á því, að erlendir togarar geta haft hér öll þau skeytaviðskipti, sem þeir óska eftir. Ef það hefir við rök að styðjast, sem hæstv. ráðh. segir, að einn togarinn leiði annan í landhelgina, þá er augljóst, að ekkert er því til fyrirstöðu, að forustusauðurinn sé erlendur. Ef íslenzkir togarar vilja. brjóta löggjöfina, þá geta þeir gert það eftir leiðbeiningum frá erlendum skipum, óhindrað af ákvæðum þessa frv., því að erlendu skipin mega fá hvaða skeyti sem er frá mönnum hér á landi.

Án þess að vilja endurtaka þau rök, sem ég bar fram í fyrri ræðu minni, vil ég minna á, að enginn hefir fært ein, ótvíræðar sönnur á sakleysi útgerðarmanna í þessu efni eins og hæstv. dómsmrh. hefir gert í grg. þessa frv. árið 1931, Þar sem hann segir frá, að kvartanir hafi komið frá Ólafsvík, Sandi og úr Gullbringu- og Kjósarsýslu um veiði í landhelgi þar framundan, á öðrum staðnum tvisvar, en á öðrum þrisvar sinnum. Þar tekur hann fram, að skipin hafi getað fengið upplýsingar annarsstaðar frá en frá útgerðarmönnum, þegar svo hagar til, að útgerðarmenn geta mjög oft vitað, hvar varðskipin eru, en samt fá togararnir upplýsingar eingöngu í þau skipti, sem ráðh. sannar, að þær séu frá öðrum komnar, þá liggur það í augum uppi, að engar líkur eru fyrir rógburði ráðh. um, að útgerðarmenn beini skipunum í landhelgi. Þessi frásögn hæstv. ráðh. eru þær sterkustu líkur, sem hægt er að koma með fyrir sakleysi útgerðarmanna í þessu efni.

Tilgangur hæstv. ráðh. með þessu frv. er enginn annar en sá, að svívirða pólitíska andstæðinga. Hann hefir aldrei borið landhelgina fyrir brjósti. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að þegar hann er að gorta af því hér í d. að hann og hans flokkur hafi átt frumkvæðið að því, að landhelgigæzlan hafi verið aukin, þá er hæstv. forsrh. að skýra frá því, að við sjávarútvegsmenn, andmælendur þessa frv., hefðum á undanförnum árum kúgað framsóknarmenn — eins og hann orðaði það — til að auka á eyðslu og útgjöld. Og sem dæmi um það nefndi hann fjölgun strandvarnarskipanna. Þessa yfirlýsingu gefur hæstv. forsrh. í sömu andránni og hæstv. dómsmrh. er að hæla sér af því, að hann hafi tekið þessi mál sérstaklega upp á sína arma. Eins og allir vita, þá er það alveg rétt hjá forsrh., að sjálfstæðismenn hafa verið aðalhvatamenn um byggingu varðskipanna, því að þeir vita, að það er það eina, sem dugir gegn landhelgiveiðum. En svo þegar búið er að leggja í þann mikla kostnað að byggja eða kaupa þessi dýru varðskip, þá tekur hæstv. ráðh. þau frá landhelgigæzlunni til ýmissa alóþarfra snattferða í þágu sína og sinna vildarmanna. Síðan kemur hann og lætur í ljós þá miklu þörf til að vernda landhelgina og ber fram frv., sem hann reynir að telja mönnum trú um, að reynist óbrigðult til þess, en er ekkert nema tilraun hræsnarans til að hylma yfir sitt hugarfar, og vottur um iðrun syndarans til að gera þá allra lítilfjörlegustu bót fyrir hina miklu misnotkun varðskipanna, sem kosta ríkissjóð 800 þús. kr. á ári.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en vænti aðeins þess, hver sem endanleg afgreiðsla þessa frv. verður, að hv. þdm. telji sér skylt að gera breyt á 4. gr. og þó einkum á 6. gr.

Að endingu vil ég svo bæta því við, að þótt frv., grg. þess og málflutningur hæstv. ráðh. sé til mikillar minnkunar, þá er það þó ekki meiri hneisa en að verða að hafa hann fyrir ráðh.