11.04.1932
Neðri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í C-deild Alþingistíðinda. (3966)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Það hafa orðið svo miklar umr. um þetta mál, að ætla mætti, að þeim færi nú að verða lokið. Ég mun því takmarka ræðutíma minn sem mest.

Mér er að vísu margt það gleymt, sem mælt var við fyrri hluta umr., enda verð ég að segja, að það væri helzt of mikil viðhöfn við margt af því, sem hv. frsm. minni hl. bar hér á borð, að svara því orði til orðs. Nú hefir að vísu hv. þm. N.-Ísf. tekið upp margt af þessu, en hann hefir talað um það nokkuð á annan veg, dregið saman og vinzað úr það, sem honum þótti þurfa að leggja mesta áherzlu á.

Í öllum þessum orðaflaumi eru það í raun og veru fjórar aðalástæður, sem fluttar eru gegn frv. af mótstöðumönnum þess. Í fyrsta lagi það, að lögin frá 1917 um rekstur og notkun loftskeytastöðva sú einhlít til að girða fyrir misnotkun loftskeyta. Þessu hefir verið svarað hvað eftir annað og sýnt fram á, að svo er alls ekki.

Í öðru lagi er því haldið fram, að afhending dulmálslykla þeirra, sem notaðir eru milli skipa og milli skipa og lands, sé þýðingarlaus, vegna þess, að búa megi til dulmál á hverjum tíma og fara þannig utan um það dulmál, sem tilkynnt verður. Þessu hefir einnig verið svarað og sýnt fram á, að slíkt er í raun og veru ekkert nema almenn yfirlýsing þess, að ekki megi treysta drengskap og ráðvendni þeirra, sem að þessum skeytum standa.

Í þriðja lagi er því haldið fram, að það drengskaparheit, sem gefa verður eftir 4. gr. frv. um hvert skeyti, sem sent er, muni ekki heldur geta að liði orðið, því að sendendur muni jafnvel ekki horfa í að gerast eiðrofar í þessum efnum, ef því væri að skipta og þeir sæju sér hag í að falsa drengskaparheitin. Þetta virðist mér svo óheyrileg getsök, að undrum sætir að heyra það margendurtekið í þessum sal. Ég fór nokkrum orðum um þetta síðast þegar ég reifaði þetta mál, og þarf því ekki að vera margorður um það nú. Ég treysti því fyllilega, að þetta hvorttveggja, afhending dulmálslyklanna og drengskaparheitið hafi hin mestu áhrif til bóta. Ég treysti því, að allur þorri manna ræki loforð sín vel og drengilega. Það eru að sjálfsögðu undantekningar til með einstök varmenni, sem hvorki virða orð né eiða. Þær hafa til verið á öllum öldum, og hæfir ekki að leggja mælikvarða eiðrofanna á almenning allan í þessum efnum. Ég vil ekki hugsa mér allan fjölda þeirra manna, sem þessi skeyti hafa með höndum, eins og siðspjallaðan þorparalýð.

Auk þessara þriggja aðalatriða er því einnig haldið fram, að af framkvæmd þessara laga muni leiða svo mikinn kostnað, að varla megi rönd við reisa; það þurfi heilan hér eftirlitsmanna til að rannsaka skeytin, tína saman og bóka allt, sem þarna fer á milli o. s. frv. Einnig hefir það verið tekið fram í þessu sambandi, að þetta muni hafa hinn mesta kostnað og álögur í för með sér fyrir útgerðina.

Það má auðvitað margt um þetta segja, en engin ástæða er til að taka þessar viðbárur alvarlega. Eftir frv. er gert ráð fyrir, að loftskeytastöðvarnar í landi og á varðskipunum bóki, eftir því sem atvik leyfa, skeyti, sem send verða milli skipa og milli skipa og lands. Það er því engin ástæða til að gera ráð fyrir fjölgun eftirlitsmanna í sambandi við þetta starf. Eftirlitið verður falið þessum stöðvum svo sem þeirra starfstími og kringumstæður leyfa. Það er að vísu ekki útilokað, að heimtað yrði meira eftirlit en haft hefir verið að undanförnu um skeytasendingarnar, en öfgar tómar eru það, að hér manna þurfi til þessa eftirlits. Yfir höfuð að tala eru allar þessar viðbárur þess eðlis, að auðfundið er, að annað veldur mótspyrnunni en það, setu látið er í veðri vaka af mótstöðumönnum. Þetta hefir ljóslegast verið tekið fram nú nýlega í ræðu hæstv. dómsmrh., og finn ég enga ástæðu til að endurtaka orð hans.

Hnútukast það, sem orðið hefir í sambandi við þetta mál, mun ég ekki taka til meðferðar. Ég kippi mér ekki upp við þau smávægilegu olnbogaskot, sem hv. frsm. minni hl. og hv. þm. N.-Ísf. sendu mér. Ég þykist standa jafnréttur fyrir því, þótt þeir kalli mig auðsveipan skósvein dómsmrh. eða beini til mín öðrum slíkum köpuryrðum. Ég firtist ekki við svo innantóm orð. Það er og harla fátækleg vön í þeirra máli að dylgja um það, að ég fyrir elli sakir og afturfarar muni ekki bera skyn á þessi mál eða geta með þau farið. Ég ann þeim vel ánægjunnar af því að trúa þessu og byggja á því. Hinsvegar vil ég minna hv. frsm. minni hl. á það, að ef hann skyldi ná þeim aldri, sem ég hefi náð — og allar líkur benda til þess, að svo verði —. þá muni hann finna, að þótt ellin smám saman lami líkamsþróttinn, þá auðgar hún menn oft að reynslu og skilningi, jafnframt því að glæða hæfileikann til þess að draga réttar ályktanir af reynslunni.

Ég vil út af því, sem fram kom hjá hæstv. dómsmrh. um fyrirhugaða breyt. á 6. gr. frv. taka það fram, að með þeim hætti teldi ég, að frv. yrði í framkvæmd betra og líklegra til að ná settu marki og verða að gagni.

Af því að ég vil styðja að því eftir getu, að þetta mál verði sem fyrst leitt til heillavænlegra lykta, þá mun ég fella niður svör að sinni, þótt ég hafi skrifað ýmislegt fleira hjá mér, en ef einhverjar nýjar væringar koma fram í máli þessu síðar, mun ég ekki ganga í bindindi um svör.