07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (3980)

177. mál, hæstaréttardómaraembættið

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessa till. Hún er fram komin til þess að firra ríkissjóð útgjöldum, er leiðir af því að greiða Lárusi H. Bjarnason eftirlaun, með því að hann taki við hæstaréttardómarastarfinu aftur. Honum var veitt lausn síðastl. sumar án þess að hann sækti um hana. Hann var þá alvarlega veikur, en nú hefir hann náð svo góðri heilsu, að hann virðist vel geta gegnt þessu starfi, svona erfiðum tímum verðum við að spara fé, þó að ekki sé um stærri upphæðir að ræða en hér. Við höfum ekki ráð á því að láta embættismenn hætta störfum á sæmilegum aldri og greiða þeim full laun. Hinir dómararnir í hæstarétti eru komnir nálægt 65 ára aldri, og yrði þeim vikið frá, er þeir ná því aldursmarki, þyngist eftirlaunabyrðin á ríkissjóði mikið. Ég vona, að ekki þurfi að verða harðar umr. um þetta mál, enda mun ég ekkert tilefni gefa til þess. Ég læt því útrætt um þetta mál að sinni.