07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (3982)

177. mál, hæstaréttardómaraembættið

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. Barð. er velkomið að hafa hvaða skoðun á mínum aðferðum, sem hann vill; ég ætla mér ekki að hafa hann fyrir neinn lærimeistara, og mun fara mínu fram, hvað sem hann segir. Ég hefi ekki gefið hér tilefni til neinna umr., sem ekki væri sama, þó að þessi maður sjálfur heyri, enda er mér vitanlega, ef satt er frá sagt, ekki hægt að segja neitt það um þennan mann, sem ekki er sama þó kæmi fram. Hinsvegar mátti skilja svo orð hv. þm. Barð., að í þeim feldust dylgjur um þann merka mann, sem hér er um að ræða, en í till. minni og framsögu lá ekki annað en maklegt hól.

Ég veit, að hv. stjórnarflokkur getur ráðið niðurlögum þessarar till., en þar er bent á möguleika til þess að spara allverulega upphæð. Þó að þessi maður sé orðinn 65 ára, þá heldur hann áreiðanlega dómarahæfileikum sínum óskertum, og því á þá ekki að nota þá, ef hann er fáanlegur til starfsins, en um það er mér ókunnugt? Við höfum ekki ráð á að láta embættismenn fara úr embættum 65 ára, ef heilsa þeirra er svo góð, að þeir geti vel gegnt embætti. Ég tel þarfleysu að leggja hér dóm á starf þessa manns, því að hann gæti aðeins orðið á einn veg, sem sé, að hann hafi gegnt embættum sínum með sóma og dugnaði. Heilsa hans virðist nú vera orðin góð. Ég sé þennan mann oft og get borið um það, að hann er áreiðanlega eins hress og sumir okkar, sem hér sitjum. Ég tel því sjálfsagt, að till. nái samþykki þessarar hv. deildar.