07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (3983)

177. mál, hæstaréttardómaraembættið

Bergur Jónsson:

Ég get ekki séð nokkra aðra leið til þess að leggja dóm á þetta mál en þá, að gera sér grein fyrir því, hvað æskilegt það er, að stj. leiti til þessa manns og biðji hann að halda áfram starfi sínu. Ef þessi till. kemur til almennra umr., hlýtur þetta að verða höfuðatriðið. Frá minni hálfu hefir það talsvert að segja, að hér er að ræða um gamlan kennara minn, sem ég mat mikils sem slíkan, og leiðist því, ef honum verður gert gramt í geði nú á gamals aldri með umr. um hæfileika hans. Ég vil mótmæla því fastlega, að í fyrri ræðu minni hafi falizt nokkrar dylgjur um þennan mann; slíkt datt mér ekki í hug. Ég vil engan dóm leggja á hann eða starf hans, hvorki lofa það né lasta, því ég álít það ekki við eigandi.

Hv. 2. þm. Skagf. sagðist ekki vilja hafa mig fyrir siðameistara, enda geri ég ekkert tilkall til þeirrar stöðu, en ég þykist hafa leyfi til þess að segja, hvað það er, sem ég vil greiða atkv. og tala um hér á þingi. Ég endurtek það, að ég álít þetta mjög taktlausa aðferð hjá hv. þm., og mætti ætla, að honum væri í nöp við þennan dómara, en svo mun þó ekki vera. Ég mun halda fast við þá till. mína, að málinu verði vísað til stjórnarinnar.